Ég fór ekki langt. Mundi eftir litlu hóteli nokkrum götum frá íbúð Önu-Feliciu og þangað hélt ég í morgun. Nennti ekki lengra.Nóttin hér er ódýr, herbergið sjúskað og þreytulegt en rúmið dugar alveg. Myndin fyrir ofan rúmið vakti strax athygli mína og fékk mig til að hugsa um tilviljanir. Þetta var gömul ljósmynd frá Íslandi. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Hérlendir virðast elska Ísland. En myndefnið var ekki ein af okkar fjölsóttu ferðamannaparadísum. Ljósmyndarinn stóð uppi á heiði og tók myndina niður í þröngan fjörð, fjöllin há og tignarleg beggja vegna. Ég þekki þennan fjörð. Í botni hans dó pabbi. Í öðrum firði skammt frá stendur gamla þorpið mitt.
Pabbi dó á voveiflegan hátt. Ég man að þá heyrði ég í fyrsta sinn þetta orð og mér hefur alltaf þótt eitthvað fallegt við það síðan, þrátt fyrir að það tengdist jafn sorglegum atburði. Að eitthvað sé voveiflegt. Þennan morgun lagði pabbi snemma af stað að heiman og hélt út í sveit. Hann sagði mömmu að hann ætlaði að vinna smíðavinnu fyrir bónda sem þar bjó. Þangað væri förinni heitið. Veður var milt og fallegt. Hvít snjóbreiða yfir öllu. Kyrrð í lofti. Þessi dagur er mér ljóslifandi. Pabbi var farinn áður en ég vaknaði. Mamma komin í vinnuna. Ég fékk mér morgunmat, klæddi mig, skólataskan beið mín í ganginum, ég tók hana upp og hélt í skólann. Þetta var eins og hver annar skóladagur, nema að ég man hann upp á mínútu.
Þessi mynd á veggnum fær mig til að hugsa skrýtnar hugsanir. Áður en ég vissi af var ég farinn að tala upphátt við pabba. Það hef ég aldrei gert. Ég spurði hann hvort hann vissi af hverju ég er eins og ég er. Og ég skammaði hann fyrir að fara án þess að kveðja mig. Hann svaraði mér ekki. Ég fann hvernig ég sökk dýpra og dýpra niður í beddann. Ég fann til vanmáttar og ógleði. Ég reif mig upp, gekk að vaskinum og baðaði andlitið í kaldri lófaskál. Horfði á sjálfan mig í litla speglinum. Hausinn á mér sagði mér að fara út. Ég fór í jakkann, greip handtöskuna og flýtti mér úr herberginu, niður stigann og út á götu. Áður en ég vissi var ég staddur í götunni sem ég flutti úr í morgun. Á fyllibyttubekknum sat mannvera. Kallinn sem hafði ekki látið mig í friði og þóttist eiga eitthvað vantalað við mig. Hann sat þarna einn. Ég gekk að bekknum og fékk mér sæti.