Monday 5 November 2007

5

Þegar ég var lítill stofnuðum við Ari vinur minn njósnafélag. Við tókum þennan félagsskap mjög alvarlega, héldum bókhald um njósnir okkar, teiknuðum upp leiðirnar sem við fórum og skrifuðum niður nöfn þeirra sem við fylgdumst með. Við höfðum bækistöðvar í kofa sem við smíðuðum uppi í hlíðinni fyrir ofan þorpið og þar var líka geymt í læstum kassa alls kyns dularfullt dót sem á vegi okkar varð. Það var þó ekki fyrr en í síðustu njósnaferð okkar sem við komumst að alvöru leyndarmáli. Sú ferð varð sú síðasta sem félagið okkar tók sér á hendur. Eftir það lagði það upp laupana.

Við ákváðum að vaka eina nóttina og laumast út til að athuga hvort hún geymdi ekki eitthvað grunsamlegt handa okkur. Nóttin er mun meira spennandi en bjartur dagurinn þegar maður er njósnari. Eftir að hafa vafrað um í dágóðan tíma án þess að sjá nokkra manneskju á kreiki, allir virtust í fastasvefni, opnaðist hurðin á bæjarstjórnarskrifstofunni. Við rétt náðum að fela okkur í tæka tíð. Ég hafði oft komið inn í þetta hús. Þarna vann mamma sem ritari bæjarstjórans. Hún átti það til að þurfa að vinna frameftir, sérstaklega ef einhverjir stórviðburðir voru í bígerð, og undanfarið hafði hún lítið sést heima, enda afmælishátið þorpsins á næsta leyti.

Mér brá þó lítið eitt þegar ég sá mömmu koma út úr húsinu. Hún var brosandi og glöð og hún talaði lágt við einhvern sem stóð fyrir aftan hana. Hún leit í kringum sig en sneri sér því næst við í hurðinni. Bæjarstjórinn birtist í gættinni. Þau föðmuðust innilega þar sem þau stóðu og kysstust heitum kossi. Bæjarstjórinn renndi höndunum niður bakið á henni, strauk á henni rassinn og kleip þéttingsfast um hann. Á þetta horfðum við Ari þar sem við lágum í leyni. Því næst gekk mamma á brott áleiðis heim.

Í hádeginu í gær var ég búinn að koma mér fyrir skammt frá húsinu þar sem íbúðin okkar Önu-Feliciu er. Fyrir utan kaffihús á næsta götuhorni sat ég og þóttist lesa bók. Það renndi pallbíll upp að húsinu og úr honum steig stelpa, dökkhærð, örlítið þétt og frekar hávaxin með strákslegt andlit. Á palli bílsins voru ýmsir innanstokksmunir. Hún opnaði útidyrnar með lykli, setti fleig undir hana til að halda henni opinni og byrjaði að bera af pallinum inn í húsið. Ég sat sem fastast og horfði á. Ana-Felicia er ekki ósvipuð og ég ímyndaði mér. Hún virkar úr fjarlægð svolítið röff týpa. Hún er töffari. Held ég.

Ég hafði fyrr um morguninn gengið um hverfið. Það lofar góðu. Hér, eins og reyndar alls staðar í þessari borg, má finna skemmtileg kaffihús og veitingastaði. Skammt frá er líka stórt og mikið útivistarsvæði, garður með háum trjám og miklum gróðri. Þar var margt fólk, hlaupandi morgunskokkið sitt eða að viðra hundinn sinn. Hér eru margir hundar. Ég held að ég sé reiðubúinn að pakka því litla sem ég hafði meðferðis niður í tösku og flytja það hingað á nýja staðinn.