Svo viss er ég um að ég hreinsaði fullkomlega til eftir mig að síðan ég kom út hefur ekki hvarflað að mér að hafa áhyggjur af öðru. Ég neita því þó ekki að það var til að tékka á þessu sem ég fór inn á netkaffi í gær og kíkti á íslenskar fréttasíður. Þar var ekkert að finna annað en þetta dæmigerða hundleiðinlega drasl, afkoma banka og fyrirtækja. Froðusnakk um frægt fólk. Ekkert sem viðkom mér. Ég sendi mömmu tölvupóst. Hún tók nýlega upp á því að fá sér tölvu og vinkona hennar úr vinnunni kenndi henni eitt og annað um netheima. Ég gat ekki annað en skellt upp úr þegar hún sagði mér stolt frá því að nú hefði hún tölvupóstfang. Ekki get ég ímyndað mér hvað komi í innhólfið hennar annað en ruslpóstur, og svo núna nokkrar línur frá stráknum hennar í útlöndum. Ég hafði bréfið í léttum dúr, hér væri gaman og ég í góðum gír.
Það rennur á í gegnum borgina. Ég gekk meðfram henni í gær. Fyrir vestan hafði maður sjóinn nánast við húsgaflinn. Í Reykjavík þurfti maður að fara á bíl til að komast nærri sjónum. Ég gerði það oft. Keyrði niður á Granda, lagði bílnum og steig út. Settist á bekk og horfði yfir flóann á fjöllin. Það róaði mig. Stundum sat ég lengi, gleymdi mér. Hér er enginn sjór en þessi á er falleg. Á bökkum hennar standa margir bekkir, þar get ég setið ef mér sýnist svo.
Ana-Felicia hafði samband við mig í gærkveldi. Hún tjáði mér að við fengjum íbúðina núna um helgina, á sunnudaginn nánar tiltekið. Hún yrði þar í kringum hádegi og mér væri velkomið að flytja inn þá, um leið og hún. Ég sagðist ekki komast fyrr en í fyrsta lagi á mánudag. Nú er það svo, að ég er alveg að gefast upp á skarkalanum og látunum þar sem ég bý. Þetta er nær því að líkjast afdrepi fyrir vandræðaunglinga, en nokkru gistiheimili. Núna í morgun kom maðurinn í afgreiðslunni á tal við mig og tjáði mér á sinni vondu ensku að það væri ekki gert ráð fyrir að fólk dveldi þar til langs tíma. Þetta væri meira svona "come and go", eins og hann orðaði það. Ég get ekki skilið hvaða máli skiptir hversu lengi maður kýs að gista, ef maður er tilbúinn að láta fylleríshávaðann yfir sig ganga og borgar uppsett verð. Ég bauðst til að borga aðeins meira, ef ég fengi að halda herberginu mínu fram yfir helgi. Hann þagði um stund, eins og til að sýna fram á að það væri langt því frá sjálfgefið að gera mér þennan greiða, en samþykkti að lokum. Mismuninum stingur hann sjálfsagt í eigin vasa.
Ég ætla ekki að fara af þessum leiðindarstað á sunndaginn. Ég ætla að bíða aðeins lengur og sjá.
Ég er búinn að finna á korti staðsetningu íbúðarinnar sem ég hyggst leigja með þessari rúmensku stelpu sem ég veit ekkert um. Ég ætla að fara og skoða húsið að utan. Litast um í nágrenninu.
Ég verð víst að viðurkenna að ég finn fyrir hræðslu. Ég þarf að gæta þess að hún nái ekki tökum á mér.