Thursday, 29 November 2007

20

Í nótt umvafði myrkrið mig. Það var þungt og kæfandi. Ég vissi ekki hvar ég var, augu mín reyndu að venjast biksvörtu myrkrinu og greina einhver skil, en það bar ekki árangur. Lengi vel stóð ég og beið. Loftið varð þyngra og ég var farinn að sætta mig við að þarna, á þessum óræða stað, tæki allt enda. Ég var í raun feginn, fann fyrir létti. Þá sá ég í fjarska móta fyrir hreyfingu. Eitthvað færðist nær mér. Þetta var hann. Maðurinn sem ég slátraði. Hann kom alveg upp að mér og horfði á mig. Engin ásökun. Engin reiði. Hann rétti fram aðra hendina og þar var hnífurinn, alblóðugur. Og ég sá skurðinn, þvert yfir hálsinn, og þar rann líka blóð. Hann opnaði munninn og talaði, en ég skildi ekkert af því sem hann sagði, skildi ekki tungumálið. Hann endurtók sömu setninguna aftur og aftur, eins og þulu sem ég þyrfti að muna. Hann greip í hárið á mér, þrýsti mér að sér og hélt áfram að þylja, takið svo harkalegt að mér fannst sem höfuðleðrið ætlaði að rifna frá kúpunni. Ég reyndi að losa mig og þá rofaði til og ég lá í rúminu.

Við hlið mér lá Ana-Felicia og svaf. Ég virti hana fyrir mér. Ég ber engar tilfinningar til þessarar konu. Mér er alveg sama um hana. Mér finnst ekkert um hana. Hún gæti verið hvaða ómerkilega manneskja sem er. Og þarna lá hún sofandi með aðra hendina yfir mig, eins og til að halda mér nálægt sér. Ég færði hendina varlega, því ég vildi alls ekki vekja hana, stóð upp úr rúminu og fór fram. Íbúðin var hljóð og vinaleg. Lyktin hér inni er góð. Þess vegna er ég ekki farinn. Þetta er minn griðarstaður, minn kirkjuturn, og ég er afmyndað skrímsli. Ég hellti upp á kaffi og settist með bollann inni í eldhúsinu.

Gærdeginum eyddi ég hér heima. Ég skrifaði kafla í sögunni sem ég er með í smíðum. Allt í einu var sem einhverjar gáttir opnuðust og ég skrifaði margar blaðsíður. Allt sem fór á blöðin sá ég fyrir mér ljóslifandi. Rétt eins og minningu, eitthvað sem gerst hefði í raun og veru. Samt sem áður man ég ekki eftir þessu. Þegar ég hafði sett síðasta punktinn á blaðið opnaði ég tölvuna hennar Önu-Feliciu sem hún hafði skilið eftir á stofuborðinu. Ég ætlaði mér að finna ritvinnsluforrit. Þar gæti ég slegið eitthvað af skissunum mínum inn, prentað þær svo út og lesið þær yfir, lausar við óþarfa krass og krot. Hreinn texti. Eins og hann birtist á bók. Á skjánum var opinn gluggi, þar sem Ana-Felicia hafði verið að ræða við vinkonu sína á netinu. Vinkonan talaði ekki sama tungumál og hún, allt fór fram á ensku og ég gat lesið það sem þeim fór á milli. Þarna sá ég nafnið mitt. Íslendingurinn með skrýtna nafnið. Broskarlar. Vinkonan spurði frétta, hvernig sambúðin gengi. Ana-Felicia tjáði henni að hún væri hægt og rólega að verða yfir sig ástfangin. Svo mikið að það hræddi hana pínulítið. Ég væri mjög dularfullur, en um leið svo blíður og góður, skemmtilegur og fallegur. Hún ætti erfitt með að trúa því að hafa fundið mann eins og mig. Vinkonan óskaði henni innilega til hamingju. Broskarlar. Ana-Felicia þakkaði fyrir. Broskarlar.

Ég sat lengi í eldhúsinu. Út um gluggann sá ég hvernig nóttin breyttist hægt í nýjan dag. Ég geri mér grein fyrir að þessu er ekki lokið. Ég á eftir að gera eitthvað af mér áður en yfir lýkur.

Tuesday, 27 November 2007

19

Hún kveikti upp í bálinu innra með mér. Hvernig hún lék sér að mér með því að þykjast vera blíð, þóttist vera búin að taka mig í sátt en réðist svo snöggt til atlögu, sneri mig niður og traðkaði á hausnum á mér. Hló að mér. Ég fann aftur heiftina í brjóstinu, svo sterka að ég átti erfitt með að anda. Ég dreif mig út til að komast í ferskt loft. Reyndi um leið að róast. Vissi að ég mætti alls ekki láta þessar sterku tilfinningar ná tökum á mér. Þessa heift, og hræðsluna sem var um leið að lama mig. Ég var skíthræddur. Stelpan talaði við mig eins og hún vissi um allt sem ég hafði á samviskunni. Hún horfði þannig á mig. Svo sjálfsörugg. Eins og hún gæti auðveldlega afhjúpað mig. En hún getur engan veginn vitað, enginn veit neitt, nema ég sjálfur.

Ana-Felicia fann mig fyrir utan. Ég sagði henni að mér liði ekki vel og væri á leiðinni heim. Hún ætlaði að koma með mér, en ég hvatti hana til að vera áfram. Þegar hún vildi ekki láta segjast, gerði ég henni ljóst að ég vildi vera einn. Ég sá að henni sárnaði og breiddi yfir vanlíðan mína með brosi, sagði að ég vildi ekki hafa á samviskunni að draga hana úr partýi þar sem augljóslega væri gaman, ég færi beint að sofa þegar heim væri komið. Hún fór að lokum aftur inn.

Ég fór ekki að sofa. Ég sat lengi á svefnsófanum og áður en ég vissi af var ég búinn að ná í hnífinn ofan í ferðatöskuna. Handlék hann. Skoðaði hann. Hann var tandurhreinn. Ég setti hann ekki aftur á sama stað, heldur í handtöskuna með stílabókunum og pennunum sem ég hef á öxlinni hvert sem ég fer.

Í morgun þegar Ana-Felicia var farin í skólann, drakk ég morgunkaffið mitt í rólegheitunum og gekk því næst sömu leið. Ég kom mér fyrir hinum megin götunnar og beið. Allann daginn beið ég. Seinni partinn sá ég Önu-Feliciu koma út úr byggingunni og halda heim á leið. Enn einn klukkutími leið og ég var að því kominn að gefast upp og snúa við þegar hún birtist. Hún var ekki ein. Með henni var strákur, ég kannaðist við andlitið úr partýinu. Þau gengu saman að næstu lestarstöð og tóku sporvagn út úr hverfinu. Ég elti. Þau fóru inn á matsölustað og fengu sér að borða. Ég beið fyrir utan. Þegar þau komu út aftur kvöddust þau og héldu sitt í hvora áttina. Hún gekk drjúgan spöl en kom síðan að stóru fjölbýli þar sem hún fór inn. Ég leit á götuskiltið. Skrifaði nafnið hjá mér og númerið á húsinu. Hérna get ég fundið hana.

Ætli Guðrún komi í heimsókn?
Núna sé ég ekkert nema myrkur.

Monday, 26 November 2007

18

Ég fór með Önu-Feliciu í partý. Mig langaði ekkert, en fannst eins og rétt væri að gera henni til geðs. Ég get heldur ekki lokað mig inni í íbúðinni endalaust. Ég spurði hvort hún héldi að íslenska stelpan yrði á svæðinu. Hún sagðist allt eins eiga von á því. Sú íslenska hefði reyndar forðast sig eftir kvöldið góða, en kom þó eitt sinn til hennar og spurði hvort ég hefði sagt henni sannleikann, auk þess sem hún notaði tækifærið og sagði henni að passa sig á mér. Ég væri ekki heill á geði. Ana-Felicia hefur tekið ákvörðun. Eins og hún orðaði það sjálf, þá ætlar hún að leyfa mér að njóta vafans. "Af því mér finnst þú mun sætari en hún, og svo er ég líka að sofa hjá þér en ekki henni."

Samkvæmið var haldið hjá ísraelskum náunga, litlum naggi með svart krullað hár sem stóð út í loftið. Ósköp vingjarnlegur, eins og aðrir sem þarna voru. Ég hélt mig nærri Önu-Feliciu framan af. Hún kynnti mig sem vin sinn og meðleigjanda, og vinir hennar glottu, vissu vel að ég er aðeins meira en það. Ég fékk dæmigerðar fyrirspurnir. Það væri búið að vera kalt undanfarið en líklega ekkert í samanburði við það sem ég á að venjast heima, eða hvað? Þau töluðu um íslenska tónlist. Björk og Sigurrós. Allt saman mjög leiðinlegt en ég lét eins og ég hefði gaman af. Eftir að ég hafði skroppið á klósettið sá ég Önu-Feliciu í hrókasamræðum innar í stofunni. Ég notaði tækifærið og settist í auðan stól úti í horni. Stundum er gott að vera einn og fylgjast með.

