Thursday, 27 December 2007

30

Þessi jól eru búin að vera dásamleg. Það snjóar sem aldrei fyrr. Honum kyngir niður og allt er fallega hvítt og hreint. Þetta er fullkomið veður fyrir ástfangið par í lítilli íbúð með seríur í gluggum og kveikt á kertum. Það hvín í óþéttum gluggunum. Engin þörf á að fara neitt. Við tvö saman ein. Guðrún geislar af hamingju. Hún vill helst hafa mig þétt upp við sig allann sólarhringinn. Mín er ánægjan. Ég vil hvergi annars staðar vera.

Mamma var glöð að sjá mig. Held ég. Hún spurði hvort mér hefði orðið eitthvað úr verki þarna úti. Hvort eitthvað hefði ratað á blað. Og hún spurði hvort ég væri komin til að vera. Sem ég er. Ég hef ekki ástæðu til annars. Fyllibyttan sem einu sinni hélt sig í skipbraki úti á Granda er týndur og tröllum gefinn. Ekkert virðist til hans hafa spurst. Ætli líklegasta skýringin sé ekki sú að hann hafi gengið í sjóinn.

Ég er kominn aftur heim. Þetta ár er brátt á enda og um leið sérstakur kafli í lífi mínu. Ég leyfi mér að líta á komandi tímamót sem nokkurs konar endurfæðingu. Gamli Eiríkur Vignisson er farinn, nýr Eiríkur Vignisson kominn í staðinn. Og þessi Eiríkur Vignisson ætlar að vanda sig og gera vel.

Vinkona Guðrúnar notaði tækifærið þegar við vorum ein á flugvellinum úti og biðum eftir að inngangurinn í vélina yrði opnaður, og tjáði mér hugsanir sínar. Guðrún hafði skroppið á klósettið. Hún sagði: “Þú veist vel að ég sé í gegnum þig.” Ég horfði á hana rólegur. Í þetta sinn höfðu orð hennar engin áhrif á mig. “Ég veit ekki almennilega hvað það er,” hélt hún áfram, “en ég finn það mjög sterkt að þú ert ekki sá sem þú þykist vera. Guðrún er besta vinkona mín, en við tvö verðum aldrei vinir. Það er eitthvað illt í þér. Þú ert vondur maður. Ég veit það.”

Hún má halda það sem henni sýnist um mig. Það eina sem ég veit er að hinn nýi Eiríkur Vignisson er góð manneskja.

29

Í rauninni var þetta nákvæmlega eins og þegar ég gerði þetta við kallinn í bátnum. Umhverfið var jú annað, ég staddur í öðrum heimshluta. Að öðru leiti var þetta endurtekning. Kallinn leit til mín á bekknum og brosti. Eins og til að sýna að hann væri þakklátur fyrir að ég léti loks segjast. Við sátum um stund í þögn en svo byrjaði hann að þylja. Aftur og aftur, sömu undarlegu romsuna og síðast þegar við hittumst. Ég lagði mig fram við að hlusta, en skildi ekki neitt.
”Nastanie mose kiedis dla ludzkoski poranek łaski. Nastanie poranek łaski dla mnie. Nastanie mose kiedis dla ludzkoski poranek łaski. Nastanie poranek łaski dla mnie.”

Ég stóð upp og gekk í átt að húsinu hennar Önu-Feliciu. Þar í götunni vissi ég um djúpt skot sem alltaf var dimmt og mannlaust. Ég hafði oftar en einu sinni stöðvað göngu mína við munann og reynt að sjá inn í enda, en án árangurs. Ég benti kallinum á að koma með mér. Var eins viðkunnalegur og mér var unnt. Hann stóð upp og fylgdi, líklega í von um að ég byði honum heim, gæfi honum að borða og drekka. Við gengum rólega hlið við hlið. Þegar við gengum framhjá skotinu reif ég í hann og dró hann þangað inn. Hann var sterkari en ég átti von á. Þrátt fyrir að vera vel drukkinn, og þrátt fyrir að ég kæmi honum í opna skjöldu veitti hann sterka mótspyrnu. Mér tókst þó að lokum að króa hann af úti í horni. Ég smeygði hendi ofan í handtöskuna. Þar beið hnífurinn eftir að fá að sýna bitið. Hann horfði á mig og hann brosti. Rétt eins og hann hefði beðið eftir þessari stund. Eins og ekkert af þessu kæmi honum á óvart.

