Monday, 19 November 2007

14

"Þú ert sérstakur maður," sagði Ana-Felicia við mig í kvöld. "Þú segir ekki mikið. Þú ert eitthvað svo dularfullur. Augun þín, það býr eitthvað svo mikið á bak við þau. Ég veit ekki almennilega af hverju, en mér finnst þú mjög spennandi náungi.Mjög mjög spennandi." Hún hló og kyssti mig. Við lágum nakin í rúminu hennar.

Í morgun var bankað létt á hurðina hjá mér. Hún opnaðist og Ana-Felicia gægðist brosandi inn. Hún sagðist vera á leiðinni á uppáhalds staðinn sinn í borginni og spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég þakkaði gott boð og dreif mig á fætur. Ég svaf fast og vel í nótt. Engir draumar að ásækja mig. Eftir góðan kaffibolla vorum við komin upp í lest áleiðis að borgarmörkunum. Sól skein hátt á lofti, húsaþyrpingar ferðuðust í gagnstæða átt og brátt tóku að birtast hávaxin tré og gróður. Okkar beið greinilega góður staður.

Við gengum niður að stóru vatni og í kringum það lá stígur inn á milli trjánna. Þarna var margt um manninn, en Ana-Felicia smeygði sér fimlega framhjá því fólki sem varð á vegi okkar, hélt í hendina á mér og dró mig rösklega með sér. Hún sagðist vilja vita hvort staðurinn hennar, hinum megin við vatnið, væri laus. Þar smeygðum við út af stígnum og klöngruðumst niður bratta brekku, þar til við komum loks niður í litla vík. Þar var enginn, enda ekki víst að margir viti af þessum stað, svo vel er hann falinn undir brekkunni. Ana-Felicia dró teppi upp úr tösku sem hún hafði meðferðis og við breiddum úr því ofan á sandinn. Upp úr töskunni kom líka kaffibrúsi, könnur og súkkulaði. Við lögðumst á teppið. Á vatninu nálægt okkur var lítill árabátur og í honum stóð gamall maður með veiðistöng. Hann var með útvarp í bátnum og úr því ómaði gamall Kinks slagari. Aftur og aftur sama lagið. Dedicated follower of fashion.

"Jæja. Hvenær heldurðu að við sofum saman?" Ég átti ekki von á spurningunni og sagðist eftir smá umhugsun ekki vita það. Þá sagði hún: "Ég veit ekki með þig, en ég vona að það gerist bráðlega." Svo leit hún undan, tók upp bók og fór að lesa. Við eyddum drjúgum hluta dagsins þarna við vatnið. Við sögðum lítið, Ana-Felicia las í bókinni sinni, og eins mikið og hún hefur þörf fyrir að tala, þá lét hún það eiga sig og virti mig varla viðlits. Ég lá við hlið hennar og horfði út á vatnið. Ég var hálft í hvoru að bíða eftir að hún leggði frá sér bókina en hún hélt áfram að lesa. Ég stóð upp og fékk mér gönguferð kringum vatnið. Þegar ég kom aftur, lagðist ég hjá henni, hrifsaði af henni bókina og kyssti hana. Hún greip þéttingsfast utan um mig og kyssti mig af áfergju. Hún virtist helst vera á því að gera það þar og þá en ég sagðist vilja fara heim. Við keluðum í lestinni til baka og þegar heim kom fórum við beint inn til hennar.

Henni finnst ég dularfullur maður. Vissulega á ég mín leyndarmál. En þrátt fyrir allt er ég ósköp venjulegur. Í kringum þessa stelpu líður mér eins og ég sé eins og hver annar. Ég held jafnvel að hún sé komin inn í líf mitt til að bjarga mér frá þeirri glötun sem ég stefndi í.