Þá rak ég augun í þá íslensku. Hún stóð upp við vegg umkringd strákum. Hún var greinilega orðin nokkuð ölvuð, talaði hátt og skríkti, flörtið svo ömurlega augljóst, ekkert til sem hét að fara fínt í hlutina, allt látbragð gaf til kynna að hún var föl og ætlaði sér ekki að fara ein heim. Hátterni sem ekki kemur á óvart. Hún er íslensk. Hún hafði greinilega séð mig þar sem ég sat og gjóaði til mín augum. Mér fannst ég verða að nota tækifærið og reyna að hreinsa andrúmsloftið á milli okkar. Þegar ég sá hana fara inn í eldhús að ná sér í meira að drekka elti ég hana þangað.

“Ég átti ekki von á því að sjá þig hér,” sagði hún.
“Nú? Af hverju ekki?”
“Þú ert nú ekki mikið fyrir að vera í kringum fólk.” Ég brosti og mér til furðu brosti hún á móti. Mér létti stórum.
“Hvernig kanntu við þig hérna í borginni? Ertu búinn að skoða þig mikið um?” Röddin var alveg laus við að vera fjandsamleg.
“Aðeins. Það er fallegt hérna.”
“Já, þetta er yndislegur staður. Hvað ertu annars að gera hér?”
“Ég er að skrifa. Vinna í skáldsögu.”
“Já alveg rétt. Þú ert rithöfundavonnabí. Einn af þeim,” sagði hún og hló.
“Já. Ég býst við því.”
Hún fékk sér sopa af bjórflöskunni sem hún hélt á. Svo sagði hún:
“Ég er búinn að segja henni að þú sért staddur hér. Það kemur þér tæplega á óvart.”
“Nei, ætli það.” Það gat ekki annað verið.
“Annars var ég nú ekki að segja henni það mér til gamans. Hún er væntanleg í heimsókn til mín eftir nokkra daga og ég vildi vara hana við. Þótt ég sakni hennar svakalega mikið og vil að hún komi hingað út til mín, er ég ekki viss um að hún meiki að vera í sömu borg og þú.”
Hún sá að mér var brugðið.
“Þú hefðir betur átt að flýja eitthvert annað, eitthvert lengra í burtu. Í aðra heimsálfu kannski. Skriðið þar ofan í djúpa og dimma holu og haldið þig þar.” Hún brosti blíðlega, gekk síðan framhjá mér inn í stofu þar sem hún hélt áfram að ræða við strákana.

Friday, 23 November 2007

17

Ef vinkona Guðrúnar er í námi í sama skóla og Ana-Felicia, eiga þær eftir að hittast og ræða saman og þar fær Ana-Felicia að heyra sannleikann. Þess vegna var þessi fáranlega saga mín um vin, systur hans og ógreidda skuld ekki að koma mér að miklu gagni, nema síður væri. Eftir svefnlitla nótt hafði ég áttað mig á að best er fyrir mig að halda mig eins nærri sannleikanum og ég get. Þannig held ég stóra leyndarmálinu mínu frá óþarfa athygli. Nú veit Guðrún hvar ég er. Það er allt í lagi. Hún veit að ég er farinn að hitta aðra konu. Það er líka allt í lagi, satt að segja er það gott. Hér eftir hættir hún að spyrja um mig, nú lætur hún mig örugglega í friði og ég get haldið áfram að vinna í því að koma lífi mínu í réttar skorður. Ég veit ekki hvað ég ætla mér í sambandi við Önu-Feliciu. Enn sem komið er hentar hún mér vel. Mér líður vel hér og það að vera í kringum hana dreifir huganum. Og það er einmitt það sem ég þarf. Ég þarf að gleyma og halda áfram.

Í morgun talaði ég við hana áður en hún fór í skólann. Bað hana afsökunar á því að hafa sagt ósatt. Bar því við að hin skyndilega heimsókn hefði komið flatt upp á mig. Sagði henni sannleikann, nokkurn veginn og án þess að fara út í smáatriði. Ég minntist ekki á hnífinn, en viðurkenndi þó að ég hefði verið nokkuð reiður og það hefði gert Guðrúni skelkaða. Ég hefði beðið hana afsökunar áður en ég kvaddi. Ég lagði áherslu á við Önu-Feliciu að mér þætti skipta máli að hlutirnir héldust óbreyttir okkar á milli. Mér líkaði vel við hana og langaði að sjá hvert okkar samband stefndi, það væri vissulega ennþá ungt og viðkvæmt. Atvikið kvöldið áður mætti ekki eyðileggja það. Ana-Felicia hlustaði og horfði beint í augu mín meðan ég talaði. Þegar ég hafði lokið máli mínu brosti hún og þakkaði mér fyrir hreinskilnina. Hún sagðist ekki vön slíkri hreinskilni að hálfu karlmanns. Þetta væri líklega eitthvað íslenskt. Ég held hún hafi gert sér þetta að góðu. Við gerðum það á sófanum áður en hún lagði af stað, alltof sein í fyrsta tíma.

Þegar hún lokaði á eftir sér dreif ég mig í föt, klæddi mig í jakka og skó og hélt á eftir henni. Mig langaði að vita hvar skólinn hennar er. Ég vissi að leiðin var ekki löng, hún hafði tekið þessa íbúð á leigu vegna þess að hún var í göngufjarlægð. Ég hélt mig hæfilega langt frá og fylgdi henni alveg að skólabyggingunni. Horfði á eftir henni fara þangað inn. Ég skoðaði fólkið sem stóð fyrir utan. Líklega var ég að athuga hvort ég sæi vinkonu Guðrúnar. Ég á eftir að komast að því hvar hún býr í borginni. Því næst fór ég aftur heim.

Í Mogganum í dag er lýst eftir manni. Þar er mynd af honum. Þeir sem geta gefið upplýsingar um aðsetur hans eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Lögregluna í Reykjavík. Í töskunni minni inni í herbergi, á botninum undir bókum og fötum liggur hnífur. Af einhverjum ástæðum tók ég hann með mér hingað út.

Thursday, 22 November 2007

16

Ég sit inni í herberginu mínu og reyni að hugsa skýrt. Þegar allt virtist vera að falla á rétta staði fær maður höggið og steinliggur. Baráttan heldur víst áfram, hvort sem mér líkar betur eða verr. Slagurinn langt því frá unninn. Ný persóna kynnt til sögunnar, andlit sem horfir undrandi á mig. Ég horfi á móti og veit engan veginn hvernig ég á að vera, eða hvað ég á að segja.

Ana-Felicia kom úr skólanum, óð beint á mig þar sem ég sat í sófanum, faðmaði mig og kyssti. Spurði hvernig ég hefði haft það, hvort ég hefði saknað hennar á meðan hún var í burtu. Dagurinn hennar hefði verið einkar ánægjulegur og nú væri hún með svolítið óvænt handa mér. Hún hefði boðið stelpu sem hún hitti í skólanum í kvöldmat. Ég heyrði að einhver stóð frammi á gangi. Ana-Felicia kallaði og inn gekk ein af bestu vinkonum Guðrúnar. Hún horfði á mig undrandi. Átti ekki von á þessu frekar en ég. Ósjálfrátt ýtti ég Önu-Feliciu frá mér og stóð upp.
"Hæ. Ert þú hér? Ekki vissi ég það." Hún virtist ekki yfir sig hrifin að sjá mig.
"Já. Hér er ég. Komdu sæl." Ég gekk til hennar og ætlaði að kyssa hana á kinnina, en hún hörfaði undan kossinum. Allt hringsnerist fyrir augunum á mér.

Ana-Felicia heimtaði að sjá um eldamennskuna. Hún sagðist hafa getað sagt sér það sjálf að við myndum þekkjast, ég og þessi stelpa. Auðvitað. Við værum jú íslensk, þar sem allir þekkja alla. Hún hlýtur að hafa fundið spennuna, og óþægilegt andrúmsloftið í stofunni og fann sér því undankomuleið inn í eldhús þar sem hún fór að huga að matnum. Hin óvænta uppákoma hafði talsvert önnur áhrif en hún hafði ætlað. Ég sá hana líta reglulega fram til okkar. Þegar hún sá mig horfa til baka brosti hún óörugg.
"Ertu búinn að heyra í Guðrúni?" spurði vinkonan.
"Nei. Ekki ennþá."
"Hún er í rusli." Hún átti greinilega erfitt með að hemja reiði sína. "Djöfulsins fávitinn þinn," hvæsti hún. Ég þagði. "Þú ert illa geðveikur. " Hún beið eftir viðbrögðum frá mér. Ég þagði áfram. "Hún sagði mér allt. Hvernig þú hagaðir þér. Ógnaðir henni og raukst svo út. Og hefur ekki haft samband síðan." Ég sagði: "Þetta er nú kannski ekki þitt mál." Orð mín voru eins og bensín á eld. Hún rauk upp og stóð yfir mér, eins og þrumuský. "Þetta er víst mitt mál. Guðrún skiptir mig máli." Svo tók hún ákvörðun. "Ég get ekki verið hérna, með þér og nýju kærustunni þinni." Hún gekk inn í eldhús og ég heyrði hana spyrja Önu-Feliciu hvort hún væri komin langt með matseld. Hún gæti því miður ekki stoppað og borðað með okkur. Þegar Ana-Felicia spurði hvers vegna, sagði hún að svolítið hefði komið upp á. Sagði að ég gæti hugsanlega útskýrt það betur. Því næst strunsaði hún út.