Ég skar hann. Á endanum skar ég hann þvert yfir hálsinn. Skurðurinn var djúpur og um leið korraði í kallinum. Ég hafði vit á að ýta honum frá mér í hæfilega fjarlægð áður en blóðið tók að spýtast út í loftið. Ég horfði á hann kippast til og frá, andlitið afmyndað þegar vitin reyndu að teyga súrefni og halda með því lífi í þessum úr sér gengna skrokk.

Þegar ég kom heim fann ég strax fyrir kyrrðinni yfir mér. Hún umvafði mig. Ég lagðist á koddann og lokaði augunum.

Myrkur. Ró.

28

Myrkur. Ró. Mér leið vel með augun lokuð. Glugginn í herberginu snýr að bakgarðinum, sem er girtur á alla vegu með himinháum húsveggjum. Þaðan bárust engin hljóð, og þó var kominn dagur. Ég svaf vært í nótt. Rétt eins og það sem ég gerði í gærkveldi hafi verið nauðsynjaverk. Hreinsun. Ég hugsa til þess og finn fyrir allt öðru en óhugnaði. Ég er eins viss nú og í fyrra skiptið um að ég hef ekkert að óttast, og bráðum sit ég í vél á leiðinni heim.

Síminn titraði á náttborðinu. Það var Guðrún. Hún byrjaði á því að biðjast fyrirgefningar á því að hafa ekki haft samband fyrr en nú. Hún var mjög leið yfir því. Vinkona hennar hafði verið að hræra í henni. Skoðun hennar á mér hefur lítið breyst, og hún tók því illa þegar hún frétti að við værum að draga okkur saman aftur. Hún fékk það af sér að fá Guðrúni til að samþykkja að koma með sér í ferð út úr borginni yfir helgina og hafa ekki samband við mig á meðan. Svo mikið vann hún í þessu og ruglaði Guðrúni í ríminu að hún samþykkti á endanum.

“Þessi ferð var samt góð, því ég áttaði mig á því hvað mig langar mikið til að vera með þér. Þetta var svo fallegur staður, eins og lítið jólaþorp, stemmingin svo afslöppuð og kósý og það eina sem ég hugsaði um var hve gaman væri ef þú værir með mér þar.” Ég sýndi henni skilning. Sagði henni að hafa ekki áhyggjur. Ég hefði vissulega orðið undrandi á að hún svaraði ekki símtölunum mínum, en að öðru leyti hefði ég haldið ró minni. Nú hlakkaði ég mest til þess að verða samferða henni heim. Henni, og vinkonu hennar. Hún er að fara með sömu vél.

Ég fór til Guðrúnar seinni partinn. Vinkona hennar var heima, þurr á manninn og kjánaleg. Ég gerði í því að vera almennilegur. Brosti mínu breiðasta. Það var ekki erfitt, til þess var tigangurinn of skemmtilegur. Ég naut þess að smyrja á hana elskulegheitunum. Guðrún var búin að pakka ofan í tösku, við höfðum ákveðið að hún gisti hjá mér þar til við förum heim til Íslands. Augnaráðið sem vinkonan gaf mér áður en hurðin á íbúðinni lokaðist á eftir okkur var ískalt, en ekki laust við uppgjöf. Hún hafði gert það sem í hennar valdi stóð til að stýja okkur í sundur. Nú hélt ég á töskunni hennar Guðrúnar í annarri hendi, leiddi hana með hinni og kvaddi. Brosandi.

Við eyddum kvöldinu hér á herberginu. Það er satt sem sagt er. Að sofa hjá þeim sem maður elskar er allt annað og miklu meira en að sofa hjá ókunnugri manneskju.

Núna sefur Guðrún vært í rúminu. Ég hef aldrei elskað hana jafn heitt.

