Monday 10 December 2007

24

Ég hafði ekki rumskað við að Ana-Felicia fór fram úr og í skólann. Síminn hringdi um hádegisbil og vakti mig af þungum svefni. Það var Guðrún. Hún áttaði sig strax á því að ég var sofandi og spurði hvort hún ætti að hringja seinna. Ég gat ekki hugsað mér að missa hana úr símanum, enda hafði ég glaðvaknað þegar ég áttaði mig á hver var á línunni. Hún spurði mig hvernig ég hefði það og ég svaraði því til að ég hefði það ágætt en að mig langaði mikið til að hitta hana. Hún virtist ánægð að heyra það. "Þú hefur þá líklega frétt af því að ég er í borginni," sagði hún. "Já, vinkona þín sagði mér frá því. Reyndar sagðist hún allt eins búast við að þú hættir við að koma þegar þú fréttir af því að ég væri hér." Hún hló. Sagði vinkonu sína alltaf vera tilbúna að taka ákvarðanir fyrir þá sem henni þætti vænt um. "Nei, ég varð auðvitað miklu æstari í að mæta á svæðið þegar ég frétti af þér," sagði hún. "Við þurfum að tala saman, ekki satt?" Ég samsinnti og við mæltum okkur mót seinnipartinn á veitingastað skammt frá íbúð vinkonu hennar.

Það var eins og hún væri að rétta fram hönd. Bauð mér að koma til sín. Af því ég skipti hana máli. Ég varð viðþolslaus inni í íbúðinni og gat ekki hugsað mér að dvelja þar meðan ég beið eftir að tíminn liði. Ég fór í sturtu, klæddi mig og dreif mig út. Þar sem ég gekk framhjá stóra trénu og fyllibyttubekknum, sem nú stóð auður, heyrði ég kallað á eftir mér. Af einhverjum ástæðum stöðvaði ég gönguna og leit við, þótt svo að ég þekkti röddina og vissi að þetta var sami auminginn og áður hafði angrað mig. Hann brosti þegar hann sá að ég veitti honum athygli, færði sig frá húsveggnum sem hann hafði stutt sig við og kom riðandi í átt til mín. Augljóslega ofurölvi. Hann byrjaði að tala, og eins og áður skildi ég ekkert af því sem hann sagði, en það sem hann sagði nú var svolítið sem ég hafði heyrt áður. Draumurinn um manninn sem ég slátraði. Þetta voru sömu orðin, sama þulan. Eins og í draumnum sagði þessi útlendingur sömu setningarnar aftur og aftur og horfði um leið beint í augu mín eins og til að fullvissa sig um að þessi sérkennilegu skilaboð kæmust til skila. Að ég næði þeim. Þegar hann var kominn til mín rétti hann fram aðra hendina, skítuga, stórt sár á einum fingri. Hann þagnaði og kinkaði til mín kolli. Ég kipptist við þegar ég fann hendina koma við bringuna á mér, og gekk hratt burt frá honum.

Guðrún sat við borð þegar ég kom, en stóð upp þegar hún sá mig og faðmaði mig að sér. Mér var nokkuð brugðið, þótt hún hefði hljómað vinaleg í símann átti ég ekki von á svo hlýlegum móttökum. Ég hélt henni fast í örmum mér, vildi helst ekki sleppa. Við pöntuðum okkur mat. Hún sagði mér upp og ofan af högum sínum eftir að ég hvarf hingað út. Hún talaði um vin sinn án þess að ég minntist á hann af fyrra bragði. Hann hefði haft samband þegar hann frétti að ég væri farinn. "Hann vildi ólmur ljá mér öxl sína til að gráta á," sagði hún og hló. "En ég gat engan veginn þegið hana. Hann er góður strákur, en ég átti erfitt með að vera í kringum hann á meðan ég var að átta mig á hlutunum. Við erum auðvitað saman í námi, en ég hef haft lítil sem engin samskipti við hann síðan þú fórst..."
"Guðrún," greip ég fram í fyrir henni. "Ég særði þig svo mikið. Mér þykir það leitt. Takk fyrir að leyfa mér að hitta þig til að segja þér það augliti til auglitis." Hún horfði á mig. Kinkaði kolli. "Það er rétt. Ég var mjög hrædd þetta kvöld. Fyrst var ég hrædd við þig, og svo kom tíminn þar sem ég var hrædd um þig. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var fegin að heyra það frá mömmu þinni að þú værir heill á húfi."

Þessi fundur okkar var betri en ég hafði nokkurn tíma þorað að vona. Guðrún spurði mig út í nýju kærustuna mína, hver hún væri og hvort ég væri hamingjusamur. Ég sagði henni að samband mitt við Önu-Feliciu væri búið. Við hefðum ákveðið í sameiningu að láta gott heita og slíta því. Ég væri á leiðinni til Íslands og hún vildi einbeita sér frekar að náminu. Ég held að þau tíðindi hafi glatt hana. Þegar við kvöddumst ákváðum við að hittast aftur mjög bráðlega, en hún sagðist fljúga heim eftir tvo daga.

Núna sit ég heima einn. Ana-Felicia hringdi og sagðist þurfa að eyða tíma í verkefnavinnu í skólanum í kvöld. Hún sagðist hlakka til að sjá mig, og í lok símtalsins missti hún út úr sér að hún elskar mig.