Ég bjó að sjálfsögðu til sögu. Spann í snarheitum upp einhverja þvælu um bróður þessarar stúlku, sem ég hefði eitt sinn skuldað pening, en væri að sjálfsögðu búinn að borga. Stúlkan vissi það greinilega ekki og því væri þetta allt saman á misskilningi byggt. Ekki veit ég hvaðan þessi saga kom eða hvernig mér datt hún í hug. Ég kyssti Önu-Feliciu og sagði henni að hafa engar áhyggjur. Íslendingar ættu það til að stökkva upp á nef sér af minnsta tilefni. Ég veit ekki hvort hún trúði mér. Við töluðum lítið saman yfir matnum. Eftir uppvaskið settist hún í sófann en ég sagðist þurfa að skrifa og fór inn til mín. Og hér er ég. Reyni að hugsa skýrt. Finnst eins og allt sé á leiðinni til andskotans. Veit ekki hvert næsta skref ætti að vera.

Tuesday, 20 November 2007

15

Hér í næsta nágrenni við húsið okkar er stór leikvöllur. Þar byrja krakkar að leika sér snemma á morgnana og eru að langt fram eftir degi. Lætin bergmála um hverfið. Ég kann vel við þau hljóð. Við leikvöllinn stendur tilkomumikið tré, undir því er bekkur og þar sitja fyllibyttur og drekka. Ég held mig í hæfilegri fjarlægð þegar ég þarf að ganga framhjá, en gjói ósjálfrátt til þeirra augum, eins og til að hafa varann á. Þarna má til dæmis iðulega sjá kallinn sem reyndi að tala við mig daginn sem ég flutti í hverfið. Hann virðist vera eins konar höfðingi yfir þessum raunalega flokki. Ég hef séð hann standa og fara með ræður á meðan hinir sitja stóreygir og þögulir og hlusta á spekina. Ég veit að orð hans eru lítið annað en samhengislaust kjaftæði, óskiljanlegt raus. Kallinn hefur þó blessunarlega látið mig í friði síðan þarna um daginn. Ætli hann líti ekki á mig sem glataða sál, þar sem ég vildi ekki hlusta á það sem hann hafði fram að færa. Ég veit ég þarf ekki að láta fyllibytturnar trufla mig, en ég vildi þó óska þess að samastaður þeirra væri lengra í burtu, svo ég þyrfti ekki að ganga framhjá þeim hvenær sem ég fer út úr húsi. Draugar. Það er það sem þeir eru. Lifandi, en samt dauðir.

Ég man eftir kvöldi heima í þorpinu, skömmu eftir að búið var að jarða pabba. Ég var einn heima. Mamma hafði skroppið frá, sagðist ætla að sækja fleiri kassa því hún var byrjuð að pakka og við á leiðinni burt. Ég sat við stofuborðið og hlustaði á hljómplötu á meðan ég dundaði mér við að teikna. Úti var öskrandi hríð og það hvein í gluggum. Þá var barið harkalega á útidyrnar. Ég stökk fram, bjóst við að þetta væri mamma og að hún hefði óvart læst sig úti. En það var enginn fyrir utan þegar ég opnaði. Ég lokaði og flýtti mér aftur inn í stofu. Skyndilega stóð mér ekki á sama um að vera einn í húsinu. Ég fór að eldhúsglugganum og rýndi út, í von um að sjá til mömmu á leiðinni heim. Það heyrðist hár skarkali í forstofunni, einhver var kominn inn og skellti hurðinni harkalega á eftir sér. Ég kallaði á mömmu en fékk ekki svar. Ég stífnaði upp, þorði ekki að hreyfa mig. Einhver átti við húninn á forstofuhurðinni og því næst opnaðist hún, hægt og það vældi í hjörinni sem pabbi hafði alltaf gleymt að smyrja. Ég dreif mig í hvarf við eldhúsvegginn. Veran í ganginum steig þungum skrefum inn fyrir og gekk inn í stofu. Það heyrði hvíslað: "Gestur..." Ég kannaðist við röddina og gekk varlega í átt að manneskjunni. Þarna stóð vinur pabba og studdi sig opinmynntur við sófann. Hann var allur þakinn snjó sem bráðnaði þó hratt í hitanum og rann á gólfið. Andlitið rautt og þrútið, í munnvikjunum hvít froða. "Strákur. Hvar er pabbi þinn? Ég þarf að tala við hann. Segðu honum að koma og tala við mig."
"Pabbi er ekki hér."
Ég man að mamma hafði talsverðar áhyggjur af mér eftir sviplegt fráfall pabba. Hún reyndi að ræða við mig og útskýra hvað hefði gerst, en ég forðaðist slík samtöl. Maðurinn gekk í átt til mín. "Ekki segja mér að pabbi þinn sé ekki hér. Ég veit að hann er hér og ég þarf að tala við hann!" Hann talaði hátt og benti ógnandi á mig. Það var þá sem ég byrjaði að skæla, þegar hann var kominn fast upp að mér. Hann beygði sig niður að mér og klappaði á kollinn á mér. "Ekki fara að væla strákur. Finndu bara pabba fyrir mig." Og þá kom mamma. Hún reif mig frá honum og kastaði honum út. Hún faðmaði mig að sér grátandi og bað mig að fyrirgefa sér hvað hún var lengi í burtu.

Ég er einn heima núna. Ana-Felicia fór í partý í skólanum sínum. Hún bauð mér með en ég afþakkaði. Ég hefði gjarnan viljað að hún hefði eytt kvöldinu hér heima með mér. Hún lifir sínu lífi meðan ég lifi mínu.

Monday, 19 November 2007

14

"Þú ert sérstakur maður," sagði Ana-Felicia við mig í kvöld. "Þú segir ekki mikið. Þú ert eitthvað svo dularfullur. Augun þín, það býr eitthvað svo mikið á bak við þau. Ég veit ekki almennilega af hverju, en mér finnst þú mjög spennandi náungi.Mjög mjög spennandi." Hún hló og kyssti mig. Við lágum nakin í rúminu hennar.

Í morgun var bankað létt á hurðina hjá mér. Hún opnaðist og Ana-Felicia gægðist brosandi inn. Hún sagðist vera á leiðinni á uppáhalds staðinn sinn í borginni og spurði hvort ég vildi ekki koma með. Ég þakkaði gott boð og dreif mig á fætur. Ég svaf fast og vel í nótt. Engir draumar að ásækja mig. Eftir góðan kaffibolla vorum við komin upp í lest áleiðis að borgarmörkunum. Sól skein hátt á lofti, húsaþyrpingar ferðuðust í gagnstæða átt og brátt tóku að birtast hávaxin tré og gróður. Okkar beið greinilega góður staður.

Við gengum niður að stóru vatni og í kringum það lá stígur inn á milli trjánna. Þarna var margt um manninn, en Ana-Felicia smeygði sér fimlega framhjá því fólki sem varð á vegi okkar, hélt í hendina á mér og dró mig rösklega með sér. Hún sagðist vilja vita hvort staðurinn hennar, hinum megin við vatnið, væri laus. Þar smeygðum við út af stígnum og klöngruðumst niður bratta brekku, þar til við komum loks niður í litla vík. Þar var enginn, enda ekki víst að margir viti af þessum stað, svo vel er hann falinn undir brekkunni. Ana-Felicia dró teppi upp úr tösku sem hún hafði meðferðis og við breiddum úr því ofan á sandinn. Upp úr töskunni kom líka kaffibrúsi, könnur og súkkulaði. Við lögðumst á teppið. Á vatninu nálægt okkur var lítill árabátur og í honum stóð gamall maður með veiðistöng. Hann var með útvarp í bátnum og úr því ómaði gamall Kinks slagari. Aftur og aftur sama lagið. Dedicated follower of fashion.

"Jæja. Hvenær heldurðu að við sofum saman?" Ég átti ekki von á spurningunni og sagðist eftir smá umhugsun ekki vita það. Þá sagði hún: "Ég veit ekki með þig, en ég vona að það gerist bráðlega." Svo leit hún undan, tók upp bók og fór að lesa. Við eyddum drjúgum hluta dagsins þarna við vatnið. Við sögðum lítið, Ana-Felicia las í bókinni sinni, og eins mikið og hún hefur þörf fyrir að tala, þá lét hún það eiga sig og virti mig varla viðlits. Ég lá við hlið hennar og horfði út á vatnið. Ég var hálft í hvoru að bíða eftir að hún leggði frá sér bókina en hún hélt áfram að lesa. Ég stóð upp og fékk mér gönguferð kringum vatnið. Þegar ég kom aftur, lagðist ég hjá henni, hrifsaði af henni bókina og kyssti hana. Hún greip þéttingsfast utan um mig og kyssti mig af áfergju. Hún virtist helst vera á því að gera það þar og þá en ég sagðist vilja fara heim. Við keluðum í lestinni til baka og þegar heim kom fórum við beint inn til hennar.

Henni finnst ég dularfullur maður. Vissulega á ég mín leyndarmál. En þrátt fyrir allt er ég ósköp venjulegur. Í kringum þessa stelpu líður mér eins og ég sé eins og hver annar. Ég held jafnvel að hún sé komin inn í líf mitt til að bjarga mér frá þeirri glötun sem ég stefndi í.

