Tuesday, 13 November 2007

10

Ég vann í Önu-Feliciu í kvöld. Það gekk mjög vel. Við erum komin hvort í sitt herbergi eftir að hafa eytt kvöldinu saman. Ég held ég geti hiklaust hrósað sigri. Allt fór nokkurn veginn eins og ég hafði hugsað mér. Undir lokin var áfengið farið að svífa á hana, hún drakk ansi mikið, á meðan ég sötraði á vínglasi.

Ég hef aldrei verið flínkur að elda. Hugsanlega er það eitthvað sem ég gæti komist upp á lag með, en ég hef lítið æft mig í gegnum tíðina. Hef bara ekki fundið löngun til þess. Einhvern tíma, ekki man ég hvenær né af hverju, lærði ég þó einfaldan en afar ljúffengan pastarétt, spagettí í ostasósu og í dag fór ég og keypti inn það hráefni sem vantaði í eldhúsið. Sem meðlæti keypti ég alls kyns grænmeti í salat, hvítlauksbrauð, og flösku af hvítvíni. Mér hafði vissulega dottið í hug að bjóða Önu-Feliciu út að borða og losna þannig við alla fyrirhöfn. Nóg er af veitingastöðum í grenndinni. Eftir á að hyggja leit það út fyrir að vera alltof skipulagt. Of mikil sögn í því fannst mér, og það mátti ekki.

Ana-Felicia var lengi í skólanum í dag og þegar hún kom heim var ég byrjaður að elda. Hún var mjög undrandi en fyrst og fremst glöð, enda glorsoltin og tók hraustlega til matar síns. Ég lagði mig allann fram um að vera skemmtilegur félagsskapur. Það var satt að segja með ólíkindum hvað ég var hress, og hefði einhver sem þekkti mig betur en Ana-Felicia setið þarna með okkur, hefði viðkomandi auðveldlega séð í gegnum mig. Ég spurði hana út í námið, og komst meðal annars að því að hún er að læra kvikmyndatöku. Kvikmyndir virðast eiga hug hennar allann og hún lifnaði öll við að tala um þetta stóra áhugamál sitt. Ég hlustaði á lélega enskuna og þóttist skilja allt sem hún sagði, þótt stundum hafi það verið útilokað. Ana-Felicia er reglulega indæl stelpa. Hún er full af einhverjum lífskrafti, gleðin í augunum er svo sterk að stundum er eins og þau gneisti. Hún brosir mikið. Og bros hennar er fallegt. Þegar hvítvínsflaskan var búin, stóð hún upp og sótti bjór í ísskápinn. Hún hló og hafði á orði að Rúmenar væru einu sinni þannig gerðir að þeim finndist illa farið með gott vín að stoppa eftir eina flösku.

Hún spurði mig í kvöld hvort ég ætti kærustu. Ég sagði sem satt er, ég á enga slíka. Hún vildi vita meira, hvenær ég hefði átt kærustu, hvernig konum ég laðaðist að, eitthvað í þessum dúr. Helst vildi ég segja að henni kæmi það ekki við. En ég var ánægður með hvernig kvöldið hafði tekist, og í staðinn, og án teljandi vandræða, endurhannaði ég fortíðina. Og þar var engin Guðrún. Nei, ég átti síðast kærustu fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan. Stelpu sem var talsvert yngri en ég. Það hefði verið nokkuð gæfuríkt samband, en hún hefði farið til útlanda í nám og við það myndaðist skarð sem ekki var fyllt upp í. Síðan þá hefði ég verið tiltölulega rólegur. Sagan rann upp úr mér hindrunarlaust og hún horfði á mig með þessum gneistandi augun og trúði öllu.

Það var að lokum ég sem sagðist vera orðinn þreyttur. Sagði henni að láta allt leirtau eiga sig, ég gengi frá því á morgun. Hún gekk til mín og faðmaði mig. Þakkaði fyrir sig. Og svo kyssti hún mig á munninn. Og ég kyssti hana á móti. Ég held hún hafi verið að bíða eftir að ég stingi upp á að við héldum áfram. Í staðinn strauk ég henni um vangann og bauð góða nótt.

Ég er gjörsamlega úrvinda.