Tuesday, 20 November 2007

15

Hér í næsta nágrenni við húsið okkar er stór leikvöllur. Þar byrja krakkar að leika sér snemma á morgnana og eru að langt fram eftir degi. Lætin bergmála um hverfið. Ég kann vel við þau hljóð. Við leikvöllinn stendur tilkomumikið tré, undir því er bekkur og þar sitja fyllibyttur og drekka. Ég held mig í hæfilegri fjarlægð þegar ég þarf að ganga framhjá, en gjói ósjálfrátt til þeirra augum, eins og til að hafa varann á. Þarna má til dæmis iðulega sjá kallinn sem reyndi að tala við mig daginn sem ég flutti í hverfið. Hann virðist vera eins konar höfðingi yfir þessum raunalega flokki. Ég hef séð hann standa og fara með ræður á meðan hinir sitja stóreygir og þögulir og hlusta á spekina. Ég veit að orð hans eru lítið annað en samhengislaust kjaftæði, óskiljanlegt raus. Kallinn hefur þó blessunarlega látið mig í friði síðan þarna um daginn. Ætli hann líti ekki á mig sem glataða sál, þar sem ég vildi ekki hlusta á það sem hann hafði fram að færa. Ég veit ég þarf ekki að láta fyllibytturnar trufla mig, en ég vildi þó óska þess að samastaður þeirra væri lengra í burtu, svo ég þyrfti ekki að ganga framhjá þeim hvenær sem ég fer út úr húsi. Draugar. Það er það sem þeir eru. Lifandi, en samt dauðir.

Ég man eftir kvöldi heima í þorpinu, skömmu eftir að búið var að jarða pabba. Ég var einn heima. Mamma hafði skroppið frá, sagðist ætla að sækja fleiri kassa því hún var byrjuð að pakka og við á leiðinni burt. Ég sat við stofuborðið og hlustaði á hljómplötu á meðan ég dundaði mér við að teikna. Úti var öskrandi hríð og það hvein í gluggum. Þá var barið harkalega á útidyrnar. Ég stökk fram, bjóst við að þetta væri mamma og að hún hefði óvart læst sig úti. En það var enginn fyrir utan þegar ég opnaði. Ég lokaði og flýtti mér aftur inn í stofu. Skyndilega stóð mér ekki á sama um að vera einn í húsinu. Ég fór að eldhúsglugganum og rýndi út, í von um að sjá til mömmu á leiðinni heim. Það heyrðist hár skarkali í forstofunni, einhver var kominn inn og skellti hurðinni harkalega á eftir sér. Ég kallaði á mömmu en fékk ekki svar. Ég stífnaði upp, þorði ekki að hreyfa mig. Einhver átti við húninn á forstofuhurðinni og því næst opnaðist hún, hægt og það vældi í hjörinni sem pabbi hafði alltaf gleymt að smyrja. Ég dreif mig í hvarf við eldhúsvegginn. Veran í ganginum steig þungum skrefum inn fyrir og gekk inn í stofu. Það heyrði hvíslað: "Gestur..." Ég kannaðist við röddina og gekk varlega í átt að manneskjunni. Þarna stóð vinur pabba og studdi sig opinmynntur við sófann. Hann var allur þakinn snjó sem bráðnaði þó hratt í hitanum og rann á gólfið. Andlitið rautt og þrútið, í munnvikjunum hvít froða. "Strákur. Hvar er pabbi þinn? Ég þarf að tala við hann. Segðu honum að koma og tala við mig."
"Pabbi er ekki hér."
Ég man að mamma hafði talsverðar áhyggjur af mér eftir sviplegt fráfall pabba. Hún reyndi að ræða við mig og útskýra hvað hefði gerst, en ég forðaðist slík samtöl. Maðurinn gekk í átt til mín. "Ekki segja mér að pabbi þinn sé ekki hér. Ég veit að hann er hér og ég þarf að tala við hann!" Hann talaði hátt og benti ógnandi á mig. Það var þá sem ég byrjaði að skæla, þegar hann var kominn fast upp að mér. Hann beygði sig niður að mér og klappaði á kollinn á mér. "Ekki fara að væla strákur. Finndu bara pabba fyrir mig." Og þá kom mamma. Hún reif mig frá honum og kastaði honum út. Hún faðmaði mig að sér grátandi og bað mig að fyrirgefa sér hvað hún var lengi í burtu.

Ég er einn heima núna. Ana-Felicia fór í partý í skólanum sínum. Hún bauð mér með en ég afþakkaði. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði eytt kvöldinu hér heima með mér. Hún lifir sínu lífi meðan ég lifi mínu.