Wednesday 7 November 2007

7

Ég er að berjast gegn sjálfum mér. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að ég kæmist upp með þetta. Þá á ég ekki við gagnvart öllum hinum, ekki gagnvart lögreglu og að komast hjá því að taka út þá refsingu sem mér yrði dæmd. Ekki gagnvart fólkinu sem þekkir mig og þekkir mig ekki. Ég er að tala um sjálfan mig. Ég þarf að standa andspænis sjálfum mér og taka þannig út refsinguna sem ég á skilið. Ég er ekki maður sem gerir það sem ég gerði. Þannig er ég tveir menn. Annars vegar hinn sanni ég, sá sem ég hef alltaf verið frá því ég fæddist, hins vegar sá sem framdi verknaðinn. Þetta hljómar ruglingslega, þannig er hausinn á mér núna og hann vill ekki róast. Ég svaf lítið sem ekkert í nótt.

Það hellirigndi í dag, en ég ákvað þrátt fyrir það að fara út að ganga í garðinum hér nálægt. Ég gekk lengi og var orðinn gegndrepa þegar ég hélt aftur heim til að reyna að festa svefn. Þar sem ég stóð við útidyrnar og fiskaði lyklana úr vasanum var pikkað í öxlina á mér. Ég leit við og þar stóð gamall maður, augljóslega heimilisleysingi og vel drukkinn í þokkabót. Hann horfði djúpt í augun mín, rétt eins og hann þekkti mig og sagði því næst eitthvað sem ég skildi ekki. Ég fann hvernig ég þornaði upp í munninum. Ég sneri mér undan og reyndi að koma lyklinum í skránna. Kallinn ýtti við mér og hélt áfram að tala. Loksins opnaðist hurðin og ég flýtti mér inn og skellti á eftir mér. Hér er nóg af heimilisleysingjum, fyllibyttum og betlurum. Ég hef þó hingað til náð að leiða þá hjá mér. Ég hljóp upp stigana. Inni í herbergi kom ég mér úr blautum fötunum og fór í heita sturtu. Lagðist því næst á sófann og hallaði aftur augunum.

Ég sat á bekk niðri á Granda og horfði út á sjó þegar ég sá mann koma úr gömlu ónýtu bátskrifli sem liggur þar á bakkanum. Leið hans var skrykkjótt en hann var augljóslega búinn að sjá mig og var á leiðinni til mín. Hann settist hjá mér á bekkinn og dró plastflösku upp úr vasanum. Tók stóran sopa og ræskti sig, vökvinn greinilega sterkur og erfitt að koma honum niður. Ég hafði séð þennan mann áður, í einhverjum sjónvarpsþætti. Einn af fyllibyttuaumingjum borgarinnar. Um stund sátum við þarna í þögn. Svo leit hann á mig og rétti mér flöskuna.
"Nei takk. Ég er ekki þyrstur," sagði ég. "Eigðu þetta bara fyrir sjálfan þig." Hann horfði á mig, augun full af söknuði og eftirsjá. Líklega leit hann á þennan stað sem heimili sitt og mig sem gest sem kominn var í heimsókn. Hann stóð upp og gekk hægum skrefum til baka í átt að bátnum.

Í kvöld er ég einn í íbúðinni. Ana-Felicia fór á tónleika og var svo vinsamleg að bjóða mér með sér. Ég afþakkaði. Hún skildi tölvuna sína eftir á stofuborðinu og eftir að hún var farin stalst ég til að fara á netið. Enn þá ekkert sem mig varðaði á fréttasíðunum. En það var komið bréf frá mömmu. Hún sagðist vona að ég hefði það gott. Spurði hvenær ég ætlaði að koma aftur heim. Og hún sagði mér að það hefði hringt í sig stelpa í gærkveldi. Hún hefði kynnt sig sem Guðrúni, og spurt hvar ég væri niðurkominn.