Friday, 16 November 2007

13

Sjálfur verknaðurinn er eins og í móðu. Rétt eins og draumur. Ég stend mig að því að vona að þetta hafi ekki verið neitt annað, þótt ég viti betur. Allt annað er ljóslifandi. Síðustu dagarnir, aðdragandinn. Skelfingin í augunum á Guðrúni, þessi andartök þar sem hún stóð andspænis mér, fullviss um að ég ætlaði að ganga frá henni.

Undir lokin fylgdi ég henni hvert skref. Hún gerði ekkert, fór hvergi, hitti engan, án þess að ég vissi af því. Um leið fjarlægðist ég hana. Svo ákveðinn var ég í að komast að sannleikanum að ég eyddi tímanum í að fylgjast með henni, í stað þess að vera með henni. Hún var farin að taka eftir þessu og minntist á að sér finndist við hittast lítið. Ég tók undir það og sagði að mér þætti það leitt, en ég væri um tíma dálítið upptekinn. Bráðum myndi þó hægjast um og þá yrðu hlutirnir aftur eins og þeir voru áður.

Hún sinnti skólanum, hitti fjölskyldu og vini. Þessi strákur sem ég sá fyrst á svölunum var með henni í Háskólanum. Einhvern tíma fylgdi ég honum eftir og vissi hvar hann bjó. Ég sá hann oft í kringum hana, stundum sátu þau með öðru fólki á kaffihúsi en einu sinni eða tvisvar sátu þau tvö ein. Hann fékk hana til að hlæja. Hún brosti mikið í kringum hann. Saman hlógu þau. Og þrátt fyrir að standa fyrir utan og fylgjast með þeim í gegnum glerið sá ég að þau horfðu hvort á annað eins og fólk sem óskaði þess að hlutirnir væru öðruvísi en þeir voru.

Svo kom þetta kvöld.

Guðrún settist á krá eftir skóla á föstudegi með félögum sínum. Hún hringdi í mig og bað mig um að koma, þarna væri fólk sem ég þekkti vel. Ég íhugaði að láta til leiðast. Ég hafði aldrei hitt þennan vin hennar. Gerði henni það ekki einu sinni til geðs að spyrja um hann af fyrra bragði. En ég fann það á mér að það styttist í endalokin. Ég vissi að ég þyrfti aðeins að bíða örlítið lengur og þá fengi ég upp í hendurnar það sem ég leitaði að. Þau sátu fram á kvöld. Veðrið var leiðinlegt og gott að vera inni í hlýjunni. Að lokum stóð mannskapurinn upp og kom út. Guðrún gekk rakleitt af stað í áttina heim til sín. Strákurinn gekk við hlið hennar. Þau hlupu við fót undan rokinu og ég fór í humátt á eftir þeim, upp litlu hliðargötuna, að húsinu hennar. Þar stóðu þau um tíma, þétt upp við hvort annað, hann skýldi henni fyrir þungum vindinum. Hann talaði, hún hlustaði. Og því næst kyssti hann hana. Á munninn. Þau stóðu lengur. Hann sagði eitthvað meira. Hann kyssti hana aftur, laust á kinnina, og hélt svo af stað út götuna. Guðrún horfði á eftir honum. Gekk því næst inn til sín.

Ég hafði enga stjórn á mér. Það var eins og önnur manneskja, hin manneskjan, hefði brotist inn í mig og tekið yfir. Allt í einu stóð ég í forstofunni hjá henni, titrandi og skjálfandi, ekki af kuldanum úti fyrir, heldur af brennandi reiðinni. Guðrúni brá þegar ég gekk inn í stofuna. Hún sá strax að ég var ekki með sjálfum mér.

Hún grét. Hún sagði mér að þessi strákur væri bara vinur, en vissulega hefði henni liðið undarlega síðustu daga. Hún vissi ekki hvar hún stæði, gagnvart mér, gagnvart öllu. Og hún reyndi að réttlæta gerðir sínar með því að hún hefði eytt meiri tíma með honum undanfarið en með mér. Ég spurði hana hvort hún væri hætt að elska mig. Og þá þagði hún.

Áður en ég vissi af hafði ég tekið upp stóran hníf sem stóð í standi á eldhúsborðinu. Ég öskraði á hana, sagðist vilja vita af hverju hún hefði ekki sagt mér allt.
"Af því ég er hrædd við þig. En fyrst og fremst er ég hrædd um þig. Ég veit að ég sagðist vilja fylgja þér alltaf af því þú ert eins og þú ert. Og ég meinti það þegar ég sagði það. Meinti hvert orð. En ég get það ekki. Þú ert að sökkva dýpra og dýpra ofan í einhvert hyldýpi, og ég er búin að reyna að hjálpa þér upp. En þú vilt það ekki. Og þá verð ég bara að hugsa um sjálfa mig. Því ef ég geri það ekki, þá sekk ég með þér. Og það ætla ég aldrei að gera." Tárin runnu niður kinnarnar á henni og hún kipptist til í ekkasogum. Og þar sem ég stóð með hnífinn í hendinni tilbúinn að láta til skarar skríða, áttaði ég mig á því að ég gæti aldrei gert henni mein. Ég hafði nú þegar sært hana of mikið. Svo ég sneri við, með hnífinn í hendinni. Og fór. Ég heyrði hana kalla á eftir mér. Spyrja hvert ég ætlaði. Hún bað mig að koma aftur.

Ég ók þangað sem strákurinn bjó. Það var ljós í kjallaranum. Ég steig út úr bílnum og gekk upp að húsinu. Þá sá ég inn um gluggann að hann var ekki einn. Hann sat í eldhúsinu ásamt tveimur eldri manneskjum, hugsanlega foreldrum sínum. Ég var kominn upp að útidyrahurðinni þegar ég gerði mér grein fyrir að ég var ekki að fara þangað inn. Og reiðin jókst enn frekar. Ekki reiði út í Guðrúni. Ekki reiði út í þennan strák, heldur reiði út í sjálfan mig og hvernig ég er. Svo mikil reiði að þegar ég kom inn í bílinn aftur öskraði ég eins hátt og ég gat og engdist um af kvölum. Ég ræsti bílinn og ók af stað. Leiðin lá þangað sem ég hafði svo oft farið. Niður á Granda. Ég ætlaði, held ég, að setjast á bekkinn. Finna kalt rokið skella framan í mig og reyna þannig að slökkva eldinn. Ég vildi slökkva eldinn. Ég lagði bílnum. Steig út og gekk að bekknum. Þá heyrði ég kallað. Hjá gamla bátsflakinu stóð fyllibyttan sem sest hafði hjá mér fyrir einhverju síðan. Hann veifaði. Ég stóð upp og gekk í áttina til hans. Ég var ennþá með hnífinn í hendinni.

Thursday, 15 November 2007

12

Þegar ég fór fram í kvöld til að hella upp á kaffi sat Ana-Felicia í sófanum í stofunni og horfði á sjónvarpið. Hún spurði hvort ég hefði séð myndina sem var í tækinu. Þetta var rússnesk kvikmynd eftir einn af hennar uppáhalds leikstjórum, sem ég kannaðist ekki við. Ég settist hjá henni með kaffibollann. Hún var komin áleiðis inn í myndina en vildi ólm fara til baka að upphafinu, ég yrði að sjá hana frá byrjun. Meðan við horfðum færði Ana-Felicia sig nær mér, þar til höfuð hennar hallaði upp að mér. Mér þótti það þægilegt, mér er farið að líða betur og betur í návist hennar. Á borðinu stóð hvítvín og hún spurði hvort ég vildi ekki í glas. Ég afþakkaði, sagðist láta kaffið duga í þetta sinn. Ég hef aldrei verið duglegur við að drekka áfengi.

Pabbi drakk. Þegar hann var yngri drakk hann mikið. Svo kynntist hann mömmu og hún bjargaði honum, sagði hann stundum. Hann hætti að drekka. Góður vinur hans hélt svallinu hins vegar áfram og varð með árunum æ sorglegri spegilmynd af þeim manni sem hann hefði hugsanlega getað orðið. Ætli hver byggð verði ekki að eiga sinn róna. Þessi vinur pabba tók það hlutverk að sér í þorpinu.

Svo gerðist það að pabbi opnaði flöskuna aftur og teygaði stórum. Það kvöld sat hann heima ásamt gesti sem hann hafði boðið í heimsókn. Hann sendi mig inn í rúm skömmu eftir kvöldmatinn, og gerði allt sem hann var vanur að gera. Hann breiddi yfir mig sængina og saman fórum við með faðir vorið. Eftir bænina sat hann óvenju lengi á rúmstokknum og strauk mér blíðlega um vangann. Hann var ólíkur sjálfum sér. Augun sukku djúpt inn í andlitið og hann hélt ekki fullkomnu jafnvægi. Ég vissi vel að ástæðuna var að finna í glærum vökvanum sem hann hafði verið að drekka. Þar sem ég lá og reyndi að sofna, heyrði ég í pabba og vini hans frammi í stofunni. Í staðinn fyrir þögnina var komið skvaldur sem mér fannst óhugnanlegt og ég var enn vakandi nokkrum klukkustundum síðar þegar mamma kom heim.

