Friday 7 December 2007

23

Ég hélt að það væri komið nóg af óvæntum uppákomum en í dag fékk ég að vita að Ana-Felicia er óútreiknanleg. Eða gleymin. Hún hafði ekki sagt mér frá manninum sem stóð í eldhúsinu og át af diski fullum af spældum eggjum þegar ég kom úr gönguferð. Ég hafði staðið fyrir utan húsið þar sem Guðrún býr og beðið án árangurs eftir að hún léti sjá sig, en loks gefist upp og haldið heim á leið. Þarna stóð hann, hávaxinn, dökkur yfirlitum, kolsvart hár og dökk skeggrót, í jakkafötum, með bindi og kjamsaði á matnum. Hann horfði á mig til baka þungu augnarráði. Því næst spurði hann á bjagaðri ensku: "Ert þú gaurinn sem er að ríða systur minni?" Ég vissi engan veginn hvernig ég ætti að bregðast við, stóð stjarfur og beið. Hann lagði diskinn frá sér á eldhúsbekkinn, sótti tusku og þurrkaði á sér hendurnar, gekk því næst hægum skrefum til mín og stóð þétt upp við mig. Hann bar aftur upp spurninguna, hægt og ógnandi. Ég stamaði út úr mér að ég væri sá sem byggi hér með Önu-Feliciu. Þá skellti hann upp úr, klappaði mér á kinnina, gekk hlæjandi aftur að disknum og hélt áfram að borða. Bróðir Önu-Feliciu er heilmikill húmoristi.

Þau virðast mjög samrýmd systkinin. Þau hlæja á sama tíma, og eins mikið og Ana-Felicia er hláturmild þá eykst það um helming þegar hún er í kringum bróður sinn. Ég er ekki vanur að hlæja mikið og undanfarið hefur mér síður en svo langað til þess. Þegar ég hugsa um hversu mikið ég lagði mig fram við að vera hress og kátur með þeim í dag finn ég til ógleði og um leið eykst andstyggð mín á Önu-Feliciu. Hún var öll utan í mér, var stöðugt að koma við mig og kyssa mig, hékk á mér, og í kvöld lá hún svo gott sem ofan á mér í sófanum, á meðan bróðir hennar sat í stól andspænis okkur og hló. Hún er litla systir hans og honum þykir mjög vænt um hana. Hún vildi augljóslega gleðja hann, sýna honum að hún hefði fundið ástina, sýna honum hvað hún var hamingjusöm með þessum nýja manni í lífi sínu. Það var ekki laust við að hann yrði klökkur við að sjá okkur saman.

Í fyrsta skipti töluðum við Ana-Felicia um komandi jól. Hún fer heim til Búkarest og spurði mig hvað ég hyggðist gera. Bróður hennar fannst tilvalið að ég kæmi með henni og borðaði jólasvínið með fjölskyldunni. Svínsátinu fylgir heilmikið athöfn og þau hlógu mikið þegar þau rifjuðu upp hversu nákvæmlega pabbi þeirra fylgdi hinum gömlu siðum, krossaði yfir höfði svínsins áður en það var étið og fór með réttar setningar og bænir. Ég sagðist ætla að hugsa málið. Ekki veit ég af hverju. Ég er ekki að fara til Búkarest.

Einu sinni heyrði ég þátt í útvarpi um starfshóp hjá lögreglu einhvers staðar í útlöndum, sem gerði ýmsar tilraunir í þeim tilgangi að komast að hvernig utanaðkomandi aðstæður hefðu áhrif á lík fólks sem falin væru á afviknum stöðum. Í tilraununum notaðist hópurinn við dauð svín, klæddu þau í föt, settu jafnvel á þau skartgripi. Svínakjöt er í eðli sínu mjög áþekkt mannakjöti.

Bróðir Önu-Feliciu er í mínu herbergi. Sefur á svefnsófanum mínum. Hann gistir núna í nótt en heldur áfram för sinni í fyrramálið. Ana-Felicia er farin inn í rúm. Ég sagðist þurfa að skrifa. Fyrir utan þennan fáranlega eftirmiðdag hér heima, er myndin af Guðrúni rúnuð í huga mér. Ég þarf að fara að hitta hana augliti til auglitis.