Pabbi fór æ oftar út á kvöldin, ef mamma var ekki að vinna. Líklega hefur hann ekki þolað þrúgandi þögnina á heimilinu. Meira að segja ég, lítill gutti, átti erfitt með að sofna þegar ég heyrði ekki lengur raddirnar í mömmu og pabba frammi í stofu. Ég átti erfitt með að venjast þessari þögn, og auðvitað skildi ég ekki þá af hverju hún stafaði. Eitt sinn spurði ég pabba hvert hann færi á kvöldin. Hann brosti og spurði mig hvort ég vildi koma með honum. Um kvöldið tók hann mig með sér. Hann leiddi mig áleiðis upp í hlíð, flautaði lagstúf en sagði ekki neitt. Og eins mikið og mig langaði að segja honum hvernig mér leið, spyrja hann allra erfiðu spurninganna sem herjuðu á mig, þá var ég þrátt fyrir allt bara lítill gutti, og gat engan veginn komið neinu af þessu í orð. Ég þagði því líka og naut þess að vera með pabba á rölti um kvöld. Yfir okkur stjörnubjartur himinn.
Við höfðum gengið nokkuð hátt, þegar við komum að stórum kletti. Pabbi fór með mig upp fyrir klettinn og þaðan var greið leið fram á brúnina. Þar settumst við, pabbi tók upp pípuna sína, tróð í hana og kveikti í. Útsýnið var stórkostlegt. Fjörðurinn spegilsléttur og fyrir neðan okkur kúrðu húsin í þyrpingu og reyndu að ylja hvert öðru með ljósum sínum.
"Ferðu hingað á kvöldin," spurði ég.
"Já. Þetta er hásætið mitt. Hér uppi er ég konungur fjarðarins."
"Og ég prins."
Hann klappaði mér á kollinn. Svo sagði hann:
"Þú veist það Eiríkur að á endanum fer allt vel. Hvernig sem hlutirnir birtast manni, þá fer allt vel að lokum." Hann faðmaði mig að sér. "Og eitt verður maður alltaf að muna. Maður verður alltaf að vera góður við mömmu sína. Maður verður að passa hana."
"Við pössum hana saman."
Hann þagði um stund.
"Já. Við pössum hana saman."
Ég hef svo oft hugsað aftur til þessarar stundar, þar sem við sátum þarna feðgarnir. Þegar ég varð eldri áttaði ég mig á því að hann vissi fullvel að dagar hans voru senn taldir. Ætli ég sé ekki ennþá að halda í þá veiku von að það sem hann sagði við mig þarna á klettinum sé satt.
Guðrún átti nokkra kærasta á undan mér. Þeir voru allir skíthælar og hálfvitar og hún var búin að ákveða að vera alltaf ein, því það var augljóst að ekki væri til maður sem henni var samboðinn. Og þá fann hún mig. Þannig var hennar saga, auðvitað sögð til að gleðja mig og til að undirstrika hvað hún var ánægð með okkar samband. Það var fallegt af henni, en þetta var þó langt því frá að vera satt.
Maður finnur hvernig takið losnar. Það er sama hversu fast maður heldur, ef hugurinn er ekki með manni. Eins og þegar maður kyrkir manneskju, hugsunin þarf öll að vera í takinu um hálsinn, þar til yfir líkur.
Ég hélt fast og vildi ekki sleppa, en Guðrún var farin að hugsa um eitthvað annað. Ég bar þetta undir hana, spurði hana hvort ekki væri allt í lagi. Hjá okkur. Hún sagði svo vera. Að ég ætti ekki að hafa áhyggjur af öðru. Og hún kyssti mig. Ég heyrði og vissi að hún var ekki að segja mér satt. Samt sem áður leyfði ég mér að fljóta á lyginni aðeins lengur. Treysti mér ekki í annað.