Ég bý á ódýru gistiheimili. Hér eru aðallega ungir krakkar, héðan og þaðan úr Evrópu. Endalaus læti. Fyllerý. Ég var heppinn og fékk sérherbergi, það eina sem var laust, en slíkt er ekki sjálfgefið á gististað sem þessum. Hefði allt eins getað lent með bláókunnugu fólki. Það gæti ég ekki. Ég er bara þannig gerður að slíkt er óhugsandi. Ég þarf sem betur fer ekki að vera hér mikið lengur. Ég sá auglýsingu hangandi á töflu hér í anddyrinu. Óskað eftir leigjanda. Ég er kominn með annað húsnæði.
Sú sem hengdi upp auglýsinguna er stúlka og heitir Ana-Felicia. Hún er rúmensk. Er að læra kvikmyndagerð. Talar lélega ensku. Íbúðin sem í boði er verður laus eftir nokkra daga. Ég fæ sérherbergi með baði. Auk þess aðgang að eldhúsi. Verð að gera mér það að góðu. Mér skilst að við verðum þarna bara tvö. Ég hef ekki hugmynd um hvar í borginni íbúðin er. Mér er alveg sama. Ég þarf nauðsynlega að finna mér afdrep. Ég fór strax að ímynda mér hvernig Ana-Felicia lítur út. Röddin var björt en dálítið rám. Hún reykir örugglega mikið.
Ég var ekki að ljúga öllu því sem ég sagði mömmu. Þetta með ritstörfin var satt. Ég tók handritið mitt með mér, ef handrit skyldi kalla. Ég er að skrifa sögu sem byggir að miklu leyti á æsku minni. Þegar við mamma bjuggum fyrir vestan. Áður en pabbi dó. Sagan er búin að vera lengi í smíðum, og gengur hægt. Enn sem komið er fæ ég mig ekki til að setjast niður og einbeita mér að henni. Hausinn er of fullur af því sem gerðist áður en ég kom hingað. Og kannski er allt eins gott að koma einhverju af því niður á blað í staðinn, þótt svo að enginn fái að lesa það. Ég verð að gæta þess vel að eyðileggja þau skrif, brenna blöðin. Þau fær enginn að lesa, nema ég.
Guðrún. Hvað var það sem heillaði mig við hana í fyrstu? Þrátt fyrir að vera falleg, skar hún sig engan veginn úr. Við hittumst fyrst á bókasafni. Ég stóð við rekkann með nýjum erlendum titlum þegar ég heyrði nafnið mitt kallað. Ég leit við og þar stóð kunningi minn frá því í Háskólanum. Strákur sem ég hafði ekki séð í langan tíma. Við hlið hans stóð hún. Virtist dálítið feimin, kinkaði kolli og lét lítið fyrir sér fara meðan við ræddum saman, ég og hann. Hún var með hvíta loðhúfu á hausnum og með trefil. Dúðuð, enda skítkalt úti. Hún hélt á bókum og eins og alltaf varð ég forvitinn um það hvað fólk er að lesa, en kunni ekki við að spyrja hana. Kunningi minn sagði mér frá því að hann og nokkrir skólafélagar okkar ætluðu að hittast um kvöldið og drekka bjór. Það væri gaman ef ég léti sjá mig. Og eins og alltaf lét ég eins og mér þætti það góð hugmynd, þótt ég hefði mjög takmarkaðan áhuga á að hitta fullt af fólki á bar og drekka bjór. "Hver veit nema að maður kíki," sagði ég. Setning sem ég hef oft notað. Í henni felst ekki loforð um annað en að ég sé tilbúin að íhuga þann möguleika að kíkja. Komast svo að niðurstöðu og fara hvergi. En þá opnaði hún munninn og sagði: "Já, endilega komdu. Það verður skemmtilegt fólk þarna." Svo voru þau farin. Mér datt ekki annað í hug en að hún væri kærasta þessa stráks. Ekki það að þau hafi haldist í hendur, eða utan um hvort annað. Mér fannst það samt gefa auga leið.
Og svo gerðist það merkilega, að um kvöldið var ég búinn að fara í sturtu, klæða mig í betri föt og stóð fyrir framan spegilinn og greiddi mér, allt þetta áður en ég staldraði við og hugsaði: Nú já. Ég ætla semsagt að fara. Og ég fór. Hitti hana þar. Komst að því að hún var alls ekki kærasta eins eða neins, og sat mestan part kvöldsins úti í horni og ræddi við hana og engan annann. Hvað var svona heillandi? Ég veit að það var hún sem fékk mig til að koma. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði ég haldið mig heima. Þetta er góð spurning, og þótt svarið við henni breyti engu, þá býr jafnvel í því lykill af því af hverju þetta fór eins og það fór.