Thursday 22 November 2007

16

Ég sit inni í herberginu mínu og reyni að hugsa skýrt. Þegar allt virtist vera að falla á rétta staði fær maður höggið og steinliggur. Baráttan heldur víst áfram, hvort sem mér líkar betur eða verr. Slagurinn langt því frá unninn. Ný persóna kynnt til sögunnar, andlit sem horfir undrandi á mig. Ég horfi á móti og veit engan veginn hvernig ég á að vera, eða hvað ég á að segja.

Ana-Felicia kom úr skólanum, óð beint á mig þar sem ég sat í sófanum, faðmaði mig og kyssti. Spurði hvernig ég hefði haft það, hvort ég hefði saknað hennar á meðan hún var í burtu. Dagurinn hennar hefði verið einkar ánægjulegur og nú væri hún með svolítið óvænt handa mér. Hún hefði boðið stelpu sem hún hitti í skólanum í kvöldmat. Ég heyrði að einhver stóð frammi á gangi. Ana-Felicia kallaði og inn gekk ein af bestu vinkonum Guðrúnar. Hún horfði á mig undrandi. Átti ekki von á þessu frekar en ég. Ósjálfrátt ýtti ég Önu-Feliciu frá mér og stóð upp.
"Hæ. Ert þú hér? Ekki vissi ég það." Hún virtist ekki yfir sig hrifin að sjá mig.
"Já. Hér er ég. Komdu sæl." Ég gekk til hennar og ætlaði að kyssa hana á kinnina, en hún hörfaði undan kossinum. Allt hringsnerist fyrir augunum á mér.

Ana-Felicia heimtaði að sjá um eldamennskuna. Hún sagðist hafa getað sagt sér það sjálf að við myndum þekkjast, ég og þessi stelpa. Auðvitað. Við værum jú íslensk, þar sem allir þekkja alla. Hún hlýtur að hafa fundið spennuna, og óþægilegt andrúmsloftið í stofunni og fann sér því undankomuleið inn í eldhús þar sem hún fór að huga að matnum. Hin óvænta uppákoma hafði talsvert önnur áhrif en hún hafði ætlað. Ég sá hana líta reglulega fram til okkar. Þegar hún sá mig horfa til baka brosti hún óörugg.
"Ertu búinn að heyra í Guðrúni?" spurði vinkonan.
"Nei. Ekki ennþá."
"Hún er í rusli." Hún átti greinilega erfitt með að hemja reiði sína. "Djöfulsins fávitinn þinn," hvæsti hún. Ég þagði. "Þú ert illa geðveikur. " Hún beið eftir viðbrögðum frá mér. Ég þagði áfram. "Hún sagði mér allt. Hvernig þú hagaðir þér. Ógnaðir henni og raukst svo út. Og hefur ekki haft samband síðan." Ég sagði: "Þetta er nú kannski ekki þitt mál." Orð mín voru eins og bensín á eld. Hún rauk upp og stóð yfir mér, eins og þrumuský. "Þetta er víst mitt mál. Guðrún skiptir mig máli." Svo tók hún ákvörðun. "Ég get ekki verið hérna, með þér og nýju kærustunni þinni." Hún gekk inn í eldhús og ég heyrði hana spyrja Önu-Feliciu hvort hún væri komin langt með matseld. Hún gæti því miður ekki stoppað og borðað með okkur. Þegar Ana-Felicia spurði hvers vegna, sagði hún að svolítið hefði komið upp á. Sagði að ég gæti hugsanlega útskýrt það betur. Því næst strunsaði hún út.

Ég bjó að sjálfsögðu til sögu. Spann í snarheitum upp einhverja þvælu um bróður þessarar stúlku, sem ég hefði eitt sinn skuldað pening, en væri að sjálfsögðu búinn að borga. Stúlkan vissi það greinilega ekki og því væri þetta allt saman á misskilningi byggt. Ekki veit ég hvaðan þessi saga kom eða hvernig mér datt hún í hug. Ég kyssti Önu-Feliciu og sagði henni að hafa engar áhyggjur. Íslendingar ættu það til að stökkva upp á nef sér af minnsta tilefni. Ég veit ekki hvort hún trúði mér. Við töluðum lítið saman yfir matnum. Eftir uppvaskið settist hún í sófann en ég sagðist þurfa að skrifa og fór inn til mín. Og hér er ég. Reyni að hugsa skýrt. Finnst eins og allt sé á leiðinni til andskotans. Veit ekki hvert næsta skref ætti að vera.