Friday, 14 December 2007

27

Ég fór ekki langt. Mundi eftir litlu hóteli nokkrum götum frá íbúð Önu-Feliciu og þangað hélt ég í morgun. Nennti ekki lengra.Nóttin hér er ódýr, herbergið sjúskað og þreytulegt en rúmið dugar alveg. Myndin fyrir ofan rúmið vakti strax athygli mína og fékk mig til að hugsa um tilviljanir. Þetta var gömul ljósmynd frá Íslandi. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Hérlendir virðast elska Ísland. En myndefnið var ekki ein af okkar fjölsóttu ferðamannaparadísum. Ljósmyndarinn stóð uppi á heiði og tók myndina niður í þröngan fjörð, fjöllin há og tignarleg beggja vegna. Ég þekki þennan fjörð. Í botni hans dó pabbi. Í öðrum firði skammt frá stendur gamla þorpið mitt.

Pabbi dó á voveiflegan hátt. Ég man að þá heyrði ég í fyrsta sinn þetta orð og mér hefur alltaf þótt eitthvað fallegt við það síðan, þrátt fyrir að það tengdist jafn sorglegum atburði. Að eitthvað sé voveiflegt. Þennan morgun lagði pabbi snemma af stað að heiman og hélt út í sveit. Hann sagði mömmu að hann ætlaði að vinna smíðavinnu fyrir bónda sem þar bjó. Þangað væri förinni heitið. Veður var milt og fallegt. Hvít snjóbreiða yfir öllu. Kyrrð í lofti. Þessi dagur er mér ljóslifandi. Pabbi var farinn áður en ég vaknaði. Mamma komin í vinnuna. Ég fékk mér morgunmat, klæddi mig, skólataskan beið mín í ganginum, ég tók hana upp og hélt í skólann. Þetta var eins og hver annar skóladagur, nema að ég man hann upp á mínútu. Við vorum í snjókasti fyrir utan skólann, ég og vinir mínir, þegar ég sá mömmu koma hlaupandi.

Bíllinn fannst ofan í á. Pabbi var látinn þegar að honum var komið. Það sem gerði atvikið undarlegra en ella, var að í ljós kom að bóndinn átti ekki von á pabba í smíðavinnu. Slík vinna hafði aldrei staðið til.

Líðan mín fer upp og niður. Hvað ég óska þess að hausinn á mér sé ekki þessi rússíbani. Ég er búinn að hringja oftar en einu sinni í Guðrúni en ennþá hefur hún ekki svarað. Seinni partinn fékk ég mér göngutúr að heimili vinkonu hennar. Þar stóð ég fyrir utan lengi vel án þess að koma auga á hana. Vinkona hennar hvergi sjáanleg heldur. Á einni af dyrabjöllunum sá ég íslenskt nafn sem ég kannaðist við, en þær svöruðu ekki þótt ég hringdi nokkrum sinnum. Allt í einu fannst mér eins og það væri verið að hafa mig að fífli. Verið að spila með mig. Og ég hugsaði sem svo að ég ætti það sjálfsagt skilið. Og ég hæddist að barnaskapnum í mér að halda að nú færi lífið að leika við mig.

Þessi mynd á veggnum fær mig til að hugsa skrýtnar hugsanir. Áður en ég vissi af var ég farinn að tala upphátt við pabba. Það hef ég aldrei gert. Ég spurði hann hvort hann vissi af hverju ég er eins og ég er. Og ég skammaði hann fyrir að fara án þess að kveðja mig. Hann svaraði mér ekki. Ég fann hvernig ég sökk dýpra og dýpra niður í beddann. Ég fann til vanmáttar og ógleði. Ég reif mig upp, gekk að vaskinum og baðaði andlitið í kaldri lófaskál. Horfði á sjálfan mig í litla speglinum. Hausinn á mér sagði mér að fara út. Ég fór í jakkann, greip handtöskuna og flýtti mér úr herberginu, niður stigann og út á götu. Áður en ég vissi var ég staddur í götunni sem ég flutti úr í morgun. Á fyllibyttubekknum sat mannvera. Kallinn sem hafði ekki látið mig í friði og þóttist eiga eitthvað vantalað við mig. Hann sat þarna einn. Ég gekk að bekknum og fékk mér sæti.

