Monday 3 December 2007

21

Ég hef ekki látið á neinu bera, og enn sem komið er hefur það reynst mér frekar auðvelt. Ég er sterkari en ég þorði að vona. Kannski er það kostur að vera tveir menn. Líklega er það þessi hinn ég, sem býr yfir styrknum og er ekki reiðubúinn að gefast upp. Sú þrjóska kemur sér vel. Ég er að leika kærasta, og svei mér ef ég er ekki betri í því hlutverki núna eftir að ég tók ákvörðun um að halda öllu eins mikið óbreyttu og kostur er, á meðan ég velti fyrir mér hvernig haga skal næsta leik. Ana-Felicia blómstrar. Hún svífur um brosandi. Vangar hennar eru rjóðir og sællegir. Stundum er eins og hún ráði sér ekki fyrir kæti, rétt eins og hún hafi fundið eitthvað sem hún var búin að týna, eitthvað sem er henni kært og skiptir hana máli. Í gærkveldi var hún næstum búin að segjast elska mig, en hélt aftur af sér, smeygði talinu örlítið til hliðar og sagði í staðinn að henni þætti ég dásamlegur maður. Ég er feginn, mig langar ekki að heyra hana tjá ást sína á mér. Sögnin að elska er í mínum huga ekki hvaða orð sem er. Það á ekki að nota á léttvægan hátt. Svo virðist sem Ana-Felicia sé á sömu skoðun, einhverra hluta vegna lét hún vera að varpa setningunni á mig. Allt mitt líf hef ég aðeins sagt einni konu að ég elski hana. Nú er rétt eins og þeirri yfirlýsingu hafi fylgt álög.

Í fyrsta sinn síðan ég flutti inn, sagðist Ana-Felicia nú í morgun vera að íhuga að skrópa í skólanum. Hún vildi miklu frekar eyða deginum með mér. Ég hló og sagðist ekki taka það í mál. Námið væri mikilvægt, ekki síst í hennar geira þar sem skipti máli að standa sig og skara fram úr öðrum. Auk þess hyggðist ég nýta daginn til skrifta. Allt sagt á þann hátt að það gæti ekki misskilist og án þess að ljóstra því upp að ég væri búinn að fá nóg í bili og vildi vera einn. Hún fór í skólann. Þegar hún kom þaðan aftur seinni partinn færði hún mér skilaboð frá íslensku stelpunni. Guðrún er væntanleg. Á morgun. Ég hef beðið eftir þessum fréttum. Þær koma ekki á óvart.

Ana-Felicia var í talsverðu uppnámi. Hún er farin að hata íslensku stelpuna, virðist ekki eiga erfitt með að nota þá sögn um fólk sem henni líkar ekki við. Sú íslenska virðist með undarlegu hátterni sínu einungis hafa náð að vekja fyrirlitningu í sinn garð. Það er gott. Önu-Feliciu stóð þó greinilega ekki á sama um hinar nýju fréttir og vildi vita hvort þær væru eitthvað sem hún þyrfti að hafa áhyggjur af. Fyrrverandi kærasta mín á leiðinni. Sú sem ég hafði lent upp á kant við. Hvað þýddi það? Vildi ég hitta hana? Hverjar voru tilfinningar mínar í garð þessarar Guðrúnar?

"Ekki segja "þessi" Guðrún með svona tóni í röddinni," sagði ég. Ég var hársbreidd frá því að missa stjórn á mér og beit fast á jaxlinn. Þarna stóð hún, manneskja sem skiptir mig engu máli og lét eins og hún ætti heimtingu á að vita hvernig mér líður. Skyndilega fannst mér hún ljót, mér fannst hún hlægileg.

Ég sagði henni að hafa ekki áhyggjur. Allt færi vel að lokum. Ég kyssti hana blíðlega og dró hana með mér inn í herbergi.