Tuesday 11 December 2007

25

Ana-Felicia var skrýtin á svipinn þegar hún kom úr skólanum, dálítið eins og feimin. Líklega stafaði það af því sem hún sagði við mig í símann. Ég er ekki viss um að það hafi verið óvart. Núna beið hún eftir viðbrögðum frá mér. Hvort ég ætlaði að svara í sömu mynt. Eins og það stæði til. Ég þóttist ekki hafa tekið eftir þessari játningu hennar, sat í sófanum og skrifaði niðursokkinn á blað. Hún spurði mig hvort ég hefði tekið ákvörðun um hvar ég yrði um jólin. Ég sagðist þurfa að fara heim til Íslands. Hún spurði mig hvað ég yrði lengi, hvenær ég kæmi aftur. Ég sagðist ekki vita það með vissu. Hún vildi vita hvenær ég færi og ég nefndi fyrstu dagsetningu sem kom í hugann. Ennþá hef ég ekki pantað farið. Hún settist hjá mér. Ég virti hana ekki viðlits og hélt áfram að skrifa. Ég var að búa til bréf til hennar, sem ég vissi þó að ég myndi aldrei færa henni á máli sem hún gæti skilið. Þar voru ljótir hlutir sem myndu særa hana djúpt. En það var á vissan hátt þægilegt að hafa hana þarna við hliðina á mér á meðan ég skrifaði hvað mér bjó í brjósti. Hún sagði: "Þú hefur svo fallega rithönd. Bara að ég vissi hvað þú ert að skrifa." "Já, bara að þú vissir," svaraði ég lágt og hélt áfram.

Í morgun fór Ana-Felicia ekki skólann. Hún var búin að hella upp á kaffi og var að borða morgunmat þegar ég kom fram. Verkefnaskilum er víst að ljúka sagði hún mér, hún væri ekki að skrópa, ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Jólafríið hennar er að sigla inn. Í dag hafði hún hugsað sér að fá mig með sér niður í bæ á skemmtilegan jólamarkað sem hún vissi um. Hún ætlaði að athuga með gjafir handa fjölskyldunni, við gætum sötrað á heitri glögg og rölt um í baðandi jólaljósunum. Þannig væri gaman að nýta tímann sem við hefðum saman áður en við héldum hvort til okkar heima. Ég sagði henni að ég kæmi með henni. Það gladdi hana.

Nokkru síðar hringdi síminn minn. Ana-Felicia sótti hann inn í svefnherbergi og auðvitað las hún nafnið á skjánum áður en hún rétti mér hann. Guðrún spurði mig hvenær ég ætlaði að fljúga heim. Hún væri að spá í að lengja dvölina um nokkra daga og datt í hug að verða samferða mér. Ég sagði henni að ég væri ekki búinn að panta flug, en nefndi sömu dagsetningu og ég hafði gefið Önu-Feliciu í gærkveldi, sem heppilegan brottfarardag. Guðrún hringdi líka til að athuga hvort ég væri laus. Hún ætlaði að fara á jólamarkað og langaði að bjóða mér með. Ég leit upp og sá hvar Ana-Felicia þóttist önnum kafin við að ganga frá hreinum þvotti. Ég sagði henni að ég væri laus og til í að hitta hana hvenær sem hentaði. Það gladdi hana.

"Þú mátt ekki halda að ég sé hálfviti," sagði Ana-Felicia við mig, þegar ég sagði henni að ég kæmist ekki með henni. Hún var róleg og yfirveguð, en greinilega miður sín. Hún braut saman þvott á meðan hún hélt áfram. "Ég veit að það er heimskulegt af mér að láta eins og ég læt. En ég er ástfanginn af þér, og þegar maður er ástfanginn gerir maður heimskulega hluti. Maður beitir öllum brögðum til að reyna að hafa hlutina eins og maður óskar sér að þeir séu. En ekki halda að ég sé hálfviti, því ég er það ekki." Hún starði á þvottastaflann, gat ekki hugsað sér að líta á mig, var greinilega að berjast við grátinn. "Ég ætla að drífa mig. Við tölum saman í kvöld," sagði ég og dreif mig út.

Við Guðrún áttum yndislegan dag á markaðnum. Við hlógum og fífluðumst, við drukkum alltof mikið af jólaglögg og Guðrún keypti ógrynnin öll af smádrasli sem hún ætlar að gefa í jólagjafir. Þegar ég kvaddi hana kysstumst við heitum löngum kossi.