Thursday, 13 December 2007

26

Það er að lægja. Brátt verður allt gott. Ég þori varla að segja það, er ekki vanur því og hefði aldrei trúað því eftir það sem á hefur gengið: Allt endar vel. Þrátt fyrir erfiða kvöldstund hér heima með Önu-Feliciu líður mér vel því allt stefnir í þá átt að verða mér í hag. Ég dreg djúpt andann. Halla aftur augunum og rifja upp kossinn okkar Guðrúnar. Ég get ekki annað en brosað og ég finn hvernig hlýr straumur rennur frá hjartanu í mér og út í alla limi. Áðan heyrði ég Önu-Feliciu koma úr herberginu sínu og fara inn á klósett. Hún saug upp í nefið, hafði greinilega verið að gráta. Hún tekur þessu nærri sér. Ég læt ekki eins og ég sé miður mín. Ég er glaður. Allt endar vel.

Við sátum lengi í stofunni í kvöld. Ég var enn rjóður í vöngum eftir útiveruna, gönguna með Guðrúni, og enn hæfilega kenndur af glögginni. Þrátt fyrir að hafa sagt Önu-Feliciu að við myndum ræða málin þegar ég kæmi aftur heim, átti ég erfitt með að tjá mig. Ana-Felicia sá að mestu um að tala. Hún var í fyrstu reið. Hún vildi vita hvort mér hafi einhvern tíma verið alvara með okkar samband. Hvort hún hafi leyft tilfinningunum í minn garð að verða að því báli sem raunin er til einskis. Hún spurði mig út í Guðrúni, hvort við ætluðum að taka saman aftur. Og hún spurði hvort hún hefði kannski átt að hlusta á íslensku vinkonuna strax í upphafi. Hvort þar væri jafnvel hinn eiginlega sannleika að finna. Svo grét hún. Ég þagði í fyrstu. Svo sagði ég henni að mér þætti þetta leiðinlegt. Ég sagði henni að ég vissi ekkert um hvað við Guðrún ætluðum okkur. Ég sagði henni að ég vissi ekki hversu mikið mér hefði verið alvara með henni. Mér hefði oft liðið vel í kringum hana, en ég elskaði hana ekki og vissi að það myndi ég aldrei gera. Þá stóð hún upp, fór inn til sín og skellti hurðinni á eftir sér. Mér létti, því satt að segja nennti ég ekki að hafa þetta uppgjör mikið lengra. Mér fannst ekki vera tilefni til þess.

Ég ætlaði af fara að rísa upp úr sófanum og halda inn í herbergið mitt þegar hún birtist aftur. Hún sagðist vilja að ég pakkaði saman og færi út. Ég spurði hvort ekki væri í lagi að ég gisti eina nótt, það væri áliðið og ég vissi ekki hvert ég ætti að fara. Hún gaf samþykki sitt með þögninni. Nú ligg ég hér, í síðasta sinn á þessum sófagarmi, halla aftur augunum og nýt hlýjunnar innra með mér. Á morgun fer ég og finn ódýra gistingu þar til ég fer heim.

Ég hringdi í Guðrúni áðan. Hún svaraði ekki. Mig langar að skoða borgina með henni næstu daga. Vera með henni. Kannski að hún flytji sig frá vinkonu sinni og til mín þar sem ég verð.

Vonandi fer Ana-Felicia á réttum tíma í skólann í fyrramálið.

Tuesday, 11 December 2007

25

Ana-Felicia var skrýtin á svipinn þegar hún kom úr skólanum, dálítið eins og feimin. Líklega stafaði það af því sem hún sagði við mig í símann. Ég er ekki viss um að það hafi verið óvart. Núna beið hún eftir viðbrögðum frá mér. Hvort ég ætlaði að svara í sömu mynt. Eins og það stæði til. Ég þóttist ekki hafa tekið eftir þessari játningu hennar, sat í sófanum og skrifaði niðursokkinn á blað. Hún spurði mig hvort ég hefði tekið ákvörðun um hvar ég yrði um jólin. Ég sagðist þurfa að fara heim til Íslands. Hún spurði mig hvað ég yrði lengi, hvenær ég kæmi aftur. Ég sagðist ekki vita það með vissu. Hún vildi vita hvenær ég færi og ég nefndi fyrstu dagsetningu sem kom í hugann. Ennþá hef ég ekki pantað farið. Hún settist hjá mér. Ég virti hana ekki viðlits og hélt áfram að skrifa. Ég var að búa til bréf til hennar, sem ég vissi þó að ég myndi aldrei færa henni á máli sem hún gæti skilið. Þar voru ljótir hlutir sem myndu særa hana djúpt. En það var á vissan hátt þægilegt að hafa hana þarna við hliðina á mér á meðan ég skrifaði hvað mér bjó í brjósti. Hún sagði: "Þú hefur svo fallega rithönd. Bara að ég vissi hvað þú ert að skrifa." "Já, bara að þú vissir," svaraði ég lágt og hélt áfram.

