Wednesday, 14 November 2007

11

Ég man þegar Guðrún spurði mig hvort ég hefði einhvern tíma leitað mér hjálpar. Það væri gott að tala um vandamál sín. Allur sá pakki. Hún sagðist geta bent á aðila sem væru mjög hæfir. Sjálf hefði hún hugleitt á tímabili að ræða við einn slíkan. Hugleitt. Hún fór aldrei, því auðvitað var ekkert að henni. Það var ég sem átti við vandamál að stríða. Þetta var um það leyti sem takið fór að slakna og ég fylltist tortryggni. Var hún ekki með þessu að finna sér undankomuleið? Ég spurði hana út í það sem hún sagði í kofanum uppi á heiðinni. Hvað varð um stúlkuna sem elskaði mig eins og ég er, og vildi vera með mér þess vegna? Hún brosti, sagði að hún stæði við þau orð, en sér þætti vont að vita til þess að mér liði illa. Ég sagði henni að það væri nákvæmlega ekkert að mér. Hún þagði og horfði undan. Ég spurði hvað hún hefði fyrir sér í því að mér liði svo illa að ég þyrfti að leita mér hjálpar. "Þú ert stundum svo þungur. Ekkert stundum. Þú ert mjög oft þungur. Og mér finnst eins og það gerist æ oftar." Hún gekk til mín og faðmaði mig. "Ekki misskilja mig. Mér finnst bara eins og þér líði ekki vel. Og ef þér líður ekki vel, þá líður mér ekki vel. Þú hlýtur að skilja það, er það ekki?" "Viltu ekki bara slíta þessu og losna við mig?" Ég beið eftir viðbrögðum. Það var eins og þetta kæmi henni í opna skjöldu, að samtalið væri að fara í átt sem hún hafði ekki hugsað sér. En það var eftir þetta spjall sem ég missti traustið. Það var þá sem ég fór að fylgjast með henni.

Ég hugleiddi aldrei hvort þetta væri rétt eða eðlilegt. Mér fannst þetta einfaldlega besta leiðin til að komast að hinu sanna. Sjá hvert hún fór og hvenær og hvern hún hitti þegar hún var ekki með mér. Þannig kæmist ég að sannleikanum, þannig fengi ég að vita allt sem hún hafði ekki kjark í sér til að segja mér. Af því hún vildi hlífa mér. Ég var of brothættur, ég átti svo bágt. Og vildi ekki leita mér hjálpar.

Eitt sinn heyrði ég í henni seinnipart föstudags. Hún ætlaði um kvöldið að fara út og hitta vini. Mér bauðst að koma með, en mér heyrðist á henni að hún var meira en til í að fá frí frá mér í þetta sinn. Og ég spilaði með henni, sagðist ætla að vera heima. Um kvöldið ók ég að húsinu þar sem ég vissi að fólkið ætlaði að hittast. Ég lagði bílnum í nokkurri fjarlægð, þar sem ég gat þó fylgst með gestum koma og fara, og heyrði jafnvel í köldkyrrðinni það sem fram fór á svölunum, þar sem liðið stóð og reykti.

Hún kom gangandi upp götuna á móti mér. Ég hafði aldrei séð hana jafn glæsilega. Mig langaði helst að stökkva út úr bílnum, hlaupa til hennar og faðma hana að mér. En ég sat kyrr. Allt kvöldið sat ég í bílnum. Ég sá hana á svölunum. Þar var fólk sem ég þekkti, og aðrir sem ég kannaðist ekkert við. Sérstaklega vakti athygli mína strákur sem sýndi kærustunni minni mikinn áhuga. Guðrún virtist njóta athyglinnar, hún hló sínum hvella hlátri og lék á alls oddi. Ég beið fyrir utan allt þar til samkvæmið leystist upp og því næst elti ég leigubílana niður í bæ. Ég sá hvar þau gengu inn á skemmtistað og þá ákvað ég að láta gott heita og hélt heim á leið.

Ég er búinn að kaupa mér áskrift af Mogganum á netinu. Ég fletti í gegnum minningargreinarnar í öllum þeim blöðum sem komið hafa út síðan ég kom hingað. Hvergi sá ég andlit sem ég kannaðist við.