Thursday 27 December 2007

29

Í rauninni var þetta nákvæmlega eins og þegar ég gerði þetta við kallinn í bátnum. Umhverfið var jú annað, ég staddur í öðrum heimshluta. Að öðru leiti var þetta endurtekning. Kallinn leit til mín á bekknum og brosti. Eins og til að sýna að hann væri þakklátur fyrir að ég léti loks segjast. Við sátum um stund í þögn en svo byrjaði hann að þylja. Aftur og aftur, sömu undarlegu romsuna og síðast þegar við hittumst. Ég lagði mig fram við að hlusta, en skildi ekki neitt.
”Nastanie mose kiedis dla ludzkoski poranek łaski. Nastanie poranek łaski dla mnie. Nastanie mose kiedis dla ludzkoski poranek łaski. Nastanie poranek łaski dla mnie.”

Ég stóð upp og gekk í átt að húsinu hennar Önu-Feliciu. Þar í götunni vissi ég um djúpt skot sem alltaf var dimmt og mannlaust. Ég hafði oftar en einu sinni stöðvað göngu mína við munann og reynt að sjá inn í enda, en án árangurs. Ég benti kallinum á að koma með mér. Var eins viðkunnalegur og mér var unnt. Hann stóð upp og fylgdi, líklega í von um að ég byði honum heim, gæfi honum að borða og drekka. Við gengum rólega hlið við hlið. Þegar við gengum framhjá skotinu reif ég í hann og dró hann þangað inn. Hann var sterkari en ég átti von á. Þrátt fyrir að vera vel drukkinn, og þrátt fyrir að ég kæmi honum í opna skjöldu veitti hann sterka mótspyrnu. Mér tókst þó að lokum að króa hann af úti í horni. Ég smeygði hendi ofan í handtöskuna. Þar beið hnífurinn eftir að fá að sýna bitið. Hann horfði á mig og hann brosti. Rétt eins og hann hefði beðið eftir þessari stund. Eins og ekkert af þessu kæmi honum á óvart.

Ég skar hann. Á endanum skar ég hann þvert yfir hálsinn. Skurðurinn var djúpur og um leið korraði í kallinum. Ég hafði vit á að ýta honum frá mér í hæfilega fjarlægð áður en blóðið tók að spýtast út í loftið. Ég horfði á hann kippast til og frá, andlitið afmyndað þegar vitin reyndu að teyga súrefni og halda með því lífi í þessum úr sér gengna skrokk.

Þegar ég kom heim fann ég strax fyrir kyrrðinni yfir mér. Hún umvafði mig. Ég lagðist á koddann og lokaði augunum.

Myrkur. Ró.