Thursday 29 November 2007

20

Í nótt umvafði myrkrið mig. Það var þungt og kæfandi. Ég vissi ekki hvar ég var, augu mín reyndu að venjast biksvörtu myrkrinu og greina einhver skil, en það bar ekki árangur. Lengi vel stóð ég og beið. Loftið varð þyngra og ég var farinn að sætta mig við að þarna, á þessum óræða stað, tæki allt enda. Ég var í raun feginn, fann fyrir létti. Þá sá ég í fjarska móta fyrir hreyfingu. Eitthvað færðist nær mér. Þetta var hann. Maðurinn sem ég slátraði. Hann kom alveg upp að mér og horfði á mig. Engin ásökun. Engin reiði. Hann rétti fram aðra hendina og þar var hnífurinn, alblóðugur. Og ég sá skurðinn, þvert yfir hálsinn, og þar rann líka blóð. Hann opnaði munninn og talaði, en ég skildi ekkert af því sem hann sagði, skildi ekki tungumálið. Hann endurtók sömu setninguna aftur og aftur, eins og þulu sem ég þyrfti að muna. Hann greip í hárið á mér, þrýsti mér að sér og hélt áfram að þylja, takið svo harkalegt að mér fannst sem höfuðleðrið ætlaði að rifna frá kúpunni. Ég reyndi að losa mig og þá rofaði til og ég lá í rúminu.

Við hlið mér lá Ana-Felicia og svaf. Ég virti hana fyrir mér. Ég ber engar tilfinningar til þessarar konu. Mér er alveg sama um hana. Mér finnst ekkert um hana. Hún gæti verið hvaða ómerkilega manneskja sem er. Og þarna lá hún sofandi með aðra hendina yfir mig, eins og til að halda mér nálægt sér. Ég færði hendina varlega, því ég vildi alls ekki vekja hana, stóð upp úr rúminu og fór fram. Íbúðin var hljóð og vinaleg. Lyktin hér inni er góð. Þess vegna er ég ekki farinn. Þetta er minn griðarstaður, minn kirkjuturn, og ég er afmyndað skrímsli. Ég hellti upp á kaffi og settist með bollann inni í eldhúsinu.

Gærdeginum eyddi ég hér heima. Ég skrifaði kafla í sögunni sem ég er með í smíðum. Allt í einu var sem einhverjar gáttir opnuðust og ég skrifaði margar blaðsíður. Allt sem fór á blöðin sá ég fyrir mér ljóslifandi. Rétt eins og minningu, eitthvað sem gerst hefði í raun og veru. Samt sem áður man ég ekki eftir þessu. Þegar ég hafði sett síðasta punktinn á blaðið opnaði ég tölvuna hennar Önu-Feliciu sem hún hafði skilið eftir á stofuborðinu. Ég ætlaði mér að finna ritvinnsluforrit. Þar gæti ég slegið eitthvað af skissunum mínum inn, prentað þær svo út og lesið þær yfir, lausar við óþarfa krass og krot. Hreinn texti. Eins og hann birtist á bók. Á skjánum var opinn gluggi, þar sem Ana-Felicia hafði verið að ræða við vinkonu sína á netinu. Vinkonan talaði ekki sama tungumál og hún, allt fór fram á ensku og ég gat lesið það sem þeim fór á milli. Þarna sá ég nafnið mitt. Íslendingurinn með skrýtna nafnið. Broskarlar. Vinkonan spurði frétta, hvernig sambúðin gengi. Ana-Felicia tjáði henni að hún væri hægt og rólega að verða yfir sig ástfangin. Svo mikið að það hræddi hana pínulítið. Ég væri mjög dularfullur, en um leið svo blíður og góður, skemmtilegur og fallegur. Hún ætti erfitt með að trúa því að hafa fundið mann eins og mig. Vinkonan óskaði henni innilega til hamingju. Broskarlar. Ana-Felicia þakkaði fyrir. Broskarlar.

Ég sat lengi í eldhúsinu. Út um gluggann sá ég hvernig nóttin breyttist hægt í nýjan dag. Ég geri mér grein fyrir að þessu er ekki lokið. Ég á eftir að gera eitthvað af mér áður en yfir lýkur.