Thursday 27 December 2007

30

Þessi jól eru búin að vera dásamleg. Það snjóar sem aldrei fyrr. Honum kyngir niður og allt er fallega hvítt og hreint. Þetta er fullkomið veður fyrir ástfangið par í lítilli íbúð með seríur í gluggum og kveikt á kertum. Það hvín í óþéttum gluggunum. Engin þörf á að fara neitt. Við tvö saman ein. Guðrún geislar af hamingju. Hún vill helst hafa mig þétt upp við sig allann sólarhringinn. Mín er ánægjan. Ég vil hvergi annars staðar vera.

Mamma var glöð að sjá mig. Held ég. Hún spurði hvort mér hefði orðið eitthvað úr verki þarna úti. Hvort eitthvað hefði ratað á blað. Og hún spurði hvort ég væri komin til að vera. Sem ég er. Ég hef ekki ástæðu til annars. Fyllibyttan sem einu sinni hélt sig í skipbraki úti á Granda er týndur og tröllum gefinn. Ekkert virðist til hans hafa spurst. Ætli líklegasta skýringin sé ekki sú að hann hafi gengið í sjóinn.

Ég er kominn aftur heim. Þetta ár er brátt á enda og um leið sérstakur kafli í lífi mínu. Ég leyfi mér að líta á komandi tímamót sem nokkurs konar endurfæðingu. Gamli Eiríkur Vignisson er farinn, nýr Eiríkur Vignisson kominn í staðinn. Og þessi Eiríkur Vignisson ætlar að vanda sig og gera vel.

Vinkona Guðrúnar notaði tækifærið þegar við vorum ein á flugvellinum úti og biðum eftir að inngangurinn í vélina yrði opnaður, og tjáði mér hugsanir sínar. Guðrún hafði skroppið á klósettið. Hún sagði: “Þú veist vel að ég sé í gegnum þig.” Ég horfði á hana rólegur. Í þetta sinn höfðu orð hennar engin áhrif á mig. “Ég veit ekki almennilega hvað það er,” hélt hún áfram, “en ég finn það mjög sterkt að þú ert ekki sá sem þú þykist vera. Guðrún er besta vinkona mín, en við tvö verðum aldrei vinir. Það er eitthvað illt í þér. Þú ert vondur maður. Ég veit það.”

Hún má halda það sem henni sýnist um mig. Það eina sem ég veit er að hinn nýi Eiríkur Vignisson er góð manneskja.