Thursday 27 December 2007

28

Myrkur. Ró. Mér leið vel með augun lokuð. Glugginn í herberginu snýr að bakgarðinum, sem er girtur á alla vegu með himinháum húsveggjum. Þaðan bárust engin hljóð, og þó var kominn dagur. Ég svaf vært í nótt. Rétt eins og það sem ég gerði í gærkveldi hafi verið nauðsynjaverk. Hreinsun. Ég hugsa til þess og finn fyrir allt öðru en óhugnaði. Ég er eins viss nú og í fyrra skiptið um að ég hef ekkert að óttast, og bráðum sit ég í vél á leiðinni heim.

Síminn titraði á náttborðinu. Það var Guðrún. Hún byrjaði á því að biðjast fyrirgefningar á því að hafa ekki haft samband fyrr en nú. Hún var mjög leið yfir því. Vinkona hennar hafði verið að hræra í henni. Skoðun hennar á mér hefur lítið breyst, og hún tók því illa þegar hún frétti að við værum að draga okkur saman aftur. Hún fékk það af sér að fá Guðrúni til að samþykkja að koma með sér í ferð út úr borginni yfir helgina og hafa ekki samband við mig á meðan. Svo mikið vann hún í þessu og ruglaði Guðrúni í ríminu að hún samþykkti á endanum.

“Þessi ferð var samt góð, því ég áttaði mig á því hvað mig langar mikið til að vera með þér. Þetta var svo fallegur staður, eins og lítið jólaþorp, stemmingin svo afslöppuð og kósý og það eina sem ég hugsaði um var hve gaman væri ef þú værir með mér þar.” Ég sýndi henni skilning. Sagði henni að hafa ekki áhyggjur. Ég hefði vissulega orðið undrandi á að hún svaraði ekki símtölunum mínum, en að öðru leyti hefði ég haldið ró minni. Nú hlakkaði ég mest til þess að verða samferða henni heim. Henni, og vinkonu hennar. Hún er að fara með sömu vél.

Ég fór til Guðrúnar seinni partinn. Vinkona hennar var heima, þurr á manninn og kjánaleg. Ég gerði í því að vera almennilegur. Brosti mínu breiðasta. Það var ekki erfitt, til þess var tigangurinn of skemmtilegur. Ég naut þess að smyrja á hana elskulegheitunum. Guðrún var búin að pakka ofan í tösku, við höfðum ákveðið að hún gisti hjá mér þar til við förum heim til Íslands. Augnaráðið sem vinkonan gaf mér áður en hurðin á íbúðinni lokaðist á eftir okkur var ískalt, en ekki laust við uppgjöf. Hún hafði gert það sem í hennar valdi stóð til að stýja okkur í sundur. Nú hélt ég á töskunni hennar Guðrúnar í annarri hendi, leiddi hana með hinni og kvaddi. Brosandi.

Við eyddum kvöldinu hér á herberginu. Það er satt sem sagt er. Að sofa hjá þeim sem maður elskar er allt annað og miklu meira en að sofa hjá ókunnugri manneskju.

Núna sefur Guðrún vært í rúminu. Ég hef aldrei elskað hana jafn heitt.