Tuesday, 30 October 2007

1

Þegar ég fór, var ég að flýja. Ég þurfti að fara. Enginn annar en ég veit af hverju. Ég bjó þannig um hnútana. Það var erfiðast að sannfæra mömmu. Ég hef alltaf átt erfitt með að ljúga að mömmu. En núna varð ég, því ekki gat ég sagt henni hvers vegna. Allra síst henni. Svo ég sauð saman sögu. Sagðist eiga vin í útlöndum sem ég ætlaði að gista hjá um stundarsakir og sinna ritstörfum. Ég fengi að gista frítt. Ég hefði auk þess í gegnum kunningja reddað mér ódýru fari, þessi kunningi væri flugmaður og hann hefði sambönd. Ég er ekki viss um að hún hafi trúað mér, en hún lét þó vera að spyrja mig nánar út í hlutina. Kannski var hún bara fegin að losna við mig. Getur það verið? Mér finnst vont að hugsa til þess. Ég elska mömmu mjög heitt, og það var erfitt að yfirgefa hana. Að öðru leyti fann ég til léttis. Þegar vélin tók á loft og sveif frá íslenskri jörð var eins og ég losnaði við þungt farg af brjóstinu.

Mamma þekkti hana aldrei. Skrýtið að nefna hana ekki með nafni. Ég kem mér einhvern veginn ekki til þess. Mamma vissi reyndar að ég væri að hitta stúlku, ég sagði henni þó að ég vildi síður ræða það samband fyrr en það væri komin einhver alvara í það. Svo leið tíminn og vissulega var komin alvara í það, mikil alvara. Ég lét þó vera að tala um það við mömmu. Hún spurði stundum en ég kom mér hjá því að svara. Loks hætti hún að spyrja. Samt sem áður beið ég eftir því að hún segði: "Hefur þetta eitthvað með þessa stúlku að gera?" þegar ég sagði henni að ég væri að fara til útlanda. Blessunarlega gerði hún það ekki. Ég veit fyrir víst að þá hefði gríman fallið. Eins og ég segi, það er fjandanum erfiðara að ljúga að mömmu sinni.

Núna er ég í evrópskri borg. Ég hef komið hingað einu sinni áður, fyrir nokkrum árum, en stoppaði stutt. Ég þekki lítið til hér. Það er allt í lagi. Hérna mun ég dvelja um óákveðinn tíma. Ég á eftir að kynnast borginni. Skoða mig um. Reyna af fremsta megni að draga hugann frá því sem ég skildi eftir.

Það að nefna hana ekki á nafn hjálpar mér ekkert við að gleyma. Myndin af henni er greypt í huga mér. Myndin af henni þegar ég sá hana síðast.

Ég get alveg sagt nafn hennar upphátt. Það er meira að segja örugglega betra. Gerir mér auðveldara fyrir að kveðja hana. Losna við hana úr höfðinu.

Guðrún.

Hvað ég elskaði þig heitt.