Ég býst við að þau hafi sagt það sem þau höfðu þráð að segja hvort við annað í langan tíma. Allt það sem hafði falið sig í þögninni braust nú fram. Ég hafði aldrei áður heyrt þau öskra hvort á annað, aldrei heyrt þau nota jafn ljót orð. En ég man að ég grenjaði ekki þar sem ég lá inni í herberginu mínu. Ég lokaði augunum fast og beið eftir að þetta tæki enda. Að lokum fór pabbi ásamt vini sínum. Skellti útidyrahurðinni á eftir sér.

Þessi rússneska mynd var allt í lagi, en langt frá því að verða mitt uppáhald. Kannski að maður þurfi að læra kvikmyndagerð til að greina snilldina. Þegar henni lauk var Ana-Felicia sofnuð við hliðina á mér. Ég smeygði mér varlega undan höfði hennar, setti kodda í staðinn og breiddi yfir hana teppi. Þar sefur hún enn.

Wednesday, 14 November 2007

11

Ég man þegar Guðrún spurði mig hvort ég hefði einhvern tíma leitað mér hjálpar. Það væri gott að tala um vandamál sín. Allur sá pakki. Hún sagðist geta bent á aðila sem væru mjög hæfir. Sjálf hefði hún hugleitt á tímabili að ræða við einn slíkan. Hugleitt. Hún fór aldrei, því auðvitað var ekkert að henni. Það var ég sem átti við vandamál að stríða. Þetta var um það leyti sem takið fór að slakna og ég fylltist tortryggni. Var hún ekki með þessu að finna sér undankomuleið? Ég spurði hana út í það sem hún sagði í kofanum uppi á heiðinni. Hvað varð um stúlkuna sem elskaði mig eins og ég er, og vildi vera með mér þess vegna? Hún brosti, sagði að hún stæði við þau orð, en sér þætti vont að vita til þess að mér liði illa. Ég sagði henni að það væri nákvæmlega ekkert að mér. Hún þagði og horfði undan. Ég spurði hvað hún hefði fyrir sér í því að mér liði svo illa að ég þyrfti að leita mér hjálpar. "Þú ert stundum svo þungur. Ekkert stundum. Þú ert mjög oft þungur. Og mér finnst eins og það gerist æ oftar." Hún gekk til mín og faðmaði mig. "Ekki misskilja mig. Mér finnst bara eins og þér líði ekki vel. Og ef þér líður ekki vel, þá líður mér ekki vel. Þú hlýtur að skilja það, er það ekki?" "Viltu ekki bara slíta þessu og losna við mig?" Ég beið eftir viðbrögðum. Það var eins og þetta kæmi henni í opna skjöldu, að samtalið væri að fara í átt sem hún hafði ekki hugsað sér. En það var eftir þetta spjall sem ég missti traustið. Það var þá sem ég fór að fylgjast með henni.

Ég hugleiddi aldrei hvort þetta væri rétt eða eðlilegt. Mér fannst þetta einfaldlega besta leiðin til að komast að hinu sanna. Sjá hvert hún fór og hvenær og hvern hún hitti þegar hún var ekki með mér. Þannig kæmist ég að sannleikanum, þannig fengi ég að vita allt sem hún hafði ekki kjark í sér til að segja mér. Af því hún vildi hlífa mér. Ég var of brothættur, ég átti svo bágt. Og vildi ekki leita mér hjálpar.

Eitt sinn heyrði ég í henni seinnipart föstudags. Hún ætlaði um kvöldið að fara út og hitta vini. Mér bauðst að koma með, en mér heyrðist á henni að hún var meira en til í að fá frí frá mér í þetta sinn. Og ég spilaði með henni, sagðist ætla að vera heima. Um kvöldið ók ég að húsinu þar sem ég vissi að fólkið ætlaði að hittast. Ég lagði bílnum í nokkurri fjarlægð, þar sem ég gat þó fylgst með gestum koma og fara, og heyrði jafnvel í köldkyrrðinni það sem fram fór á svölunum, þar sem liðið stóð og reykti.

Hún kom gangandi upp götuna á móti mér. Ég hafði aldrei séð hana jafn glæsilega. Mig langaði helst að stökkva út úr bílnum, hlaupa til hennar og faðma hana að mér. En ég sat kyrr. Allt kvöldið sat ég í bílnum. Ég sá hana á svölunum. Þar var fólk sem ég þekkti, og aðrir sem ég kannaðist ekkert við. Sérstaklega vakti athygli mína strákur sem sýndi kærustunni minni mikinn áhuga. Guðrún virtist njóta athyglinnar, hún hló sínum hvella hlátri og lék á alls oddi. Ég beið fyrir utan allt þar til samkvæmið leystist upp og því næst elti ég leigubílana niður í bæ. Ég sá hvar þau gengu inn á skemmtistað og þá ákvað ég að láta gott heita og hélt heim á leið.

Ég er búinn að kaupa mér áskrift af Mogganum á netinu. Ég fletti í gegnum minningargreinarnar í öllum þeim blöðum sem komið hafa út síðan ég kom hingað. Hvergi sá ég andlit sem ég kannaðist við.

Tuesday, 13 November 2007

10

Ég vann í Önu-Feliciu í kvöld. Það gekk mjög vel. Við erum komin hvort í sitt herbergi eftir að hafa eytt kvöldinu saman. Ég held ég geti hiklaust hrósað sigri. Allt fór nokkurn veginn eins og ég hafði hugsað mér. Undir lokin var áfengið farið að svífa á hana, hún drakk ansi mikið, á meðan ég sötraði á vínglasi.

Ég hef aldrei verið flínkur að elda. Hugsanlega er það eitthvað sem ég gæti komist upp á lag með, en ég hef lítið æft mig í gegnum tíðina. Hef bara ekki fundið löngun til þess. Einhvern tíma, ekki man ég hvenær né af hverju, lærði ég þó einfaldan en afar ljúffengan pastarétt, spagettí í ostasósu og í dag fór ég og keypti inn það hráefni sem vantaði í eldhúsið. Sem meðlæti keypti ég alls kyns grænmeti í salat, hvítlauksbrauð, og flösku af hvítvíni. Mér hafði vissulega dottið í hug að bjóða Önu-Feliciu út að borða og losna þannig við alla fyrirhöfn. Nóg er af veitingastöðum í grenndinni. Eftir á að hyggja leit það út fyrir að vera alltof skipulagt. Of mikil sögn í því fannst mér, og það mátti ekki.

Ana-Felicia var lengi í skólanum í dag og þegar hún kom heim var ég byrjaður að elda. Hún var mjög undrandi en fyrst og fremst glöð, enda glorsoltin og tók hraustlega til matar síns. Ég lagði mig allann fram um að vera skemmtilegur félagsskapur. Það var satt að segja með ólíkindum hvað ég var hress, og hefði einhver sem þekkti mig betur en Ana-Felicia setið þarna með okkur, hefði viðkomandi auðveldlega séð í gegnum mig. Ég spurði hana út í námið, og komst meðal annars að því að hún er að læra kvikmyndatöku. Kvikmyndir virðast eiga hug hennar allann og hún lifnaði öll við að tala um þetta stóra áhugamál sitt. Ég hlustaði á lélega enskuna og þóttist skilja allt sem hún sagði, þótt stundum hafi það verið útilokað. Ana-Felicia er reglulega indæl stelpa. Hún er full af einhverjum lífskrafti, gleðin í augunum er svo sterk að stundum er eins og þau gneisti. Hún brosir mikið. Og bros hennar er fallegt. Þegar hvítvínsflaskan var búin, stóð hún upp og sótti bjór í ísskápinn. Hún hló og hafði á orði að Rúmenar væru einu sinni þannig gerðir að þeim finndist illa farið með gott vín að stoppa eftir eina flösku.

Hún spurði mig í kvöld hvort ég ætti kærustu. Ég sagði sem satt er, ég á enga slíka. Hún vildi vita meira, hvenær ég hefði átt kærustu, hvernig konum ég laðaðist að, eitthvað í þessum dúr. Helst vildi ég segja að henni kæmi það ekki við. En ég var ánægður með hvernig kvöldið hafði tekist, og í staðinn, og án teljandi vandræða, endurhannaði ég fortíðina. Og þar var engin Guðrún. Nei, ég átti síðast kærustu fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan. Stelpu sem var talsvert yngri en ég. Það hefði verið nokkuð gæfuríkt samband, en hún hefði farið til útlanda í nám og við það myndaðist skarð sem ekki var fyllt upp í. Síðan þá hefði ég verið tiltölulega rólegur. Sagan rann upp úr mér hindrunarlaust og hún horfði á mig með þessum gneistandi augun og trúði öllu.

Það var að lokum ég sem sagðist vera orðinn þreyttur. Sagði henni að láta allt leirtau eiga sig, ég gengi frá því á morgun. Hún gekk til mín og faðmaði mig. Þakkaði fyrir sig. Og svo kyssti hún mig á munninn. Og ég kyssti hana á móti. Ég held hún hafi verið að bíða eftir að ég stingi upp á að við héldum áfram. Í staðinn strauk ég henni um vangann og bauð góða nótt.

Ég er gjörsamlega úrvinda.

