Monday, 12 November 2007

9

Mig dreymdi í nótt, og draumurinn var svo raunverulegur að það tók mig langan tíma að ná áttum, þegar ég vaknaði. Við lágum hlið við hlið uppi í rúmi, ég og Guðrún, og hún söng fyrir mig, lágt, nánast hvíslandi. Þetta var vísan sem við þekktum bæði frá því við vorum lítil. Pabbi svæfði mig stundum með henni. Eitt sinn, þegar ég sat og las í bók og Guðrún við hliðina á mér að prjóna, byrjaði hún að söngla þetta lag. Ég leit upp undrandi. Ég hafði ekki heyrt þessa vísu í mörg ár. Amma Guðrúnar hafði oft sungið þetta fyrir hana. Þetta var eitt af þessum litlu atvikum sem fær ástfangið fólk til að trúa að tilviljanir séu ekki til. Okkur var ætlað að vera saman.

Í draumnum lá ég við hliðina á henni og í höfði mínu ómaði hvíslandi rödd hennar, hún rann niður bakið á mér, niður í fæturna, eins og blý, ég þrýstist niður í rúmið og gat mig hvergi hreyft. Mér fannst gott að liggja þarna hjá henni, lyktin af henni fyllti vit mín. En um leið fór hjartað að slá örar og ég fann fyrir einhverjum óhug. Guðrún reis rólega upp frá mér og horfði fast í augu mín. Ennþá syngjandi, svæfandi hvíslið lamaði mig. Skyndilega þagnaði hún og tók að strjúka mér þar sem ég lá. Hún brosti þegar limurinn á mér tók að rísa. Svo sagði hún:
"Við verðum að ná okkur í vörn. Ekki ætla ég að láta þig barna mig. Ég vil ekki eiga börnin þín. Þú veist það. Þau yrðu skrýtin eins og þú. Þau yrðu geðsjúk, geðsjúkt glæpahyski. Eins og pabbi sinn." Hún sagði þetta kankvís, eins og í gríni. "Bíddu," sagði hún og steig úr rúminu og hvarf úr herberginu. Ég lá kyrr og fann hvernig kaldur sviti byrjaði að renna niður ennið á mér. Ég reyndi að rífa mig lausan en það var lífsins ómögulegt. Allt í einu stóð hún yfir rúminu. Hún hélt á stórum hníf. "Ég fann það sem við þurfum," sagði hún. Hún lyfti hnífnum hátt yfir höfuð sér og rak hann því næst á kaf í magann á mér. Ég fann hvernig blaðið fór í gegnum mig og sat fast í dýnunni undir mér. Ég engdist um og sársaukinn reif mig upp úr svefninum. Ég vaknaði á sófanum, rúmfötin svo gegnblaut að ég var viss um að hafa migið í þau.

Ég var staddur í neðanjarðarlestinni í dag þegar inn kom hópur af Íslendingum á einni stoppistöðinni. Þau höfðu hátt og hlógu þar sem þau sátu rétt fyrir aftan mig. Ég stóð upp og flýtti mér yfir í hinn enda lestarvagnsins. Á næstu stöð dreif ég mig út og hljóp af stað upp á götuna fyrir ofan.

Ég get ekki haldið svona áfram. Það er auðvelt að gefast upp. Ég gæti hæglega pakkað saman og komið mér aftur heim. Játað brot mín, tekið afleiðingunum. En þrátt fyrir allt finn ég ennþá inni í mér lítinn neista. Þessi neisti segir mér að ég eigi að halda áfram. Þrauka. Komast yfir þetta. Skilja raunveruleikann frá ímyndun og draumum. Hann segir mér að gæta mín. Nú ríður á að taka rétt skref. Ég hringdi í mömmu í kvöld. Við töluðum stutt en ég sagði henni að mér liði afskaplega vel. Ég held henni hafi þótt gott að heyra í mér röddina. Hún spurði mig hvað hún ætti að segja Guðrúni ef hún hefði aftur samband. Ég bað hana að skila kveðju, og segja henni að ég væri á góðum stað og að mér liði vel. Guðrún þekkir mig betur en svo að hún trúi hverju sem er. Ég er þó að vona að hún láti kyrrt liggja og reyni ekki að hafa upp á mér.

Nú þarf ég að einbeita mér að sambandinu við meðleigjandann minn. Ég held að Ana-Felicia sé farin að halda eitthvað um mig, og því verður að breyta.