Friday, 23 November 2007

17

Ef vinkona Guðrúnar er í námi í sama skóla og Ana-Felicia, eiga þær eftir að hittast og ræða saman og þar fær Ana-Felicia að heyra sannleikann. Þess vegna var þessi fáranlega saga mín um vin, systur hans og ógreidda skuld ekki að koma mér að miklu gagni, nema síður væri. Eftir svefnlitla nótt hafði ég áttað mig á að best er fyrir mig að halda mig eins nærri sannleikanum og ég get. Þannig held ég stóra leyndarmálinu mínu frá óþarfa athygli. Nú veit Guðrún hvar ég er. Það er allt í lagi. Hún veit að ég er farinn að hitta aðra konu. Það er líka allt í lagi, satt að segja er það gott. Hér eftir hættir hún að spyrja um mig, nú lætur hún mig örugglega í friði og ég get haldið áfram að vinna í því að koma lífi mínu í réttar skorður. Ég veit ekki hvað ég ætla mér í sambandi við Önu-Feliciu. Enn sem komið er hentar hún mér vel. Mér líður vel hér og það að vera í kringum hana dreifir huganum. Og það er einmitt það sem ég þarf. Ég þarf að gleyma og halda áfram.

Í morgun talaði ég við hana áður en hún fór í skólann. Bað hana afsökunar á því að hafa sagt ósatt. Bar því við að hin skyndilega heimsókn hefði komið flatt upp á mig. Sagði henni sannleikann, nokkurn veginn og án þess að fara út í smáatriði. Ég minntist ekki á hnífinn, en viðurkenndi þó að ég hefði verið nokkuð reiður og það hefði gert Guðrúni skelkaða. Ég hefði beðið hana afsökunar áður en ég kvaddi. Ég lagði áherslu á við Önu-Feliciu að mér þætti skipta máli að hlutirnir héldust óbreyttir okkar á milli. Mér líkaði vel við hana og langaði að sjá hvert okkar samband stefndi, það væri vissulega ennþá ungt og viðkvæmt. Atvikið kvöldið áður mætti ekki eyðileggja það. Ana-Felicia hlustaði og horfði beint í augu mín meðan ég talaði. Þegar ég hafði lokið máli mínu brosti hún og þakkaði mér fyrir hreinskilnina. Hún sagðist ekki vön slíkri hreinskilni að hálfu karlmanns. Þetta væri líklega eitthvað íslenskt. Ég held hún hafi gert sér þetta að góðu. Við gerðum það á sófanum áður en hún lagði af stað, alltof sein í fyrsta tíma.

Þegar hún lokaði á eftir sér dreif ég mig í föt, klæddi mig í jakka og skó og hélt á eftir henni. Mig langaði að vita hvar skólinn hennar er. Ég vissi að leiðin var ekki löng, hún hafði tekið þessa íbúð á leigu vegna þess að hún var í göngufjarlægð. Ég hélt mig hæfilega langt frá og fylgdi henni alveg að skólabyggingunni. Horfði á eftir henni fara þangað inn. Ég skoðaði fólkið sem stóð fyrir utan. Líklega var ég að athuga hvort ég sæi vinkonu Guðrúnar. Ég á eftir að komast að því hvar hún býr í borginni. Því næst fór ég aftur heim.

Í Mogganum í dag er lýst eftir manni. Þar er mynd af honum. Þeir sem geta gefið upplýsingar um aðsetur hans eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Lögregluna í Reykjavík. Í töskunni minni inni í herbergi, á botninum undir bókum og fötum liggur hnífur. Af einhverjum ástæðum tók ég hann með mér hingað út.