Monday, 12 November 2007

9

Mig dreymdi í nótt, og draumurinn var svo raunverulegur að það tók mig langan tíma að ná áttum, þegar ég vaknaði. Við lágum hlið við hlið uppi í rúmi, ég og Guðrún, og hún söng fyrir mig, lágt, nánast hvíslandi. Þetta var vísan sem við þekktum bæði frá því við vorum lítil. Pabbi svæfði mig stundum með henni. Eitt sinn, þegar ég sat og las í bók og Guðrún við hliðina á mér að prjóna, byrjaði hún að söngla þetta lag. Ég leit upp undrandi. Ég hafði ekki heyrt þessa vísu í mörg ár. Amma Guðrúnar hafði oft sungið þetta fyrir hana. Þetta var eitt af þessum litlu atvikum sem fær ástfangið fólk til að trúa að tilviljanir séu ekki til. Okkur var ætlað að vera saman.

Í draumnum lá ég við hliðina á henni og í höfði mínu ómaði hvíslandi rödd hennar, hún rann niður bakið á mér, niður í fæturna, eins og blý, ég þrýstist niður í rúmið og gat mig hvergi hreyft. Mér fannst gott að liggja þarna hjá henni, lyktin af henni fyllti vit mín. En um leið fór hjartað að slá örar og ég fann fyrir einhverjum óhug. Guðrún reis rólega upp frá mér og horfði fast í augu mín. Ennþá syngjandi, svæfandi hvíslið lamaði mig. Skyndilega þagnaði hún og tók að strjúka mér þar sem ég lá. Hún brosti þegar limurinn á mér tók að rísa. Svo sagði hún:
"Við verðum að ná okkur í vörn. Ekki ætla ég að láta þig barna mig. Ég vil ekki eiga börnin þín. Þú veist það. Þau yrðu skrýtin eins og þú. Þau yrðu geðsjúk, geðsjúkt glæpahyski. Eins og pabbi sinn." Hún sagði þetta kankvís, eins og í gríni. "Bíddu," sagði hún og steig úr rúminu og hvarf úr herberginu. Ég lá kyrr og fann hvernig kaldur sviti byrjaði að renna niður ennið á mér. Ég reyndi að rífa mig lausan en það var lífsins ómögulegt. Allt í einu stóð hún yfir rúminu. Hún hélt á stórum hníf. "Ég fann það sem við þurfum," sagði hún. Hún lyfti hnífnum hátt yfir höfuð sér og rak hann því næst á kaf í magann á mér. Ég fann hvernig blaðið fór í gegnum mig og sat fast í dýnunni undir mér. Ég engdist um og sársaukinn reif mig upp úr svefninum. Ég vaknaði á sófanum, rúmfötin svo gegnblaut að ég var viss um að hafa migið í þau.

Ég var staddur í neðanjarðarlestinni í dag þegar inn kom hópur af Íslendingum á einni stoppistöðinni. Þau höfðu hátt og hlógu þar sem þau sátu rétt fyrir aftan mig. Ég stóð upp og flýtti mér yfir í hinn enda lestarvagnsins. Á næstu stöð dreif ég mig út og hljóp af stað upp á götuna fyrir ofan.

Ég get ekki haldið svona áfram. Það er auðvelt að gefast upp. Ég gæti hæglega pakkað saman og komið mér aftur heim. Játað brot mín, tekið afleiðingunum. En þrátt fyrir allt finn ég ennþá inni í mér lítinn neista. Þessi neisti segir mér að ég eigi að halda áfram. Þrauka. Komast yfir þetta. Skilja raunveruleikann frá ímyndun og draumum. Hann segir mér að gæta mín. Nú ríður á að taka rétt skref. Ég hringdi í mömmu í kvöld. Við töluðum stutt en ég sagði henni að mér liði afskaplega vel. Ég held henni hafi þótt gott að heyra í mér röddina. Hún spurði mig hvað hún ætti að segja Guðrúni ef hún hefði aftur samband. Ég bað hana að skila kveðju, og segja henni að ég væri á góðum stað og að mér liði vel. Guðrún þekkir mig betur en svo að hún trúi hverju sem er. Ég er þó að vona að hún láti kyrrt liggja og reyni ekki að hafa upp á mér.

Nú þarf ég að einbeita mér að sambandinu við meðleigjandann minn. Ég held að Ana-Felicia sé farin að halda eitthvað um mig, og því verður að breyta.

Thursday, 8 November 2007

8

Pabbi fór æ oftar út á kvöldin, ef mamma var ekki að vinna. Líklega hefur hann ekki þolað þrúgandi þögnina á heimilinu. Meira að segja ég, lítill gutti, átti erfitt með að sofna þegar ég heyrði ekki lengur raddirnar í mömmu og pabba frammi í stofu. Ég átti erfitt með að venjast þessari þögn, og auðvitað skildi ég ekki þá af hverju hún stafaði. Eitt sinn spurði ég pabba hvert hann færi á kvöldin. Hann brosti og spurði mig hvort ég vildi koma með honum. Um kvöldið tók hann mig með sér. Hann leiddi mig áleiðis upp í hlíð, flautaði lagstúf en sagði ekki neitt. Og eins mikið og mig langaði að segja honum hvernig mér leið, spyrja hann allra erfiðu spurninganna sem herjuðu á mig, þá var ég þrátt fyrir allt bara lítill gutti, og gat engan veginn komið neinu af þessu í orð. Ég þagði því líka og naut þess að vera með pabba á rölti um kvöld. Yfir okkur stjörnubjartur himinn.

Við höfðum gengið nokkuð hátt, þegar við komum að stórum kletti. Pabbi fór með mig upp fyrir klettinn og þaðan var greið leið fram á brúnina. Þar settumst við, pabbi tók upp pípuna sína, tróð í hana og kveikti í. Útsýnið var stórkostlegt. Fjörðurinn spegilsléttur og fyrir neðan okkur kúrðu húsin í þyrpingu og reyndu að ylja hvert öðru með ljósum sínum.
"Ferðu hingað á kvöldin," spurði ég.
"Já. Þetta er hásætið mitt. Hér uppi er ég konungur fjarðarins."
"Og ég prins."
Hann klappaði mér á kollinn. Svo sagði hann:
"Þú veist það Eiríkur að á endanum fer allt vel. Hvernig sem hlutirnir birtast manni, þá fer allt vel að lokum." Hann faðmaði mig að sér. "Og eitt verður maður alltaf að muna. Maður verður alltaf að vera góður við mömmu sína. Maður verður að passa hana."
"Við pössum hana saman."
Hann þagði um stund.
"Já. Við pössum hana saman."
Ég hef svo oft hugsað aftur til þessarar stundar, þar sem við sátum þarna feðgarnir. Þegar ég varð eldri áttaði ég mig á því að hann vissi fullvel að dagar hans voru senn taldir. Ætli ég sé ekki ennþá að halda í þá veiku von að það sem hann sagði við mig þarna á klettinum sé satt.

Guðrún átti nokkra kærasta á undan mér. Þeir voru allir skíthælar og hálfvitar og hún var búin að ákveða að vera alltaf ein, því það var augljóst að ekki væri til maður sem henni var samboðinn. Og þá fann hún mig. Þannig var hennar saga, auðvitað sögð til að gleðja mig og til að undirstrika hvað hún var ánægð með okkar samband. Það var fallegt af henni, en þetta var þó langt því frá að vera satt.

Maður finnur hvernig takið losnar. Það er sama hversu fast maður heldur, ef hugurinn er ekki með manni. Eins og þegar maður kyrkir manneskju, hugsunin þarf öll að vera í takinu um hálsinn, þar til yfir líkur.

Ég hélt fast og vildi ekki sleppa, en Guðrún var farin að hugsa um eitthvað annað. Ég bar þetta undir hana, spurði hana hvort ekki væri allt í lagi. Hjá okkur. Hún sagði svo vera. Að ég ætti ekki að hafa áhyggjur af öðru. Og hún kyssti mig. Ég heyrði og vissi að hún var ekki að segja mér satt. Samt sem áður leyfði ég mér að fljóta á lyginni aðeins lengur. Treysti mér ekki í annað.

Wednesday, 7 November 2007

7

Ég er að berjast gegn sjálfum mér. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að ég kæmist upp með þetta. Þá á ég ekki við gagnvart öllum hinum, ekki gagnvart lögreglu og að komast hjá því að taka út þá refsingu sem mér yrði dæmd. Ekki gagnvart fólkinu sem þekkir mig og þekkir mig ekki. Ég er að tala um sjálfan mig. Ég þarf að standa andspænis sjálfum mér og taka þannig út refsinguna sem ég á skilið. Ég er ekki maður sem gerir það sem ég gerði. Þannig er ég tveir menn. Annars vegar hinn sanni ég, sá sem ég hef alltaf verið frá því ég fæddist, hins vegar sá sem framdi verknaðinn. Þetta hljómar ruglingslega, þannig er hausinn á mér núna og hann vill ekki róast. Ég svaf lítið sem ekkert í nótt.

