Tuesday, 27 November 2007

19

Hún kveikti upp í bálinu innra með mér. Hvernig hún lék sér að mér með því að þykjast vera blíð, þóttist vera búin að taka mig í sátt en réðist svo snöggt til atlögu, sneri mig niður og traðkaði á hausnum á mér. Hló að mér. Ég fann aftur heiftina í brjóstinu, svo sterka að ég átti erfitt með að anda. Ég dreif mig út til að komast í ferskt loft. Reyndi um leið að róast. Vissi að ég mætti alls ekki láta þessar sterku tilfinningar ná tökum á mér. Þessa heift, og hræðsluna sem var um leið að lama mig. Ég var skíthræddur. Stelpan talaði við mig eins og hún vissi um allt sem ég hafði á samviskunni. Hún horfði þannig á mig. Svo sjálfsörugg. Eins og hún gæti auðveldlega afhjúpað mig. En hún getur engan veginn vitað, enginn veit neitt, nema ég sjálfur.

Ana-Felicia fann mig fyrir utan. Ég sagði henni að mér liði ekki vel og væri á leiðinni heim. Hún ætlaði að koma með mér, en ég hvatti hana til að vera áfram. Þegar hún vildi ekki láta segjast, gerði ég henni ljóst að ég vildi vera einn. Ég sá að henni sárnaði og breiddi yfir vanlíðan mína með brosi, sagði að ég vildi ekki hafa á samviskunni að draga hana úr partýi þar sem augljóslega væri gaman, ég færi beint að sofa þegar heim væri komið. Hún fór að lokum aftur inn.

Ég fór ekki að sofa. Ég sat lengi á svefnsófanum og áður en ég vissi af var ég búinn að ná í hnífinn ofan í ferðatöskuna. Handlék hann. Skoðaði hann. Hann var tandurhreinn. Ég setti hann ekki aftur á sama stað, heldur í handtöskuna með stílabókunum og pennunum sem ég hef á öxlinni hvert sem ég fer.

Í morgun þegar Ana-Felicia var farin í skólann, drakk ég morgunkaffið mitt í rólegheitunum og gekk því næst sömu leið. Ég kom mér fyrir hinum megin götunnar og beið. Allann daginn beið ég. Seinni partinn sá ég Önu-Feliciu koma út úr byggingunni og halda heim á leið. Enn einn klukkutími leið og ég var að því kominn að gefast upp og snúa við þegar hún birtist. Hún var ekki ein. Með henni var strákur, ég kannaðist við andlitið úr partýinu. Þau gengu saman að næstu lestarstöð og tóku sporvagn út úr hverfinu. Ég elti. Þau fóru inn á matsölustað og fengu sér að borða. Ég beið fyrir utan. Þegar þau komu út aftur kvöddust þau og héldu sitt í hvora áttina. Hún gekk drjúgan spöl en kom síðan að stóru fjölbýli þar sem hún fór inn. Ég leit á götuskiltið. Skrifaði nafnið hjá mér og númerið á húsinu. Hérna get ég fundið hana.

Ætli Guðrún komi í heimsókn?
Núna sé ég ekkert nema myrkur.