Tuesday 6 November 2007

6

Ég stóð fyrir utan húsið skömmu fyrir kvöldmat. Ana-Felicia hafði spurt mig hvort það væri í lagi að hún kæmi ekki úr skólanum fyrr en um klukkan 5. Ég sagði að það hentaði mér vel og eyddi deginum í að rölta um og bíða. Ég settist inn á tyrkneskan veitingastað þegar ég var orðinn svangur. Þar sem ég stóð við afgreiðsluna og litaðist um eftir þjóni, gat ég séð inn í eldhúsið. Þar hékk heill lambaskrokkur, og beið þess að verða skorinn í bita og matreiddur. Ég fékk mér steik og hún var ljúffeng.

Einu sinni fékk ég að fara með pabba út í sveit þar sem hann aðstoðaði bónda við heimaslátrun. Þegar bóndinn hafði skotið fyrsta lambið í hausinn og skorið þvert yfir háls þess tók pabbi við því og hélt því föstu við jörðina. Ég skildi ekki af hverju fyrr en lífvana skrokkurinn fór að kippast til. Pabbi þurfti að hafa sig allann við að halda því kyrru. Svona eru hugsanir mínar þessa dagana. Þær flakka stjórnlaust fram og til baka.

Nýju húsakynnin líta mjög vel út. Ég átti satt að segja ekki von á þessu, miðað við hvað ég borga í leigu. Herbergið mitt er stórt og hátt til lofts. Þar stendur svefnsófi, sem hægt er að stækka með einu handtaki. Baðherbergið er eins lítið og hægt er, en þar er allt sem ég þarf, vaskur, klósett, sturta. Ólíkt mér er sem Önu-Feliciu þyki ekkert sjálfsagðra en að búa með bláókunnugri manneskju. Hún er alveg laus við feimni. Í ljós kom að það voru mun fleiri sem höfðu samband við hana út af herberginu, en það að ég kom frá Íslandi fannst henni spennandi. Ekki spillti heldur að ég sagðist vera að sinna ritstörfum. Þessi blanda er að því er virðist ómótstæðileg. Þegar hún spurði mig nánar út í hvað ég væri að skrifa sagði ég að ég væri með skáldsögu í smíðum. Lét þar við sitja. Og varð um leið dularfullur og enn meira spennandi.Við höfðum þó um annað að spjalla. Ana-Felicia er mjög áhugasöm um landið mitt og hefur komið einu sinni til Reykjavíkur, þegar hún ásamt vinum sínum var viðstödd Airwaves tónleika fyrir einhverjum árum. Henni þótti miður að ná ekkert að fara út fyrir borgina en segist sjaldan hafa upplifað annað eins næturlíf. Ég tók undir það, og leiðrétti nöfnin á stöðunum sem hún hafði farið inn á, og hló með henni að því hvað það er erfitt að bera þau fram.

Það, hversu auðvelt hún átti með að halda samræðunum gangandi gerðu þessi fyrstu kynni mun auðveldari. Það eina sem ég hugsaði um var að koma vel fyrir. Henni má alls ekki finnast ég eitthvað skrýtinn. Til að fyrirbyggja slíkt baðst ég afsökunar á því ef henni þætti ég þurr á manninn. Ég væri þreyttur og héldi að ég hefði náð mér í einhverja flensu. Ég þyrfti líklega að leggja mig og reyna að ná þessu úr mér. Þetta sagði ég, þótt það sé akkúrat ekkert að mér. Ég þurfti bara að komast í burtu og vera út af fyrir mig.

Núna heyri ég í sjónvarpinu frammi í stofu. Þar situr þessi nýja stúlka í lífi mínu. Þetta fer örugglega allt saman vel. Þótt ég sé loks á öruggari og þægilegri stað hefur mér aldrei liðið jafn illa síðan ég kom út. Aldrei fundist ég jafn óumræðilega einn. Ég þarf að berjast við að fara ekki að grenja eins og helvítis aumingi. Og ég vona að ég fái ekki drauma yfir mig í nótt. Það sem ég þarf síst á að halda nú eru draumarnir.