Það hellirigndi í dag, en ég ákvað þrátt fyrir það að fara út að ganga í garðinum hér nálægt. Ég gekk lengi og var orðinn gegndrepa þegar ég hélt aftur heim til að reyna að festa svefn. Þar sem ég stóð við útidyrnar og fiskaði lyklana úr vasanum var pikkað í öxlina á mér. Ég leit við og þar stóð gamall maður, augljóslega heimilisleysingi og vel drukkinn í þokkabót. Hann horfði djúpt í augun mín, rétt eins og hann þekkti mig og sagði því næst eitthvað sem ég skildi ekki. Ég fann hvernig ég þornaði upp í munninum. Ég sneri mér undan og reyndi að koma lyklinum í skránna. Kallinn ýtti við mér og hélt áfram að tala. Loksins opnaðist hurðin og ég flýtti mér inn og skellti á eftir mér. Hér er nóg af heimilisleysingjum, fyllibyttum og betlurum. Ég hef þó hingað til náð að leiða þá hjá mér. Ég hljóp upp stigana. Inni í herbergi kom ég mér úr blautum fötunum og fór í heita sturtu. Lagðist því næst á sófann og hallaði aftur augunum.

Ég sat á bekk niðri á Granda og horfði út á sjó þegar ég sá mann koma úr gömlu ónýtu bátskrifli sem liggur þar á bakkanum. Leið hans var skrykkjótt en hann var augljóslega búinn að sjá mig og var á leiðinni til mín. Hann settist hjá mér á bekkinn og dró plastflösku upp úr vasanum. Tók stóran sopa og ræskti sig, vökvinn greinilega sterkur og erfitt að koma honum niður. Ég hafði séð þennan mann áður, í einhverjum sjónvarpsþætti. Einn af fyllibyttuaumingjum borgarinnar. Um stund sátum við þarna í þögn. Svo leit hann á mig og rétti mér flöskuna.
"Nei takk. Ég er ekki þyrstur," sagði ég. "Eigðu þetta bara fyrir sjálfan þig." Hann horfði á mig, augun full af söknuði og eftirsjá. Líklega leit hann á þennan stað sem heimili sitt og mig sem gest sem kominn var í heimsókn. Hann stóð upp og gekk hægum skrefum til baka í átt að bátnum.

Í kvöld er ég einn í íbúðinni. Ana-Felicia fór á tónleika og var svo vinsamleg að bjóða mér með sér. Ég afþakkaði. Hún skildi tölvuna sína eftir á stofuborðinu og eftir að hún var farin stalst ég til að fara á netið. Enn þá ekkert sem mig varðaði á fréttasíðunum. En það var komið bréf frá mömmu. Hún sagðist vona að ég hefði það gott. Spurði hvenær ég ætlaði að koma aftur heim. Og hún sagði mér að það hefði hringt í sig stelpa í gærkveldi. Hún hefði kynnt sig sem Guðrúni, og spurt hvar ég væri niðurkominn.

Tuesday, 6 November 2007

6

Ég stóð fyrir utan húsið skömmu fyrir kvöldmat. Ana-Felicia hafði spurt mig hvort það væri í lagi að hún kæmi ekki úr skólanum fyrr en um klukkan 5. Ég sagði að það hentaði mér vel og eyddi deginum í að rölta um og bíða. Ég settist inn á tyrkneskan veitingastað þegar ég var orðinn svangur. Þar sem ég stóð við afgreiðsluna og litaðist um eftir þjóni, gat ég séð inn í eldhúsið. Þar hékk heill lambaskrokkur, og beið þess að verða skorinn í bita og matreiddur. Ég fékk mér steik og hún var ljúffeng.

Einu sinni fékk ég að fara með pabba út í sveit þar sem hann aðstoðaði bónda við heimaslátrun. Þegar bóndinn hafði skotið fyrsta lambið í hausinn og skorið þvert yfir háls þess tók pabbi við því og hélt því föstu við jörðina. Ég skildi ekki af hverju fyrr en lífvana skrokkurinn fór að kippast til. Pabbi þurfti að hafa sig allann við að halda því kyrru. Svona eru hugsanir mínar þessa dagana. Þær flakka stjórnlaust fram og til baka.

Nýju húsakynnin líta mjög vel út. Ég átti satt að segja ekki von á þessu, miðað við hvað ég borga í leigu. Herbergið mitt er stórt og hátt til lofts. Þar stendur svefnsófi, sem hægt er að stækka með einu handtaki. Baðherbergið er eins lítið og hægt er, en þar er allt sem ég þarf, vaskur, klósett, sturta. Ólíkt mér er sem Önu-Feliciu þyki ekkert sjálfsagðra en að búa með bláókunnugri manneskju. Hún er alveg laus við feimni. Í ljós kom að það voru mun fleiri sem höfðu samband við hana út af herberginu, en það að ég kom frá Íslandi fannst henni spennandi. Ekki spillti heldur að ég sagðist vera að sinna ritstörfum. Þessi blanda er að því er virðist ómótstæðileg. Þegar hún spurði mig nánar út í hvað ég væri að skrifa sagði ég að ég væri með skáldsögu í smíðum. Lét þar við sitja. Og varð um leið dularfullur og enn meira spennandi.Við höfðum þó um annað að spjalla. Ana-Felicia er mjög áhugasöm um landið mitt og hefur komið einu sinni til Reykjavíkur, þegar hún ásamt vinum sínum var viðstödd Airwaves tónleika fyrir einhverjum árum. Henni þótti miður að ná ekkert að fara út fyrir borgina en segist sjaldan hafa upplifað annað eins næturlíf. Ég tók undir það, og leiðrétti nöfnin á stöðunum sem hún hafði farið inn á, og hló með henni að því hvað það er erfitt að bera þau fram.

Það, hversu auðvelt hún átti með að halda samræðunum gangandi gerðu þessi fyrstu kynni mun auðveldari. Það eina sem ég hugsaði um var að koma vel fyrir. Henni má alls ekki finnast ég eitthvað skrýtinn. Til að fyrirbyggja slíkt baðst ég afsökunar á því ef henni þætti ég þurr á manninn. Ég væri þreyttur og héldi að ég hefði náð mér í einhverja flensu. Ég þyrfti líklega að leggja mig og reyna að ná þessu úr mér. Þetta sagði ég, þótt það sé akkúrat ekkert að mér. Ég þurfti bara að komast í burtu og vera út af fyrir mig.

Núna heyri ég í sjónvarpinu frammi í stofu. Þar situr þessi nýja stúlka í lífi mínu. Þetta fer örugglega allt saman vel. Þótt ég sé loks á öruggari og þægilegri stað hefur mér aldrei liðið jafn illa síðan ég kom út. Aldrei fundist ég jafn óumræðilega einn. Ég þarf að berjast við að fara ekki að grenja eins og helvítis aumingi. Og ég vona að ég fái ekki drauma yfir mig í nótt. Það sem ég þarf síst á að halda nú eru draumarnir.

Monday, 5 November 2007

5

Þegar ég var lítill stofnuðum við Ari vinur minn njósnafélag. Við tókum þennan félagsskap mjög alvarlega, héldum bókhald um njósnir okkar, teiknuðum upp leiðirnar sem við fórum og skrifuðum niður nöfn þeirra sem við fylgdumst með. Við höfðum bækistöðvar í kofa sem við smíðuðum uppi í hlíðinni fyrir ofan þorpið og þar var líka geymt í læstum kassa alls kyns dularfullt dót sem á vegi okkar varð. Það var þó ekki fyrr en í síðustu njósnaferð okkar sem við komumst að alvöru leyndarmáli. Sú ferð varð sú síðasta sem félagið okkar tók sér á hendur. Eftir það lagði það upp laupana.

Við ákváðum að vaka eina nóttina og laumast út til að athuga hvort hún geymdi ekki eitthvað grunsamlegt handa okkur. Nóttin er mun meira spennandi en bjartur dagurinn þegar maður er njósnari. Eftir að hafa vafrað um í dágóðan tíma án þess að sjá nokkra manneskju á kreiki, allir virtust í fastasvefni, opnaðist hurðin á bæjarstjórnarskrifstofunni. Við rétt náðum að fela okkur í tæka tíð. Ég hafði oft komið inn í þetta hús. Þarna vann mamma sem ritari bæjarstjórans. Hún átti það til að þurfa að vinna frameftir, sérstaklega ef einhverjir stórviðburðir voru í bígerð, og undanfarið hafði hún lítið sést heima, enda afmælishátið þorpsins á næsta leyti.

Mér brá þó lítið eitt þegar ég sá mömmu koma út úr húsinu. Hún var brosandi og glöð og hún talaði lágt við einhvern sem stóð fyrir aftan hana. Hún leit í kringum sig en sneri sér því næst við í hurðinni. Bæjarstjórinn birtist í gættinni. Þau föðmuðust innilega þar sem þau stóðu og kysstust heitum kossi. Bæjarstjórinn renndi höndunum niður bakið á henni, strauk á henni rassinn og kleip þéttingsfast um hann. Á þetta horfðum við Ari þar sem við lágum í leyni. Því næst gekk mamma á brott áleiðis heim.

Í hádeginu í gær var ég búinn að koma mér fyrir skammt frá húsinu þar sem íbúðin okkar Önu-Feliciu er. Fyrir utan kaffihús á næsta götuhorni sat ég og þóttist lesa bók. Það renndi pallbíll upp að húsinu og úr honum steig stelpa, dökkhærð, örlítið þétt og frekar hávaxin með strákslegt andlit. Á palli bílsins voru ýmsir innanstokksmunir. Hún opnaði útidyrnar með lykli, setti fleig undir hana til að halda henni opinni og byrjaði að bera af pallinum inn í húsið. Ég sat sem fastast og horfði á. Ana-Felicia er ekki ósvipuð og ég ímyndaði mér. Hún virkar úr fjarlægð svolítið röff týpa. Hún er töffari. Held ég.