Í morgun fór Ana-Felicia ekki skólann. Hún var búin að hella upp á kaffi og var að borða morgunmat þegar ég kom fram. Verkefnaskilum er víst að ljúka sagði hún mér, hún væri ekki að skrópa, ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. Jólafríið hennar er að sigla inn. Í dag hafði hún hugsað sér að fá mig með sér niður í bæ á skemmtilegan jólamarkað sem hún vissi um. Hún ætlaði að athuga með gjafir handa fjölskyldunni, við gætum sötrað á heitri glögg og rölt um í baðandi jólaljósunum. Þannig væri gaman að nýta tímann sem við hefðum saman áður en við héldum hvort til okkar heima. Ég sagði henni að ég kæmi með henni. Það gladdi hana.

Nokkru síðar hringdi síminn minn. Ana-Felicia sótti hann inn í svefnherbergi og auðvitað las hún nafnið á skjánum áður en hún rétti mér hann. Guðrún spurði mig hvenær ég ætlaði að fljúga heim. Hún væri að spá í að lengja dvölina um nokkra daga og datt í hug að verða samferða mér. Ég sagði henni að ég væri ekki búinn að panta flug, en nefndi sömu dagsetningu og ég hafði gefið Önu-Feliciu í gærkveldi, sem heppilegan brottfarardag. Guðrún hringdi líka til að athuga hvort ég væri laus. Hún ætlaði að fara á jólamarkað og langaði að bjóða mér með. Ég leit upp og sá hvar Ana-Felicia þóttist önnum kafin við að ganga frá hreinum þvotti. Ég sagði henni að ég væri laus og til í að hitta hana hvenær sem hentaði. Það gladdi hana.

"Þú mátt ekki halda að ég sé hálfviti," sagði Ana-Felicia við mig, þegar ég sagði henni að ég kæmist ekki með henni. Hún var róleg og yfirveguð, en greinilega miður sín. Hún braut saman þvott á meðan hún hélt áfram. "Ég veit að það er heimskulegt af mér að láta eins og ég læt. En ég er ástfanginn af þér, og þegar maður er ástfanginn gerir maður heimskulega hluti. Maður beitir öllum brögðum til að reyna að hafa hlutina eins og maður óskar sér að þeir séu. En ekki halda að ég sé hálfviti, því ég er það ekki." Hún starði á þvottastaflann, gat ekki hugsað sér að líta á mig, var greinilega að berjast við grátinn. "Ég ætla að drífa mig. Við tölum saman í kvöld," sagði ég og dreif mig út.

Við Guðrún áttum yndislegan dag á markaðnum. Við hlógum og fífluðumst, við drukkum alltof mikið af jólaglögg og Guðrún keypti ógrynnin öll af smádrasli sem hún ætlar að gefa í jólagjafir. Þegar ég kvaddi hana kysstumst við heitum löngum kossi.

Monday, 10 December 2007

24

Ég hafði ekki rumskað við að Ana-Felicia fór fram úr og í skólann. Síminn hringdi um hádegisbil og vakti mig af þungum svefni. Það var Guðrún. Hún áttaði sig strax á því að ég var sofandi og spurði hvort hún ætti að hringja seinna. Ég gat ekki hugsað mér að missa hana úr símanum, enda hafði ég glaðvaknað þegar ég áttaði mig á hver var á línunni. Hún spurði mig hvernig ég hefði það og ég svaraði því til að ég hefði það ágætt en að mig langaði mikið til að hitta hana. Hún virtist ánægð að heyra það. "Þú hefur þá líklega frétt af því að ég er í borginni," sagði hún. "Já, vinkona þín sagði mér frá því. Reyndar sagðist hún allt eins búast við að þú hættir við að koma þegar þú fréttir af því að ég væri hér." Hún hló. Sagði vinkonu sína alltaf vera tilbúna að taka ákvarðanir fyrir þá sem henni þætti vænt um. "Nei, ég varð auðvitað miklu æstari í að mæta á svæðið þegar ég frétti af þér," sagði hún. "Við þurfum að tala saman, ekki satt?" Ég samsinnti og við mæltum okkur mót seinnipartinn á veitingastað skammt frá íbúð vinkonu hennar.

