Thursday 13 December 2007

26

Það er að lægja. Brátt verður allt gott. Ég þori varla að segja það, er ekki vanur því og hefði aldrei trúað því eftir það sem á hefur gengið: Allt endar vel. Þrátt fyrir erfiða kvöldstund hér heima með Önu-Feliciu líður mér vel því allt stefnir í þá átt að verða mér í hag. Ég dreg djúpt andann. Halla aftur augunum og rifja upp kossinn okkar Guðrúnar. Ég get ekki annað en brosað og ég finn hvernig hlýr straumur rennur frá hjartanu í mér og út í alla limi. Áðan heyrði ég Önu-Feliciu koma úr herberginu sínu og fara inn á klósett. Hún saug upp í nefið, hafði greinilega verið að gráta. Hún tekur þessu nærri sér. Ég læt ekki eins og ég sé miður mín. Ég er glaður. Allt endar vel.

Við sátum lengi í stofunni í kvöld. Ég var enn rjóður í vöngum eftir útiveruna, gönguna með Guðrúni, og enn hæfilega kenndur af glögginni. Þrátt fyrir að hafa sagt Önu-Feliciu að við myndum ræða málin þegar ég kæmi aftur heim, átti ég erfitt með að tjá mig. Ana-Felicia sá að mestu um að tala. Hún var í fyrstu reið. Hún vildi vita hvort mér hafi einhvern tíma verið alvara með okkar samband. Hvort hún hafi leyft tilfinningunum í minn garð að verða að því báli sem raunin er til einskis. Hún spurði mig út í Guðrúni, hvort við ætluðum að taka saman aftur. Og hún spurði hvort hún hefði kannski átt að hlusta á íslensku vinkonuna strax í upphafi. Hvort þar væri jafnvel hinn eiginlega sannleika að finna. Svo grét hún. Ég þagði í fyrstu. Svo sagði ég henni að mér þætti þetta leiðinlegt. Ég sagði henni að ég vissi ekkert um hvað við Guðrún ætluðum okkur. Ég sagði henni að ég vissi ekki hversu mikið mér hefði verið alvara með henni. Mér hefði oft liðið vel í kringum hana, en ég elskaði hana ekki og vissi að það myndi ég aldrei gera. Þá stóð hún upp, fór inn til sín og skellti hurðinni á eftir sér. Mér létti, því satt að segja nennti ég ekki að hafa þetta uppgjör mikið lengra. Mér fannst ekki vera tilefni til þess.

Ég ætlaði af fara að rísa upp úr sófanum og halda inn í herbergið mitt þegar hún birtist aftur. Hún sagðist vilja að ég pakkaði saman og færi út. Ég spurði hvort ekki væri í lagi að ég gisti eina nótt, það væri áliðið og ég vissi ekki hvert ég ætti að fara. Hún gaf samþykki sitt með þögninni. Nú ligg ég hér, í síðasta sinn á þessum sófagarmi, halla aftur augunum og nýt hlýjunnar innra með mér. Á morgun fer ég og finn ódýra gistingu þar til ég fer heim.

Ég hringdi í Guðrúni áðan. Hún svaraði ekki. Mig langar að skoða borgina með henni næstu daga. Vera með henni. Kannski að hún flytji sig frá vinkonu sinni og til mín þar sem ég verð.

Vonandi fer Ana-Felicia á réttum tíma í skólann í fyrramálið.