Ég hafði fyrr um morguninn gengið um hverfið. Það lofar góðu. Hér, eins og reyndar alls staðar í þessari borg, má finna skemmtileg kaffihús og veitingastaði. Skammt frá er líka stórt og mikið útivistarsvæði, garður með háum trjám og miklum gróðri. Þar var margt fólk, hlaupandi morgunskokkið sitt eða að viðra hundinn sinn. Hér eru margir hundar. Ég held að ég sé reiðubúinn að pakka því litla sem ég hafði meðferðis niður í tösku og flytja það hingað á nýja staðinn.

Friday, 2 November 2007

4

Svo viss er ég um að ég hreinsaði fullkomlega til eftir mig að síðan ég kom út hefur ekki hvarflað að mér að hafa áhyggjur af öðru. Ég neita því þó ekki að það var til að tékka á þessu sem ég fór inn á netkaffi í gær og kíkti á íslenskar fréttasíður. Þar var ekkert að finna annað en þetta dæmigerða hundleiðinlega drasl, afkoma banka og fyrirtækja. Froðusnakk um frægt fólk. Ekkert sem viðkom mér. Ég sendi mömmu tölvupóst. Hún tók nýlega upp á því að fá sér tölvu og vinkona hennar úr vinnunni kenndi henni eitt og annað um netheima. Ég gat ekki annað en skellt upp úr þegar hún sagði mér stolt frá því að nú hefði hún tölvupóstfang. Ekki get ég ímyndað mér hvað komi í innhólfið hennar annað en ruslpóstur, og svo núna nokkrar línur frá stráknum hennar í útlöndum. Ég hafði bréfið í léttum dúr, hér væri gaman og ég í góðum gír.

Það rennur á í gegnum borgina. Ég gekk meðfram henni í gær. Fyrir vestan hafði maður sjóinn nánast við húsgaflinn. Í Reykjavík þurfti maður að fara á bíl til að komast nærri sjónum. Ég gerði það oft. Keyrði niður á Granda, lagði bílnum og steig út. Settist á bekk og horfði yfir flóann á fjöllin. Það róaði mig. Stundum sat ég lengi, gleymdi mér. Hér er enginn sjór en þessi á er falleg. Á bökkum hennar standa margir bekkir, þar get ég setið ef mér sýnist svo.

Ana-Felicia hafði samband við mig í gærkveldi. Hún tjáði mér að við fengjum íbúðina núna um helgina, á sunnudaginn nánar tiltekið. Hún yrði þar í kringum hádegi og mér væri velkomið að flytja inn þá, um leið og hún. Ég sagðist ekki komast fyrr en í fyrsta lagi á mánudag. Nú er það svo, að ég er alveg að gefast upp á skarkalanum og látunum þar sem ég bý. Þetta er nær því að líkjast afdrepi fyrir vandræðaunglinga, en nokkru gistiheimili. Núna í morgun kom maðurinn í afgreiðslunni á tal við mig og tjáði mér á sinni vondu ensku að það væri ekki gert ráð fyrir að fólk dveldi þar til langs tíma. Þetta væri meira svona "come and go", eins og hann orðaði það. Ég get ekki skilið hvaða máli skiptir hversu lengi maður kýs að gista, ef maður er tilbúinn að láta fylleríshávaðann yfir sig ganga og borgar uppsett verð. Ég bauðst til að borga aðeins meira, ef ég fengi að halda herberginu mínu fram yfir helgi. Hann þagði um stund, eins og til að sýna fram á að það væri langt því frá sjálfgefið að gera mér þennan greiða, en samþykkti að lokum. Mismuninum stingur hann sjálfsagt í eigin vasa.

Ég ætla ekki að fara af þessum leiðindarstað á sunndaginn. Ég ætla að bíða aðeins lengur og sjá.
Ég er búinn að finna á korti staðsetningu íbúðarinnar sem ég hyggst leigja með þessari rúmensku stelpu sem ég veit ekkert um. Ég ætla að fara og skoða húsið að utan. Litast um í nágrenninu.

Ég verð víst að viðurkenna að ég finn fyrir hræðslu. Ég þarf að gæta þess að hún nái ekki tökum á mér.

Thursday, 1 November 2007

3

Hér skammt frá gistingunni stendur kirkja. Stór og tignarleg hefur hún sig til himins, þótt hún sé gömul og farin að láta á sjá. Ég rölti framhjá henni í gærkveldi á göngu minni og ákvað að athuga hvort hún stæði opin. Þykk viðarhurðin var ólæst. Inni var dimmt þrátt fyrir klingjandi kristalkrónurnar sem loguðu hátt yfir höfði manns. Kveikt var á kertum hér og þar. Gömul kona, einhvers konar kirkjuvörður kom gangandi til mín og brosti. Hún virtist glöð yfir að fá einhvern í heimsókn. Hún sagði ekkert, heldur sýndi mér með handahreyfingum að mér væri óhætt að ganga um og skoða. Ég fékk mér sæti á bekk. Þögnin, kyrrðin þarna inni sveif á mig og ég hallaði aftur augunum.

Ég held ég hafi ekki farið inn í kirkju síðan pabbi var jarðaður. Hef aldrei fundið fyrir þörf til þess. Mamma á það til að fara í kirkju, hún reyndi þegar ég var yngri og bjó hjá henni að draga mig með sér, en ég fór aldrei með henni. Þar sem ég sat þarna með lokuð augun rifjaðist upp atvik frá því ég var lítill. Þetta var stuttu eftir að pabbi dó. Í þorpinu fyrir vestan. Þetta var um vetur. Ég hafði ásamt vini mínum og öðrum krökkum eytt deginum eftir skóla í brekkunni fyrir ofan kirkjuna heima. Hún var löng og brött og tilvalin til að renna sér niður á þotu. Það var tekið að skyggja. Brekkan iðaði af lífi. Hinum megin við götuna stóð kirkjan og í kringum hana garður fullur af dauðu fólki. Skyndilega heyrði ég tónlist. Fallegri tóna hafði ég aldrei heyrt. Hún kom úr kirkjunni og hún dró mig til sín. Ég stóð sem dáleiddur um stund neðst í brekkunni, nýkominn úr einni salíbununni og því næst gekk ég af stað. Ég skildi þotuna eftir þar sem hún lá, gekk yfir götuna og settist á kirkjutröppurnar. Hlustaði. Inni var organistinn að æfa sig fyrir jarðarförina sem átti að fara fram næsta dag. Þá átti að jarða pabba.

Allt í einu stóð Ari, besti vinur minn við tröppurnar. Mamma hafði einmitt beðið hann um að fá mig út að leika til að dreifa huganum. Honum hefur líklega fundist hann vera að bregðast skyldu sinni með því að hafa misst sjónar af mér. Hann settist við hliðina á mér og þarna sátum við saman og hlustuðum á kirkjuorgelið spila. Og það var þá fyrst sem ég áttaði mig á því að ég fengi aldrei að sjá pabba aftur.

Guðrúni fannst eitthvað merkilegt við það að ég væri föðurlaus. Eins og það væri mjög svalt, eins og maður hefði gengið í gegnum eldskírn og væri fyrir vikið þroskaðri einstaklingur, og dýpri en aðrir. Ég gekkst upp í þessu í fyrstu, þegar við vorum að kynnast. En seinna meir varð það eins og svo margt annað bensín á fyrirlitninguna sem óx í brjóstinu á mér.

En ég vil ekki fara alla leið þangað strax. Enn sem komið er dvel ég við okkar fyrstu stundir saman. Stundir sem eru þær bestu sem ég hef upplifað. Til dæmis þegar við sátum föst í bíl í blindbyl uppi á Holtavörðuheiði. Ætluðum að hitta vini í Hrútafirðinum, vera viðstödd afmælisveislu. Við komumst ekki lengra en upp á heiðina, enda áttum við aldrei að leggja af stað í slíku veðri. Þrátt fyrir að allt væri kolsvart í kringum okkur þóttist hún nokkuð viss um hvar við vorum. Hún vissi um lítið hús sem stóð þarna nálægt veginum og hýsti strandaglópa eins og okkur. Ég ætlaði aldrei að fást með henni út að finna húsið, en lét að lokum til leiðast. Við klæddum okkur í þær yfirhafnir sem hendi voru næstar og lögðum af stað. Hún hafði rétt fyrir sér. Við þurftum ekki að ganga langt áður en við komum að húsinu. Þar eyddum við nóttinni. Og þótt svo að inni væri ekki boðið upp á nein lúxus þægindi, engin þægindi í raun, þá létum við fara vel um okkur og vildum helst ekki fara þaðan morguninn eftir þegar veðrinu hafði slotað.

"Veistu," sagði hún þá um nóttina. "Ég veit að ég næ aldrei að skilja þig fullkomlega. Hluti af þér er svo langt í burtu að það virðist vonlaust að komast þangað. Kannski er það þess vegna sem ég vil eyða ævinni með þér." Ég faðmaði hana fast að mér. Þessar heitu tilfinningar sem hún bar til mín, þessi einlægni hennar, hélt á mér hita þessa nótt.