Sjálfur verknaðurinn er eins og í móðu. Rétt eins og draumur. Ég stend mig að því að vona að þetta hafi ekki verið neitt annað, þótt ég viti betur. Allt annað er ljóslifandi. Síðustu dagarnir, aðdragandinn. Skelfingin í augunum á Guðrúni, þessi andartök þar sem hún stóð andspænis mér, fullviss um að ég ætlaði að ganga frá henni.
Undir lokin fylgdi ég henni hvert skref. Hún gerði ekkert, fór hvergi, hitti engan, án þess að ég vissi af því. Um leið fjarlægðist ég hana. Svo ákveðinn var ég í að komast að sannleikanum að ég eyddi tímanum í að fylgjast með henni, í stað þess að vera með henni. Hún var farin að taka eftir þessu og minntist á að sér finndist við hittast lítið. Ég tók undir það og sagði að mér þætti það leitt, en ég væri um tíma dálítið upptekinn. Bráðum myndi þó hægjast um og þá yrðu hlutirnir aftur eins og þeir voru áður.
Hún sinnti skólanum, hitti fjölskyldu og vini. Þessi strákur sem ég sá fyrst á svölunum var með henni í Háskólanum. Einhvern tíma fylgdi ég honum eftir og vissi hvar hann bjó. Ég sá hann oft í kringum hana, stundum sátu þau með öðru fólki á kaffihúsi en einu sinni eða tvisvar sátu þau tvö ein. Hann fékk hana til að hlæja. Hún brosti mikið í kringum hann. Saman hlógu þau. Og þrátt fyrir að standa fyrir utan og fylgjast með þeim í gegnum glerið sá ég að þau horfðu hvort á annað eins og fólk sem óskaði þess að hlutirnir væru öðruvísi en þeir voru.
Svo kom þetta kvöld.
Guðrún settist á krá eftir skóla á föstudegi með félögum sínum. Hún hringdi í mig og bað mig um að koma, þarna væri fólk sem ég þekkti vel. Ég íhugaði að láta til leiðast. Ég hafði aldrei hitt þennan vin hennar. Gerði henni það ekki einu sinni til geðs að spyrja um hann af fyrra bragði. En ég fann það á mér að það styttist í endalokin. Ég vissi að ég þyrfti aðeins að bíða örlítið lengur og þá fengi ég upp í hendurnar það sem ég leitaði að. Þau sátu fram á kvöld. Veðrið var leiðinlegt og gott að vera inni í hlýjunni. Að lokum stóð mannskapurinn upp og kom út. Guðrún gekk rakleitt af stað í áttina heim til sín. Strákurinn gekk við hlið hennar. Þau hlupu við fót undan rokinu og ég fór í humátt á eftir þeim, upp litlu hliðargötuna, að húsinu hennar. Þar stóðu þau um tíma, þétt upp við hvort annað, hann skýldi henni fyrir þungum vindinum. Hann talaði, hún hlustaði. Og því næst kyssti hann hana. Á munninn. Þau stóðu lengur. Hann sagði eitthvað meira. Hann kyssti hana aftur, laust á kinnina, og hélt svo af stað út götuna. Guðrún horfði á eftir honum. Gekk því næst inn til sín.
Ég hafði enga stjórn á mér. Það var eins og önnur manneskja, hin manneskjan, hefði brotist inn í mig og tekið yfir. Allt í einu stóð ég í forstofunni hjá henni, titrandi og skjálfandi, ekki af kuldanum úti fyrir, heldur af brennandi reiðinni. Guðrúni brá þegar ég gekk inn í stofuna. Hún sá strax að ég var ekki með sjálfum mér.
Hún grét. Hún sagði mér að þessi strákur væri bara vinur, en vissulega hefði henni liðið undarlega síðustu daga. Hún vissi ekki hvar hún stæði, gagnvart mér, gagnvart öllu. Og hún reyndi að réttlæta gerðir sínar með því að hún hefði eytt meiri tíma með honum undanfarið en með mér. Ég spurði hana hvort hún væri hætt að elska mig. Og þá þagði hún.
Áður en ég vissi af hafði ég tekið upp stóran hníf sem stóð í standi á eldhúsborðinu. Ég öskraði á hana, sagðist vilja vita af hverju hún hefði ekki sagt mér allt.
"Af því ég er hrædd við þig. En fyrst og fremst er ég hrædd um þig. Ég veit að ég sagðist vilja fylgja þér alltaf af því þú ert eins og þú ert. Og ég meinti það þegar ég sagði það. Meinti hvert orð. En ég get það ekki. Þú ert að sökkva dýpra og dýpra ofan í einhvert hyldýpi, og ég er búin að reyna að hjálpa þér upp. En þú vilt það ekki. Og þá verð ég bara að hugsa um sjálfa mig. Því ef ég geri það ekki, þá sekk ég með þér. Og það ætla ég aldrei að gera." Tárin runnu niður kinnarnar á henni og hún kipptist til í ekkasogum. Og þar sem ég stóð með hnífinn í hendinni tilbúinn að láta til skarar skríða, áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei gert henni mein. Ég hafði nú þegar sært hana of mikið. Svo ég sneri við, með hnífinn í hendinni. Og fór. Ég heyrði hana kalla á eftir mér. Spyrja hvert ég ætlaði. Hún bað mig að koma aftur.
Ég ók þangað sem strákurinn bjó. Það var ljós í kjallaranum. Ég steig út úr bílnum og gekk upp að húsinu. Þá sá ég inn um gluggann að hann var ekki einn. Hann sat í eldhúsinu ásamt tveimur eldri manneskjum, hugsanlega foreldrum sínum. Ég var kominn upp að útidyrahurðinni þegar ég gerði mér grein fyrir að ég var ekki að fara þangað inn. Og reiðin jókst enn frekar. Ekki reiði út í Guðrúni. Ekki reiði út í þennan strák, heldur reiði út í sjálfan mig og hvernig ég er. Svo mikil reiði að þegar ég kom inn í bílinn aftur öskraði ég eins hátt og ég gat og engdist um af kvölum. Ég ræsti bílinn og ók af stað. Leiðin lá þangað sem ég hafði svo oft farið. Niður á Granda. Ég ætlaði, held ég, að setjast á bekkinn. Finna kalt rokið skella framan í mig og reyna þannig að slökkva eldinn. Ég vildi slökkva eldinn. Ég lagði bílnum. Steig út og gekk að bekknum. Þá heyrði ég kallað. Hjá gamla bátsflakinu stóð fyllibyttan sem sest hafði hjá mér fyrir einhverju síðan. Hann veifaði. Ég stóð upp og gekk í áttina til hans. Ég var ennþá með hnífinn í hendinni.