Það var eins og hún væri að rétta fram hönd. Bauð mér að koma til sín. Af því ég skipti hana máli. Ég varð viðþolslaus inni í íbúðinni og gat ekki hugsað mér að dvelja þar meðan ég beið eftir að tíminn liði. Ég fór í sturtu, klæddi mig og dreif mig út. Þar sem ég gekk framhjá stóra trénu og fyllibyttubekknum, sem nú stóð auður, heyrði ég kallað á eftir mér. Af einhverjum ástæðum stöðvaði ég gönguna og leit við, þótt svo að ég þekkti röddina og vissi að þetta var sami auminginn og áður hafði angrað mig. Hann brosti þegar hann sá að ég veitti honum athygli, færði sig frá húsveggnum sem hann hafði stutt sig við og kom riðandi í átt til mín. Augljóslega ofurölvi. Hann byrjaði að tala, og eins og áður skildi ég ekkert af því sem hann sagði, en það sem hann sagði nú var svolítið sem ég hafði heyrt áður. Draumurinn um manninn sem ég slátraði. Þetta voru sömu orðin, sama þulan. Eins og í draumnum sagði þessi útlendingur sömu setningarnar aftur og aftur og horfði um leið beint í augu mín eins og til að fullvissa sig um að þessi sérkennilegu skilaboð kæmust til skila. Að ég næði þeim. Þegar hann var kominn til mín rétti hann fram aðra hendina, skítuga, stórt sár á einum fingri. Hann þagnaði og kinkaði til mín kolli. Ég kipptist við þegar ég fann hendina koma við bringuna á mér, og gekk hratt burt frá honum.

Guðrún sat við borð þegar ég kom, en stóð upp þegar hún sá mig og faðmaði mig að sér. Mér var nokkuð brugðið, þótt hún hefði hljómað vinaleg í símann átti ég ekki von á svo hlýlegum móttökum. Ég hélt henni fast í örmum mér, vildi helst ekki sleppa. Við pöntuðum okkur mat. Hún sagði mér upp og ofan af högum sínum eftir að ég hvarf hingað út. Hún talaði um vin sinn án þess að ég minntist á hann af fyrra bragði. Hann hefði haft samband þegar hann frétti að ég væri farinn. "Hann vildi ólmur ljá mér öxl sína til að gráta á," sagði hún og hló. "En ég gat engan veginn þegið hana. Hann er góður strákur, en ég átti erfitt með að vera í kringum hann á meðan ég var að átta mig á hlutunum. Við erum auðvitað saman í námi, en ég hef haft lítil sem engin samskipti við hann síðan þú fórst..."
"Guðrún," greip ég fram í fyrir henni. "Ég særði þig svo mikið. Mér þykir það leitt. Takk fyrir að leyfa mér að hitta þig til að segja þér það augliti til auglitis." Hún horfði á mig. Kinkaði kolli. "Það er rétt. Ég var mjög hrædd þetta kvöld. Fyrst var ég hrædd við þig, og svo kom tíminn þar sem ég var hrædd um þig. Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég var fegin að heyra það frá mömmu þinni að þú værir heill á húfi."

Þessi fundur okkar var betri en ég hafði nokkurn tíma þorað að vona. Guðrún spurði mig út í nýju kærustuna mína, hver hún væri og hvort ég væri hamingjusamur. Ég sagði henni að samband mitt við Önu-Feliciu væri búið. Við hefðum ákveðið í sameiningu að láta gott heita og slíta því. Ég væri á leiðinni til Íslands og hún vildi einbeita sér frekar að náminu. Ég held að þau tíðindi hafi glatt hana. Þegar við kvöddumst ákváðum við að hittast aftur mjög bráðlega, en hún sagðist fljúga heim eftir tvo daga.

Núna sit ég heima einn. Ana-Felicia hringdi og sagðist þurfa að eyða tíma í verkefnavinnu í skólanum í kvöld. Hún sagðist hlakka til að sjá mig, og í lok símtalsins missti hún út úr sér að hún elskar mig.