Thursday, 1 November 2007

3

Hér skammt frá gistingunni stendur kirkja. Stór og tignarleg hefur hún sig til himins, þótt hún sé gömul og farin að láta á sjá. Ég rölti framhjá henni í gærkveldi á göngu minni og ákvað að athuga hvort hún stæði opin. Þykk viðarhurðin var ólæst. Inni var dimmt þrátt fyrir klingjandi kristalkrónurnar sem loguðu hátt yfir höfði manns. Kveikt var á kertum hér og þar. Gömul kona, einhvers konar kirkjuvörður kom gangandi til mín og brosti. Hún virtist glöð yfir að fá einhvern í heimsókn. Hún sagði ekkert, heldur sýndi mér með handahreyfingum að mér væri óhætt að ganga um og skoða. Ég fékk mér sæti á bekk. Þögnin, kyrrðin þarna inni sveif á mig og ég hallaði aftur augunum.

Ég held ég hafi ekki farið inn í kirkju síðan pabbi var jarðaður. Hef aldrei fundið fyrir þörf til þess. Mamma á það til að fara í kirkju, hún reyndi þegar ég var yngri og bjó hjá henni að draga mig með sér, en ég fór aldrei með henni. Þar sem ég sat þarna með lokuð augun rifjaðist upp atvik frá því ég var lítill. Þetta var stuttu eftir að pabbi dó. Í þorpinu fyrir vestan. Þetta var um vetur. Ég hafði ásamt vini mínum og öðrum krökkum eytt deginum eftir skóla í brekkunni fyrir ofan kirkjuna heima. Hún var löng og brött og tilvalin til að renna sér niður á þotu. Það var tekið að skyggja. Brekkan iðaði af lífi. Hinum megin við götuna stóð kirkjan og í kringum hana garður fullur af dauðu fólki. Skyndilega heyrði ég tónlist. Fallegri tóna hafði ég aldrei heyrt. Hún kom úr kirkjunni og hún dró mig til sín. Ég stóð sem dáleiddur um stund neðst í brekkunni, nýkominn úr einni salíbununni og því næst gekk ég af stað. Ég skildi þotuna eftir þar sem hún lá, gekk yfir götuna og settist á kirkjutröppurnar. Hlustaði. Inni var organistinn að æfa sig fyrir jarðarförina sem átti að fara fram næsta dag. Þá átti að jarða pabba.

Allt í einu stóð Ari, besti vinur minn við tröppurnar. Mamma hafði einmitt beðið hann um að fá mig út að leika til að dreifa huganum. Honum hefur líklega fundist hann vera að bregðast skyldu sinni með því að hafa misst sjónar af mér. Hann settist við hliðina á mér og þarna sátum við saman og hlustuðum á kirkjuorgelið spila. Og það var þá fyrst sem ég áttaði mig á því að ég fengi aldrei að sjá pabba aftur.

Guðrúni fannst eitthvað merkilegt við það að ég væri föðurlaus. Eins og það væri mjög svalt, eins og maður hefði gengið í gegnum eldskírn og væri fyrir vikið þroskaðri einstaklingur, og dýpri en aðrir. Ég gekkst upp í þessu í fyrstu, þegar við vorum að kynnast. En seinna meir varð það eins og svo margt annað bensín á fyrirlitninguna sem óx í brjóstinu á mér.

En ég vil ekki fara alla leið þangað strax. Enn sem komið er dvel ég við okkar fyrstu stundir saman. Stundir sem eru þær bestu sem ég hef upplifað. Til dæmis þegar við sátum föst í bíl í blindbyl uppi á Holtavörðuheiði. Ætluðum að hitta vini í Hrútafirðinum, vera viðstödd afmælisveislu. Við komumst ekki lengra en upp á heiðina, enda áttum við aldrei að leggja af stað í slíku veðri. Þrátt fyrir að allt væri kolsvart í kringum okkur þóttist hún nokkuð viss um hvar við vorum. Hún vissi um lítið hús sem stóð þarna nálægt veginum og hýsti strandaglópa eins og okkur. Ég ætlaði aldrei að fást með henni út að finna húsið, en lét að lokum til leiðast. Við klæddum okkur í þær yfirhafnir sem hendi voru næstar og lögðum af stað. Hún hafði rétt fyrir sér. Við þurftum ekki að ganga langt áður en við komum að húsinu. Þar eyddum við nóttinni. Og þótt svo að inni væri ekki boðið upp á nein lúxus þægindi, engin þægindi í raun, þá létum við fara vel um okkur og vildum helst ekki fara þaðan morguninn eftir þegar veðrinu hafði slotað.

"Veistu," sagði hún þá um nóttina. "Ég veit að ég næ aldrei að skilja þig fullkomlega. Hluti af þér er svo langt í burtu að það virðist vonlaust að komast þangað. Kannski er það þess vegna sem ég vil eyða ævinni með þér." Ég faðmaði hana fast að mér. Þessar heitu tilfinningar sem hún bar til mín, þessi einlægni hennar, hélt á mér hita þessa nótt.