Þegar ég fór fram í kvöld til að hella upp á kaffi sat Ana-Felicia í sófanum í stofunni og horfði á sjónvarpið. Hún spurði hvort ég hefði séð myndina sem var í tækinu. Þetta var rússnesk kvikmynd eftir einn af hennar uppáhalds leikstjórum, sem ég kannaðist ekki við. Ég settist hjá henni með kaffibollann. Hún var komin áleiðis inn í myndina en vildi ólm fara til baka að upphafinu, ég yrði að sjá hana frá byrjun. Meðan við horfðum færði Ana-Felicia sig nær mér, þar til höfuð hennar hallaði upp að mér. Mér þótti það þægilegt, mér er farið að líða betur og betur í návist hennar. Á borðinu stóð hvítvín og hún spurði hvort ég vildi ekki í glas. Ég afþakkaði, sagðist láta kaffið duga í þetta sinn. Ég hef aldrei verið duglegur við að drekka áfengi.
Pabbi drakk. Þegar hann var yngri drakk hann mikið. Svo kynntist hann mömmu og hún bjargaði honum, sagði hann stundum. Hann hætti að drekka. Góður vinur hans hélt svallinu hins vegar áfram og varð með árunum æ sorglegri spegilmynd af þeim manni sem hann hefði hugsanlega getað orðið. Ætli hver byggð verði ekki að eiga sinn róna. Þessi vinur pabba tók það hlutverk að sér í þorpinu.
Svo gerðist það að pabbi opnaði flöskuna aftur og teygaði stórum. Það kvöld sat hann heima ásamt gesti sem hann hafði boðið í heimsókn. Hann sendi mig inn í rúm skömmu eftir kvöldmatinn, og gerði allt sem hann var vanur að gera. Hann breiddi yfir mig sængina og saman fórum við með faðir vorið. Eftir bænina sat hann óvenju lengi á rúmstokknum og strauk mér blíðlega um vangann. Hann var ólíkur sjálfum sér. Augun sukku djúpt inn í andlitið og hann hélt ekki fullkomnu jafnvægi. Ég vissi vel að ástæðuna var að finna í glærum vökvanum sem hann hafði verið að drekka. Þar sem ég lá og reyndi að sofna, heyrði ég í pabba og vini hans frammi í stofunni. Í staðinn fyrir þögnina var komið skvaldur sem mér fannst óhugnanlegt og ég var enn vakandi nokkrum klukkustundum síðar þegar mamma kom heim.
Ég býst við að þau hafi sagt það sem þau höfðu þráð að segja hvort við annað í langan tíma. Allt það sem hafði falið sig í þögninni braust nú fram. Ég hafði aldrei áður heyrt þau öskra hvort á annað, aldrei heyrt þau nota jafn ljót orð. En ég man að ég grenjaði ekki þar sem ég lá inni í herberginu mínu. Ég lokaði augunum fast og beið eftir að þetta tæki enda. Að lokum fór pabbi ásamt vini sínum. Skellti útidyrahurðinni á eftir sér.
Þessi rússneska mynd var allt í lagi, en langt frá því að verða mitt uppáhald. Kannski að maður þurfi að læra kvikmyndagerð til að greina snilldina. Þegar henni lauk var Ana-Felicia sofnuð við hliðina á mér. Ég smeygði mér varlega undan höfði hennar, setti kodda í staðinn og breiddi yfir hana teppi. Þar sefur hún enn.