Monday 26 November 2007

18

Ég fór með Önu-Feliciu í partý. Mig langaði ekkert, en fannst eins og rétt væri að gera henni til geðs. Ég get heldur ekki lokað mig inni í íbúðinni endalaust. Ég spurði hvort hún héldi að íslenska stelpan yrði á svæðinu. Hún sagðist allt eins eiga von á því. Sú íslenska hefði reyndar forðast sig eftir kvöldið góða, en kom þó eitt sinn til hennar og spurði hvort ég hefði sagt henni sannleikann, auk þess sem hún notaði tækifærið og sagði henni að passa sig á mér. Ég væri ekki heill á geði. Ana-Felicia hefur tekið ákvörðun. Eins og hún orðaði það sjálf, þá ætlar hún að leyfa mér að njóta vafans. "Af því mér finnst þú mun sætari en hún, og svo er ég líka að sofa hjá þér en ekki henni."

Samkvæmið var haldið hjá ísraelskum náunga, litlum naggi með svart krullað hár sem stóð út í loftið. Ósköp vingjarnlegur, eins og aðrir sem þarna voru. Ég hélt mig nærri Önu-Feliciu framan af. Hún kynnti mig sem vin sinn og meðleigjanda, og vinir hennar glottu, vissu vel að ég er aðeins meira en það. Ég fékk dæmigerðar fyrirspurnir. Það væri búið að vera kalt undanfarið en líklega ekkert í samanburði við það sem ég á að venjast heima, eða hvað? Þau töluðu um íslenska tónlist. Björk og Sigurrós. Allt saman mjög leiðinlegt en ég lét eins og ég hefði gaman af. Eftir að ég hafði skroppið á klósettið sá ég Önu-Feliciu í hrókasamræðum innar í stofunni. Ég notaði tækifærið og settist í auðan stól úti í horni. Stundum er gott að vera einn og fylgjast með.

Þá rak ég augun í þá íslensku. Hún stóð upp við vegg umkringd strákum. Hún var greinilega orðin nokkuð ölvuð, talaði hátt og skríkti, flörtið svo ömurlega augljóst, ekkert til sem hét að fara fínt í hlutina, allt látbragð gaf til kynna að hún var föl og ætlaði sér ekki að fara ein heim. Hátterni sem ekki kemur á óvart. Hún er íslensk. Hún hafði greinilega séð mig þar sem ég sat og gjóaði til mín augum. Mér fannst ég verða að nota tækifærið og reyna að hreinsa andrúmsloftið á milli okkar. Þegar ég sá hana fara inn í eldhús að ná sér í meira að drekka elti ég hana þangað.

“Ég átti ekki von á því að sjá þig hér,” sagði hún.
“Nú? Af hverju ekki?”
“Þú ert nú ekki mikið fyrir að vera í kringum fólk.” Ég brosti og mér til furðu brosti hún á móti. Mér létti stórum.
“Hvernig kanntu við þig hérna í borginni? Ertu búinn að skoða þig mikið um?” Röddin var alveg laus við að vera fjandsamleg.
“Aðeins. Það er fallegt hérna.”
“Já, þetta er yndislegur staður. Hvað ertu annars að gera hér?”
“Ég er að skrifa. Vinna í skáldsögu.”
“Já alveg rétt. Þú ert rithöfundavonnabí. Einn af þeim,” sagði hún og hló.
“Já. Ég býst við því.”
Hún fékk sér sopa af bjórflöskunni sem hún hélt á. Svo sagði hún:
“Ég er búinn að segja henni að þú sért staddur hér. Það kemur þér tæplega á óvart.”
“Nei, ætli það.” Það gat ekki annað verið.
“Annars var ég nú ekki að segja henni það mér til gamans. Hún er væntanleg í heimsókn til mín eftir nokkra daga og ég vildi vara hana við. Þótt ég sakni hennar svakalega mikið og vil að hún komi hingað út til mín, er ég ekki viss um að hún meiki að vera í sömu borg og þú.”
Hún sá að mér var brugðið.
“Þú hefðir betur átt að flýja eitthvert annað, eitthvert lengra í burtu. Í aðra heimsálfu kannski. Skriðið þar ofan í djúpa og dimma holu og haldið þig þar.” Hún brosti blíðlega, gekk síðan framhjá mér inn í stofu þar sem hún hélt áfram að ræða við strákana.