Wednesday 5 December 2007

22

Ég er búinn að sjá hana. Auðvitað var það engin tilviljun, ég varð að sitja um fyrir henni. Hún kom út úr íbúðinni, leit í kringum sig svo dásamlega áttavilt og hélt svo af stað. Hún var með sömu húfuna og þegar ég sá hana fyrst. Dúðuð. Hér er búið að vera kalt og vinkona hennar hefur haft vit á því að segja henni að koma með hlý föt. Hún gekk hægt og skoðaði í hvern glugga eins og þar væri eitthvað markvert að sjá. Forvitin í nýrri borg. Hún leit vel út. Mig langaði að kalla á hana og verða samferða. Fara með henni þangað sem hún var að fara. Í staðinn elti ég hana. Faldi mig og fylgdist með henni. Þetta var ekki rétti tíminn til að stíga fram. Ég á eftir að nálgast hana síðar.

Leiðin lá á útimarkað þar sem hægt er að finna alls kyns notaða hluti, föt og fylgidót, mat, hvað sem er. Guðrún gaf sér góðan tíma, var augljóslega ekki að leita að neinu sérstöku en alveg til í að eyða peningum ef hún rækist á eitthvað skemmtilegt. Hún skoðaði nokkrar flíkur. Guðrún á mikið af fötum, en finnst samt eins og hún eigi aldrei nóg. Hún leit á hringa og armbönd, en keypti að lokum ekki neitt af því sem hún mátaði. Kannski var ferðin hingað farin til að sjá hvað er í boði. Ekki hennar sterkasta hlið að taka ákvarðanir. Hún gekk að ávaxtarbásnum og þar fyrst tók hún upp budduna, þó ekki fyrr en hún var búin að skoða úrvalið vel og vandlega, velja réttu tegundirnar og réttu eintökin. Hún keypti fullan poka af ávöxtum.

Ég brosti með sjálfum mér og allt í einu var ég með henni í huganum, við tvö saman að versla eins og stundum gerðist. Hún vildi oft hafa mig með sér til að versla inn, sagðist vilja eiga í skápunum sínum það sem mér þætti gott. "Við verðum ekki lengi," sagði hún iðulega. Ég kom með og vissi vel að ferðin tæki mun lengri tíma en til stóð. Eftir að allt var að lokum komið í kerruna og við stóðum við kassann, glotti hún, kyssti mig og sagði: "Fyrirgefðu hvað ég er skrýtin. Þú elskar mig samt alveg, er það ekki?" Og ég elskaði hana samt.

Ég tók ekki sömu lest til baka. Horfði á eftir henni hverfa ofan í jörðina og hélt í aðra átt. Þar sem ég gekk um, hugsaði ég um hvernig hún á eftir að bregðast við þegar hún sér mig. Hún veit að ég er hér, og samt tók hún ákvörðun um að koma. Var það til að fá tækifæri til að segja mér til syndanna? Var hún að vonast til að komast hjá því að hitta mig? Eða vildi hún rekast á mig til að geta brosað til mín og kysst mig og gefið mér tækifæri til að segja við hana: "Fyrirgefðu hvað ég er skrýtinn."

Mér fannst eins og skrefin yrðu æ þyngri þegar ég nálgaðist götuna mína. Ég vissi að Ana-Felicia var komin heim. Þegar ég opnaði hurðina inn í íbúðina kallaði hún á mig. Hún var í baði. Hún spurði mig hvernig dagurinn minn hefði verið. Hvort ég hefði skrifað mikið. Sagði enn og aftur hvað henni þætti leiðinlegt að ég skrifaði ekki á ensku, svo hún gæti lesið. Hún væri viss um að það væri mjög gott efni. Kallaði mig snillinginn sinn. Svo spurði hún hvort ég vildi ekki koma ofan í til sín. Ég tók á öllu sem ég átti, gekk til hennar brosandi, kyssti hana á blautan kollinn og afþakkaði boðið. Þar sem ég stóð yfir henni, hvarflaði það að mér hversu auðvelt væri að keyra hausnum á henni ofan í vatnið og halda henni þar aðeins of lengi. Og það hræddi mig, að ég var viss um að því myndi fylgja einhver nautn. Þegar ég drap fyllibyttuna fann ég ekki neitt. Að drepa Önu-Feliciu yrði allt annað.